þriðjudagur, janúar 18, 2011

Að draga úr nagla er að draga úr mengun

Ég ólst upp í hreinustu höfuðborg í heimi í hreinasta landi í heimi. Þessa staðreynd auglýstum við í útlöndum og vegna hennar komu hingað þúsundir ferðamanna ár hvert. Þeim bentum við á þessi óumdeilanlegu gæði og það var gott. Einn góðan veðurdag vöknuðum við upp við að vindar höfðu breyst, eða öllu heldur fallið niður. Áður næstum óþekkt logn brast á í Reykjavík, ekki bara einu sinni heldur alloft. Rigning tók að falla lóðrétt niður í stað skáhallt eða í láréttum gusum í andlit fólks og var því nú hægt að nota regnhlífar eins og siðað fólk í útlöndum. Í ofanálag varð nú ekki vart ískaldrar golu í görðum og á svölum þegar taka átti til við sólböð og minnist ég sérstaklega þeirrar stundar sem ég lá í sólbaði og áttaði mig á að ég var ekki með gæsahúð eins og venjulega þegar strekkingurinn gerði lítið úr áhrifum sólarinnar á hörundið.

Þó logn þetta væri þannig ávísun á aukin lífsgæði þá á hér vel við orðatiltæki okkar trúleysingjanna: Drottinn gaf og drottinn tók. Því um leið og vindurinn hætti að blása um höfuðborgina þá kom í ljós að allar yfirlýsingar um að loftið yfir henni væri hreinna en annarsstaðar reyndist hreinasta skröksaga. Á logndögum liggur mengunarský yfir Reykjavík*. Það gerir illt verra að bílaeign borgarbúa hefur aukist gríðarlega á síðustu áratugum** og spæna þessir bílar upp malbikið sem ýrist upp í svokallað svifryk sem ekki bara skríður innum glugga hjá fólki til að mynda þunnt sandlag í gluggakistum, heldur þjappar sér í rólegheitum ofan í lungu borgarbúa.

Margsinnis hefur verið bent á að notkun nagladekkja sé ein helsta ástæða svifryksins því naglarnir eru jú helstu orsakavaldar þess að malbikið spænist upp. Samt er eins og stór hluti fólks, tæp 40% nánar tiltekið,*** vilji ekkert frekar en aka um á nöglum. Það væri athyglisvert að spyrja fólk hvort það geri það af vana eða hvort það trúi því í raun og veru að naglarnir breyti svo miklu um aksturshæfni bifreiðarinnar, og hvort þeir dagar á ári sem færð er þannig að það skipti einhverju máli séu svo margir að það sé réttlætanlegt.

Fyrir nokkuð mörgum árum lenti ég í þeirri aðstöðu að þegar ég ætlaði að setja ný vetrardekk undir bílinn minn þá fengust hvergi ónegld dekk af réttri stærð. Ég ók dekkjaverkstæða á milli og fékk allstaðar sömu svör þess efnis að einöngu væru til negld dekk. Þarna var umræðan um skaðlega notkun nagladekkja löngu orðin hávær og ég hafði nokkur ár á undan alltaf verið á ónegldum dekkjum og þó að tími væri kominn til að skipta þeim út þá var ég allsekki sátt við að fara aftur á negld dekk. Úr varð þó að ég keypti negld dekk og var heldur lúpuleg þann veturinn þegar ég ók um á auðum götum og spændi upp malbikið.

Um vorið þegar ég skipti aftur yfir á sumardekk tók ég þó til þess bragðs sem ég hafði haft í huga þegar ég keypti nagladekkin. Þegar ég kom heim frá dekkjaverkstæðinu sem sá um dekkjaskiptin, settist ég út á stétt í góða veðrinu með skrúfjárn í hendi og tók hvert dekkið á fætur öðru og plokkaði úr því naglana með skrúfjárninu.**** Það var auðvelt verk og mér leið mun betur á eftir. Ég hefði gert þetta áður en ég lét setja dekkin undir hefði ég getað, en mér hafði verið bent á að á ný dekk eru svo stíf að það hefði verið ómögulegt að potast með skrúfjárnið undir naglana og mér var ráðlagt að bíða með það þar til búið væri að keyra talsvert á dekkjunum. Næstu vetur á eftir ók ég því um á þessum dekkjum, naglalausum. Það voru góð skipti. Eftir það keypti ég svo naglalaus dekk nokkrum sinnum en nú notast ég við heilsársdekk, sem orðin eru mun betri en áður. Ekki varð ég þess vör þennan eina vetur sem ég var á nagladekkjum að mér fyndist öryggi mitt meira eða aksturseiginleikar bílsins betri þá daga sem snjór var og hálka en þeir dagar voru reyndar mjög fáir. Ég get því ekki sagt annað en: far vel nagladekk, ég þarf aldrei aftur á ykkur að halda.

Þeir ökumenn sem nú aka um á nagladekkjum ættu kannski að setjast útá stétt í vor og a.m.k. skoða þann möguleika að draga naglana úr dekkjunum og draga þarmeð úr mengun andrúmsloftsins. Þeir þurfa jú að anda því að sér líka.

___
* Mengunarský vegna sorpbrennslustöðvarinnar við Ísafjörð hljómar þó mun verr, engin spurning. En það er svosem hluti af ímyndarvandanum; hvernig útskýrum við slík ósköp fyrir útlendingum sem hafa verið lokkaðir hingað til að njóta óspilltrar náttúru og hreina loftsins?
** Á sama tíma hafa almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þaðeraðsegja strætó, annarsvegar verið úthrópaðar sem púkalegur valkostur og hinsvegar hefur það verið stefna rekstraraðila að þessi þjónusta eigi að skila hagnaði, og sérstaklega hefur það síðarnefnda orðið til þess að margt fólk hefur ekki minnsta geð í sér að eltast við síbreytilegt leiðakerfi og stopular ferðir.
*** Þessa tölu hef ég úr grein Hjálmars Sveinssonar, sem skrifar ágæta og þarfa grein um loftgæði og kostnað Reykjavíkurborgar (útsvarið) við að endurnýja malbikið, sem er 150 til 200 milljónir árlega.
**** Sumir naglanna voru horfnir úr dekkjunum og virðast þeir hafa spýst úr á ferðum mínum um bæinn. Ekki er þó ógætilegum akstri um að kenna enda er ég miðaldra kona sem ek afar varlega eins og þeirra er háttur. Kannski er orsakarinnar frekar að leita í þeirri staðreynd að ég er lélegur bílstjóri, en það er genetískur ágalli sem ég þarf að burðast með eins og allar konur.

Efnisorð: ,