laugardagur, desember 11, 2010

„Merkilegir menn“ geta líka verið ómerkilegir kvennaníðingar

Í framhaldi af síðustu færslu ákvað ég að skrifa örlítið meira um karlmenn í valdastöðum og ásakanir á þeirra hendur. Undanfarið hafa nokkur mál komið fram í sjónarsviðið þar sem karlmenn, frægir, ríkir, vinsælir eða að öðru leyti valdamiklir (frægð, ríkidæmi og vinsældir eru völd sem mjög er beitt á vettvangi fjölmiðla) eru ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi gegn konum. Þá hefur ekki brugðist að fram ryðst skari aðdáenda þeirra, vina, fjölskyldumeðlima auk lögmanna með fulltingi fjölmiðla og ræðst gegn þeim konum sem hafa verið órétti beittar af hendi þessarra manna eða hverjum þeim sem vill rannsaka ásakanirnar. Stundum er um gömul mál að ræða en verða jafn heiftug fyrir því og eru aðdáendur og samstarfsmenn Roman Polanski ágætt dæmi, en þeir hafa unnvörpum lýst yfir sakleysi hans. Sama má segja um alla þá leiku og lærðu sem studdu Ólaf biskup á sínum tíma og Gunnar í Krossinum nú.

Um þessar mundir er forsprakki Wikileaks í haldi lögreglu vegna ákæru á hendur honum; og viti menn, fram spretta verjendur víða um heim sem fordæma þessa aðför að uppljóstraranum. Auðvitað er tímasetningin óheppileg, þ.e.a.s. að svo auðveldlega er hægt að segja að um samsæri sé að ræða til að þagga niður í honum vegna Wikileaks skjalanna sem skekja heimsbyggðina. En málið er bara það, að enda þótt allar hans uppljóstranir séu góðra gjalda verðar, þá segir það ekkert um heilindi hans á öðrum sviðum.

Nauðgun er valdbeiting og Assange er afar valdamikill maður um þessar mundir sem fjölmargir óttast og hata, og fara þar bandarísk yfirvöld fremst í flokki. Það að hann sýni vald sitt gagnvart konum er ekki sérlega fjarstæðukennt í mínum huga, enda þótt ég geti auðvitað ekki vitað um sekt hans eða sakleysi.* Að menn í valdastöðum beiti konur valdi** þykir mér þó ekki fjarstæðukennt og ég myndi seint skipa mér í raðir þeirra sem ákveða að útafþví að þessi og þessi maður er svo merkilegur þá geti ekki verið að hann hafi nauðgað eða beitt konur kynferðisofbeldi.

Annars skrifar Eiríkur Örn Norðdahl góða grein um þetta á Smugunni þar sem hann segir allt sem ég vildi sagt hafa, m.a. þetta:

„Þegar manneskja er sökuð um nauðgun er full ástæða til þess að rannsaka málið. Og reynist ásakanirnar ekki úr lausu lofti gripnar er full ástæða til þess að leggja fram ákæru. Þetta á líka við þegar maðurinn er Julian Assange – og þótt það væri Gandhi.“

Leiðtogar safnaða, leikstjórar eða pólitískar hetjur; þeir eru ekkert ólíklegri en aðrir til að beita konur kynferðisofbeldi, síður en svo.

___
* Athyglisvert er hve lítið er gert úr því sem virðist þó ekki vera umdeilt, að Assange notaði ekki smokk hvort sem svo um nauðgun var að ræða eða ekki. Það eru svoleiðis menn sem breiða út kynsjúkdóma en látið er eins og það sé uppgerðarkvein í konunum að hafa áhyggjur af því að hann hafi hugsanlega smitað þær af einhverju.
** Í Fréttablaðinu morgunin eftir að þetta var ritað er viðtal við Helga Gunnlaugsson í Fréttablaðinu um mál Gunnars í Krossinum og Ólafs biskups og ber það yfirskriftina „Kynferðisbrot í skjóli valdsins.“

Viðbót: Í árslok 2010 var fyrrverandi forseti Ísraels fundinn sekur fyrir nauðganir og kynferðislega áreitni. Hann hafði ítrekað nauðgað konu í starfsliði sínu þegar hann var ráðherra og síðar sýnt af sér ósæmilega hegðun og áreitt konur sem störfuðu hjá honum þegar hann var orðinn forseti. Það hefur þurft meira en lítinn kjark til að leggja fram kærur á hendur svona hátt settum manni en hann hrökklaðist úr embætti vegna þeirra.

Efnisorð: ,