Velupplýst kjósönd með valkvíða
Ég hefði gjarnan viljað kjósa utankjörstaðar til að forðast biðraðir en gallinn er sá að ég er hreint ekki búin að gera upp við mig hvaða frambjóðendur lenda á listanum mínum. Fyrst um sinn skemmti ég mér yfir þeirri hugmynd að kjósa eingöngu konur — svona til mótvægis við alla þá karlmenn sem eflaust munu eingöngu kjósa karlmenn af gömlum vana og afþví að þeim finnst konur ekkert eiga uppá dekk í þessum efnum frekar en annarstaðar.* En eftir því sem ég kynnti mér fleiri frambjóðendur þá varð mér ljóst að þar á milli eru einstaklega frambærilegir karlmenn, svo frambærilegir að þeir jafnast næstum á við konur, og eru því allar líkur á að einhverjir þeirra komist á listann minn.
Ég hef lagt allt kapp á að kynna mér frambjóðendur umfram kosningaræðurnar sem hljóma flestar mjög keimlíkt. Ég ber saman svör þeirra á DV, Svipunni, hjá Biskupsstofu og hjá Félagi umhverfisfræðinga auk þess sem ég fylgist með bloggum sumra þeirra og hjá þeim sem mæla með þeim. Mest um vert þykir mér þegar fólk vill aðskilnað ríkis og kirkju, því eins og einhver benti á, þá má nota lagabreytingar til að knýja fram aðskilnaðinn án þess að stjórnarskránni sé breytt, en alþingismenn munu líklega aldrei taka það upp hjá sjálfum sér nema stjórnlagaþing leggi til stjórnarskrárbreytingu í þá átt. Þá finnst mér jafnt vægi atkvæða vera gríðarlegt réttlætismál og helst að landið verði þá um leið eitt kjördæmi.
Langflestir frambjóðendur — nema þeir sem vilja komast á stjórnlagaþing til þess eins að koma í veg fyrir breytingar á stjórnarskránni — vilja að allar auðlindir til sjávar og sveita séu í eigu almennings og verði ekki framseljanlegar, það sjónarmið aðhyllist ég líka, svo og að Ísland verði alltaf herlaust og taki aldrei þátt í hernaði gagnvart öðrum þjóðum hvorki beint né óbeint t.d. með afnotum af landi, lofthelgi, landhelgi eða mannafla.
Flestir frambjóðenda vilja að að íslenska verði bundin í stjórnarskrá sem þjóðtunga en nokkrir gera fyrirvara við það. Einn þeirra segir þetta á bloggsíðu sinni (sem ég hef lesið í mörg ár):
„Það vilja margir að það verði grein í nýrri stjórnarskrá þar sem kveðið sé á um það að íslenska sé opinber þjóðtunga. Ég er einn þeirra. En það verður þá um leið að tryggja rétt þeirra sem tala hana ekki. Það þarf að ganga kirfilega frá því að víst sé að slíkt ákvæði troði ekki á mannréttindum þeirra sem skilja ekki opinbera tungumálið. Þetta má ekki bara vera einhver grein sem við setjum inn án frekari umhugsunar, til þess eins að geta mært okkur af henni á dögum eins og í dag.“**Þarna er bæði gert ráð fyrir innflytjendum og heyrnarlausum sem árum saman hafa barist fyrir því að táknmál sé skilgreint sem móðurmál þeirra. Eins og annar frambjóðandi orðar það: „Ef Ísland skilgreinir opinbert tungumál í stjórnarskrá á annað borð, hygg ég að það sé eðlilegt að gera íslenskt táknmál einnig að opinberu máli heyrnarlausra á Íslandi, samhliða íslenskunni.“ Þessi sjónarmið verða að vera uppi á stjórnlagaþingi.
Þá finnst mér mjög gott þegar fólk nefnir réttindi dýra. Samkvæmt fréttum síðustu daga veitir ekki af.
Auðvitað skiptir það mig miklu máli að fólk sé hlynnt kvenréttindum og svona yfirlýsingar eru sem englasöngur í mínum eyrum: „Ég vil sjá ákvæði í stjórnarskrá um jafna skiptingu kynja; á alþingi, í ríkisstjórn, hæstarétti, dómstólum, öllum stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og helst almennt í þjóðfélaginu.“ Ég hef reyndar ekki látið mér nægja yfirlýsingar frambjóðenda um eigin réttsýni*** duga mér; ég gúggla fólki miskunnarlaust því oft leynast ummæli hér og þar sem benda til stækrar kvenfyrirlitningar. Slíkt líð ég ekki og svoleiðis hyski á ekkert erindi á minn lista.
Ég nota reyndar líka enn aðra útstrikunaraðferð sem er kannski umdeilanlegri. Enda þótt mér þyki eðlilegt að ýmiskonar þrýstihópar komi sínum málefnum að (t.d. um aðskilnað ríkis og kirkju) þá hef ég tekið eftir að meðal frambjóðenda eru grunsamlegir hópar manna sem ekki hafa úttalað sig sérstaklega um það sem sameinar þá en þó skera þig sig greinilega frá öðrum frambjóðendum vegna þess að þeir hópa sig saman og mynda þannig ákveðinn þrýstihóp. Sé listi yfir alla frambjóðendur lesinn má tildæmis sjá sautján karlmenn sem allir heita Jón, alla saman í röð. Þrettán manns heita Guðmundur, tíu Ólafur. Gíslar, Gunnarar og Sigurðar eru hver í sínum hóp en alltaf sjö saman, það er líka mjög grunsamlegt.**** Svona hópþrýsting kann ég ekki að meta og óttast mjög að hleypa svo mikið sem einum einstaklingi úr þessum hópum inn og forðast því þá alla.
En nú er nóg komið af rausi því ég á enn langt í land með að fylla út listann minn.***** Líklega verð ég síðasta manneskja inná kjörstað á morgun, en örugglega ekki ein þeirra sem koma illa upplýstar til leiks.
___
* Mér finnst reyndar afar mikill galli á þessu stjórlagaþingskosningaformi að það skuli ekki vera skylda að kjósa karla og konur jafnt (eða eina manneskju af öðru hvoru kyninu umfram hitt úrþví að kjósa á 25 manns) og skil ekkert í afhverju ekki var sett skilyrði fyrir kynjajafnrétti, það hefði varla náð að auka mikið á hið alræmda flækjustig kosninganna.
** Þar sem það er karlmaður sem hefur þessa afstöðu verð ég greinilega að opna á þann möguleika að hann komist á listann minn.
*** Einn þeirra sem auglýsa í blöðunum í dag segist vera „Góður gæi með hjartað á réttum stað“. Eins og mér þykir nú mikill skortur á góðum gæjum í veröldinni, þá heillar þessi yfirlýsing mig þó ekki.
**** Sex Pétrar standa líka saman á listanum. Fjölmennustu hópar kvenna eru Írisar og Þórunnir sem eru með fimm konur hvor og Guðrúnar og Kristínar hafa fjórar konur hvor hópur á sínum snærum.
***** Burtséð frá flækjustigi kosninganna þá held ég að þessar kosningar sýni að persónukjör sé afar flókið fyrirbæri ætli kjósendur að kynna sér frambjóðendur vel, eins og ég reyni að gera. Það er meiriháttar tímafrekt og hættan er alltaf sú að fólki fallist hendur og kjósi bara fræga fólkið eða þá sem það þekkir af eigin raun, burtséð frá því hvað frambjóðendur ætla sér að gera við umboðið.
Efnisorð: dýravernd, feminismi, hrunið, íslenskt mál, karlmenn, umhverfismál
<< Home