laugardagur, nóvember 27, 2010

Kosningaréttur og nýting hans

Það var ekki mín hugmynd að breyta stjórnarskránni. Það var ekki heldur mín hugmynd að halda stjórnlagaþing, né hefði ég viljað hafa persónukjör. En úr því að boðað var til kosninga þá kynnti ég mér auðvitað frambjóðendur og ég mætti auðvitað á kjörstað og ég kaus.

Ég kaus líka í Icesave kosningunni og var ég þó beinlínis á móti því brölti og vissi fyrirfram að afstaða mín yrði kaffærð í háværum hrópum þeirra sem halda að við getum komist upp með að borga ekki Icesave. En ég mætti samt á kjörstað þó tilgangsleysið hafi verið yfirþyrmandi.

Það eru eflaust fullt af góðum ástæðum fyrir því að svo margt fólk sleppir því að kjósa núna. Ég veit það manna best hve tímafrekt það var að kynna sér frambjóðendur og velja úr hópnum. En andskotinn hafi það að ég myndi bara sitja heima og láta aðra um að ráðskast með hluti sem munu á einn eða annan hátt hafa áhrif á líf mitt í framtíðinni.

Ég tek undir með Betu baun og lýsi frati á fólkið sem nýtti ekki atkvæðisrétt sinn. „Þeir sem ekki nenna að sinna lýðræðislegri skyldu sinni eiga ekki skilið að búa við lýðræði,“ segir Beta og ég get bætt því við að mér finnst að slíkt fólk hafi fyrirgert rétti sínum til að kvarta yfir neinu því sem er í núverandi stjórnarskrá og því sem verður í næstu stjórnarskrá.

En burtséð frá því að finnast kosningaþátttakan svekkjandi þá var ég sæl og glöð þegar ég kom útaf kjörstað og horfði uppí stjörnurnar og norðurljósin. Ég hafði nýtt kosningaréttinn minn, sem konur höfðu barist fyrir að ég fengi, og valið 25 afar frambærilegar manneskjur á listann* vitandi að hver einasta þeirra myndi sóma sér vel sem fulltrúi á stjórnlagaþinginu. Ég hef alltaf þá reglu að kjósa eftir málefnum en ekki manneskjum** og fylgdi henni líka núna.

Ég valdi fólk — aðallega konur — sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju og að landið sé eitt kjördæmi þar sem atkvæði allra landsmanna vega jafnt. Allt þetta fólk vill auðvitað jafnrétti kynjanna og að engum væri mismunað eftir uppruna, kynhneigðar, fötlunar eða þess háttar. Þá vildu þau að Ísland yrði ávallt herlaust og tæki ekki þátt í hernaði á neinn hátt og ekki að hér væru geymd kjarnorkuvopn.*** Öll vildu þau auðvitað að auðlindir lands og sjávar væru sameign okkar allra en ekki einkaeign sem hægt sé að braska með. Mér var alveg sama hvort þau tengdu það ESB umsókninni eða ekki.

Nokkrir frambjóðendur tóku fram í könnun DV að þau væru andvíg því að dómarar verði kosnir af almenningi, en það þótti mér afar góð afstaða, en almennt virtust frambjóðendur vera svo æstir í fylgi sínu við persónukjör að þeir virtust ekki hafa hugsað dæmið til enda.**** Nokkrir frambjóðendur vildu tryggja stöðu táknmáls, og vermdu þrír þeirra fjögur efstu sætin á listanum mínum, enn aðrir réttindi dýra og var það yfirleitt en ekki alltaf trygging fyrir að komast á listann. Sum fengu rokkprik fyrir að standa uppi í hárinu á jeppaeigendaklúbbi sem vill fá að tuddast upp um öll fjöll og firnindi. Engum var vísað út fyrir að kjósa Sjálfstæðisflokk eða Framsókn — slíkt fólk komst aldrei á blað hvorteðer. Umburðarlyndi mitt sýndi ég með því að kjósa tvo Akureyringa.

Ég gerði a.m.k. mitt besta.

___
* Síðdegis í dag voru ennþá 88 manns á honum áður en ég hóf mikinn og sársaukafullan niðurskurð þar sem mér fannst ég svikari og illmenni í hvert sinn sem ég eyddi nafni prýðilegrar manneskju með frábærar skoðanir útaf listanum.

** Af þeim sem ég kaus hef ég átt orðastað við fjórar þeirra án þess þó að til kunningskapar hafi komið og ein er fyrrverandi skólasystir mín sem heilsar mér ekki nema ég heilsi henni fyrst. Ég kaus semsagt ekki vini og kunningja og var þó ágætur fyrrverandi bekkjarbróðir minn í kjöri (sem alltaf heilsar) og fleira fólk sem ég er mismunandi mikið málkunnug. Annar bekkjarbróðir fauk út í niðurskurðinum síðdegis, það var heldur ekkert persónulegt. (Enginn ættingja minna var í framboði svo ég viti til, kannski er ég sú eina í ættinni sem er með skoðanir?) En þó kunningjar eigi ekki greiða leið á minn kjörseðil þá sniðgeng ég hiklaust fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni og fer í taugarnar á mér alveg sama hversu mikið af lífsskoðunum við eigum að öðru leyti sameiginlegar.

*** Ég held að ég megi fullyrða að þetta eigi við um allt fólkið sem ég kaus en það voru nokkrir einstaklingar sem höfðu frábærar tillögur um hvað ætti að vera í stjórnarskrá sem yfirskyggði að eitthvað atriði var ekki 100% eins og ég hefði viljað, þannig eru sum þeirra sem ég kaus hlynnt persónukjöri þó ég sé það alls ekki (og síst eftir þessa kosningu!) en vegna þess hve ríkjandi sú skoðun var meðal þeirra sem buðu sig fram þá fannst mér að ég gæti ekki látið það skemma fyrir annars góðum frambjóðanda, þó það réði stundum úrslitum í niðurskurðinum þegar um var að ræða tvær manneskjur með nánast sömu áhersluatriði og önnur þeirra vill persónukjör en hin ekki. Það slapp meira segja inn ein kona sem ég veit ekki hvort er feministi, því hún sagði ekkert í þá áttina neinstaðar, en aðrar hugmyndir hennar voru frábærar (og frábærar konur hljóta að vera feministar!) svo hún fékk mitt atkvæði.

**** Hver vill fleiri dómara í boði Sjálfstæðisflokksins? Eða að Jón Ásgeir geti sett fé og mannsöfnuð í að koma réttum mönnum í dómarasæti?

Efnisorð: , , , , , , , ,