miðvikudagur, janúar 19, 2011

Dregið út

Ég veit svosem alveg hvað átt er við þegar talað er um að draga þátttakendur eða vinningshafa út og veita þeim einhverskonar verðlaun. En mér finnst það samt alltaf hljóma furðulega.* Einu sinni var notaður hattur eða pottur og þá var talað um að draga nafn vinningshafa úr pottinum en nú virðist nafn vinningshafa engu máli skipta. Líklega er þetta einhverskonar stytting í málinu sem við eigum öll að skilja (og eins og fram er komið þá skil ég hana). Mér óar þó við því að taka þátt í leikjum þar sem niðurstaðan yrði e.t.v. sú að ég yrði dregin út. Fengi ég tíma til að fara í úlpu? Eða yrði ég bara dregin út á götu eins og ég stæði, yfirhafnarlaus, og kannski kalt úti? Hvað ef ég væri upptekin og vildi ekki láta draga mig út, yrði ég þá samt dregin út, æpandi?

Um daginn var stærðar auglýsing í blöðunum sem notaði þetta „draga fólk út“ orðalag og í dag var sama auglýsing birt aftur en nú tók hún minna pláss. Ég sá samt að enn var verið að hóta eftirfarandi:

Tveir krakkar á aldrinum 7-9 ára verða dregnir út

Ekki er upplýst hvaðan þeir verða dregnir út, hvert eða hvernig. Það virðist eiga að fara með börnin til útlanda, verða þau þá dregin aftan í skipi?

Svo á einhver fylgdarmaður að fara með þeim (er búið að ákveða hver það á að vera, kannski Jón stóri?) og þar verða krakkarnir látnir leiða leikmenn inn á völlinn í ótilgreindu landi. Ekkert er sagt um hvort þau verða dregin útaf honum aftur og send heim með fylgdarmanninum.

Mér finnst ljótt mál að draga krakka út. Vill enginn vita hvað börnin heita?
___
* Með því að gúggla „vinningshafar dregnir út“ fékk ég 91.800 niðurstöður. Engar niðurstöður fengust fyrir „nöfn vinningshafa dregin út“.

Efnisorð: