föstudagur, janúar 28, 2011

Siðblinda skilgreind út í hörgul

Fyrir réttu ári síðan skrifaði ég langan pistil um siðblindu. Hann hafði lengi verið að gerjast í kollinum á mér og hafði ég m.a. skrifað í neðanmálsgrein við færslu í apríl 2008 að til stæði að skrifa um siðblinda glæpamenn. Ég kom því loksins í verk þarna í janúar í fyrra en þá hafði mér bæst óvæntur liðsauki á mörgum bloggsíðum þar sem fólk birti skilgreiningar á siðblindu (þýddar úr erlendum greinum um þessa persónuleikaröskun sem bloggarar töldu líklegt að fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, bankastjóri og nú ritstjóri sé haldinn) sem ég var þakklát fyrir enda staðráðin í að brúka til eigin nota.

Málið var bara að þegar ég hafði ætlað að skrifa um siðblindu þá var það í allt öðru samhengi en við bankahrunið, enda þó ég efist ekki eina mínútu um að innan vébanda útrásarvíkinganna og annarra fjárglæframanna sé siðblindingja að finna.

Ég hafði nefnilega fyrst og fremst nauðgara í huga þegar ég ákvað í upphafi að fjalla um siðblindu en þegar ég svo loks lét verða af því þá hnýtti ég ýmsu fleiru samanvið. Pistill minn (fyrir lesendur sem nenna ekki að elta tengilinn og lesa hann hér) skiptist því í kafla þar sem var fjallað um einkenni siðblindu, klám, kúgun, nauðganir, dýraníð, einelti og annað ofbeldi, nauðsyn þess að lög og reglur séu markviss og feli í sér skýr skilaboð, og um frjálshyggjusamfélag sem kjörlendur siðblindunnar. Þetta var allt skrifað án þess að vísa í heimildir og í talsverðri belg og biðu enda þótt kaflaskiptingin væri viðleitni mín til að koma reglu á óreiðuna.

En nú hefur Harpa Hreinsdóttir skrifað afar fróðlega röð af færslum um siðblindu á bloggi sínu og eru færslurnar rökstuddar með ótal vísunum, tenglum og heimildaskrá sem vert er að lesa. Yfirskrift pistlaraðarinnar er Þófamjúk rándýr sem læðast og virðist hún ætla að verða mjög yfirgripsmikil og ítarleg. Þegar þetta er skrifað hafa birst sex pistlar og fer stutt efnisyfirlit um þá hér á eftir og mun ég bæta við eftir því sem færslum Hörpu fjölgar. [Viðbót í árslok 2011: Harpa hefur sett allar færslurnar á einn stað, vefinn siðblinda.com.]

1. Fyrsti pistill Hörpu um siðblindu heitir Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, I. hluti og fjallar um einkenni siðblindu.

2. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, II. hluti.
Annar pistill hefur undirtitilinn Á hverju þekkist siðblindur og hvernig kemst maður heill frá slíkum kynnum.

3. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III. hluti.
Fórnarlömb siðblindra: Konur. Þessi færsla og þær næstu eru um áhrif siðblindra á þá sem standa þeim næst, þ.e. elskendur, maka, börn; byrjað á ástkonum. (Allar þær færslur eru flokkaðar undir þriðja hluta umfjöllunarinnar hjá Hörpu en ég tel þær hverja fyrir sig).

4. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III. hluti.
Í hjónabandi með siðblindum.

5. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III. hluti.
Börn siðblindra. Hér er fjallað um það hvernig áhrif það hefur á börn að alast upp hjá siðblindum. Einnig gerir Harpa grein fyrir hugsanlegum orsökum siðblindu.

6. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV. hluti.
Siðblindir á vinnustað. Hér er einnig fjallað um einelti á vinnustað þar sem siðblindir eru oft gerendur.

7. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV. hluti.
Siðblindir í kirkjunni. Hér segir meðal annars: „Þegar maður nær tangarhaldi á sambandi fólks við guð öðlast maður ríkulegt vald.“

8. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV. hluti. Siðblindir í viðskiptum. Hér fjallar Harpa m.a. um samstarf og niðurstöður rannsókna þeirra Pauls Babiak og Roberts D. Hare sem skrifuðu bókina Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work, sem Harpa þýðir sem Höggormar í jakkafötum. Hér ber Enron aðallega á góma en íslenskir bankamenn minna enda þótt þeir leiti mjög á hugann við lesturinn.

9. Skólastjórar sem leggja kennara í einelti. Þessi pistill hefur undirtitilinn Möguleg siðblinda með í spilinu? og er einskonar utandagskrárumræða hjá Hörpu því hann er ekki undir yfirskriftinni Þófamjúk rándýr sem læðast eins og hinir pistlarnir um siðblindu.

10. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda V. hluti. Orsakir siðblindu. Hér er fjallað um líffræðilegar orsakir, arfgengi siðblindu og áhrif félagslegra þátta auk þróunarfræðilegra skýringa. Harpa segir að Robert D. Hare hafi reyndar haldið því fram að það þýði lítið að reyna að greina á milli þess hve miklu leyti félagslegar aðstæður, umönnun og uppeldi í bernsku og æsku o.fl. þess háttar skipti máli og að hve miklu leyti erfðir, enda telur hann að siðblindum sé ekki viðbjargandi hver sem orsök röskunarinnar sé talin.

11. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, V. hluti. Lækning siðblindu. Hér er fjallað um aðgerðir á heila, meðferð á heila og notkun tölvutækni til breytinga á heila, lyf, sálfræðimeðferð ýmiss konar og sagt frá kenningu Robert D. Hare um að siðblindueinkenni dvíni með aldrinum (siðblindum takist að einhverju leyti að laga sig að samfélaginu þótt persónuleikaeinkenni þeirra séu óbreytt, þ.á.m. megindrættirnir sjálfselska, drottnunargirni og kaldlyndi) og einnig sagt frá gagnstæðri kenningu sem segir að siðblindir brenna út eftir róstursamt líf og langvarandi dulda þjáningu þeirra; eftir því sem aldurinn færist yfir siðblinda geta þeir ekki viðhaldið orkufrekum lífsstíl sínum. Þeir brenna út og fyllast depurð þegar þeir líta um öxl á hvíldarlaust líf sitt þar sem fátt er um ánægjuleg samskipti við annað fólk.

12. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, VI. hluti. Hugtakið siðblinda og þróun þess. Hér er sagt frá því hver kom fyrstur fram með hugtakið siðblinda og hvernig það hefur verið notað á mismunandi hátt í geðlæknisfræðinni. Harpa birtir einnig töflu sem er yfirlit yfir helstu hugtök sem læknar hafa notað yfir siðblindu frá upphafi og hugtök sem notuð hafa verið í stöðlum; lýsingu á siðblindu og horfur á bata.

Hér eru nokkur hugtakanna sem gott er að hafa á hraðbergi á tveimur tungumálum, og ég vitna enn í Hörpu: „Af persónuleikaröskunum sem taldar eru í ICD-10 kemst „félagsleg persónuleikaröskun“ (Dyssocial Personality Disorder) næst því að dekka siðblindu. Hún er undirflokkur Sértækra persónuleikaraskana. Innan félagslegrar persónuröskunar eru: Siðleysispersónuröskun (amoral), andfélagsleg persónuröskun (antisocial), ófélagsleg persónuröskun (asocial), geðvillupersónuröskun (psychopathic) og félagsblindupersónuröskun (sociopathic). Siðblinda hefur einnig verið nefnd „geðvilla“ á íslensku.“


13. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI. hluti. Íslenskun psykopatiu og umræða um siðblindu á Íslandi. Hér fjallar Harpa um orðin geðvilla og siðblinda, merkingu þeirra og notkun hér á landi. Hún mælir sérstaklega með rúmlega hálfrar aldrar gömlum texta eftir Benedikt Tómasson sem birtist í bókinni Erfið börn. Sálarlíf þeirra og uppeldi, ritstj. Matthías Jónasson ritstýrði og Barnaverndarfélag Reykjavíkur gaf út 1959. Kaflinn eftir Benedikt heitir „Geðvilluskapgerð“.

14. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI. hluti. Siðblinda í fræðum, trúarritum og bókmenntum. Harpa nefnir sem dæmi um trúarrit og bókmenntir: Manngerðir ( skrifuð árið 319 fyrir Krist), Biblíuna, Þúsund og eina nótt, Kantaraborgarsögur Chaucers, Egils sögu (ansi skemmtileg greining á Agli Skallagrímssyni), Brennu-Njáls sögu, Passíusálmana (þar sem ekki er minnst á siðblindu!), Sjálfstætt fólk (Bjartur, sbr. pistil Illuga Jökulssonar þar sem hann stafar ofan í fattlausa að Bjartur er ekki jákvæð fyrirmynd, reyndar sé hann „eitthvert versta skrímslið í samanlögðum íslenskum bókmenntum“). Af nýjum bókum nefnir Harpa: Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur og Snjóblindu Ragnars Jónassonar. Einnig er Andrés Önd nefndur til sögunnar.

15. Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VII. hluti. Lokafærsla um siðblindu. Hér rekur Harpa helstu áherslur sínar í færsluröðinni um siðblindu og gerir grein fyrir því hverju hún sleppti (jafnframt því sem hún reifar það lauslega), s.s. siðblindu í stjórnmálum, mannfræðirannsóknum á siðblindu í ýmsum samfélögum, siðblindugreiningu í lagalegu tilliti (og nefnir þar Geirfinns- og Guðmundarmál) og segir að eflaust séu siðblindir betur geymdir í öryggisgæslu á réttargeðdeild en í fangelsi. Þá skrifaði hún hvorki um fræga siðblindingja, s.s. Ted Bundy og Bernie Madoff, né um hvernig sjálfshjálparbækur ýta undir siðblinda hegðun. Harpa segir að henni þyki mikilvægara að gera sér grein fyrir áhrifum siðblindra í grennd og umhverfi, þ.e.a.s. hvernig siðblindur maður getur framið sálarmorð á sínum nánustu; hneppt fjölskyldu sína í gíslingu og valdið skaða sem í skásta falli tekur aðra mörg ár að vinna úr og í versta falli er óbætanlegur. Og hún tekur heils hugar undir ráðleggingar Roberts D. Hare og fleiri: Eina ráðið er að flýja sem fætur toga og því fyrr því betra!

Allt er þetta hin fróðlegasta lesning og á Harpa þakkir skildar fyrir framtakið.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,