sunnudagur, febrúar 06, 2011

Icesave, táknmál og ráðherrann sem brá

Síðastliðna viku hafa nokkur mál vakið athygli mína en mér hefur ekki fundist tilefni til að skrifa langar færslur um hvert og eitt, hef ég því ákveðið að ræða þau stuttlega í einni færslu.

Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra dauðbrá þegar hann komst að því hve margar konur eru beittar ofbeldi — en rannsókn sýndi að rúm 22 prósent kvenna sögðust hafa verið beitt ofbeldi í nánu sambandi einhvern tímann frá 16 ára aldri. (Sannarlega gæti ég skrifað langt og mikið mál um ofbeldi gegn konum en hér er ég fyrst og fremst með viðbrögð ráðherrans í huga). Kannski er þessari upphrópun hans ætlað að vekja athygli á málinu, sem er grafalvarlegt, þó Guðbjartur hafi gert sig hlægilegan með þessum viðbrögðum. Ofbeldi er staðreynd í lífi fjölmargra kvenna og viðvarandi ógn sem vofir yfir okkur öllum, en karlmenn hafa aftur á móti þau forréttindi að geta leyft sér að vera sér ómeðvitaðir um það og verða hissa.

Viðsnúningur Bjarna Ben og hluta þingflokks Sjálfstæðismanna í Icesave-málinu hefur vakið athygli. Fjölmiðlar hlaupa reyndar ekki upp til handa og fóta og tala um villiketti og klofning en fylgjast með þessu eins og Móse hafi verið að koma ofan af fjallinu. Sjálfstæðismenn hafa ítrekað sagt að þeir vilji ekki „þvælast fyrir góðum málum“ — og hegðað sér svo í hrópandi andstöðu við það allt frá því að þeir misstu stjórnartaumana — en nú taka þeir sérstaklega fram að núna séu þeir ekki að þvælast fyrir, núna sko. Skemmtileg tilbreyting frá því að valda eins miklum skaða og þeir geta eingöngu til að klekkja á ríkisstjórnini eins og þeir hafa lagt í vana sinn hingað til. Þessu á almenningur allur greinilega að fagna. Þessi viðsnúningur er greinilega þvílíkt fágæti að Þorsteinn Pálsson, sem var ritstjóri áður og eftir að hann var formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lýst því yfir að Bjarni Ben hafi tekið forystu í málinu. „Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að axla þá ábyrgð og teflir nú fram betri samningi með því pólitíska afli sem þarf til að koma málinu frá. 

Ráðherrarnir eru orðnir að eins konar fylgifiskum Sjálfstæðisflokksins í málsmeðferðinni.

Það að Bjarni hafi snúist á sveif með ríkisstjórninni þýðir semsagt ekki að hann fylgi henni að málum* heldur hefur hann nú forystu fyrir henni í þessu erfiða máli, segir fyrrverandi formaður flokksins. Skal það fært til bókar og skrifað í sögubækur framtíðarinnar: Bjarni Ben skrifar uppá samninga um Icesave. Eitthvað er nú bjargvætturinn skelkaður við óánægju flokksmanna (ekki má nota orðalagið 'hætta á klofningi' enda á það auðvitað bara um VG) svo hann þvertekur ekki fyrir að Icesave fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún myndi auðvitað fara nákvæmlega á sama veg og sú fyrri, þ.e. að mikill meirihluti segir nei sama hver spurningin er því fólk heldur upp til hópa að við sleppum við að borga hina tæru snilld Landsbankans, sem flokksbundnir Sjálfstæðismenn áttu og stýrðu. Þannig myndu reyndar allar þjóðaratkvæðagreiðslur um skattamál fara, eða hvernig væri ef fjárlög væru alltaf borin undir þjóðina?

Talandi um Sjálfstæðisflokkinn og ritstjóra; mér finnst furðulegt að komast að því að mbl.is sé mest lesni fréttavefur landsins. Þegar núverandi ritstj. tók við Morgunblaðinu sögðu ellefu þúsund manns upp áskriftinni í mótmælaskyni. Nú virðist sem þetta fólk og fleira til lesi blaðið á netinu. Var það þá fyrst og fremst að forðast prentsvertuna? Eða áttar fólk sig ekki á að auglýsingatekjur Moggans aukast við hvert skipti sem einhver skoðar sig um á mbl.is, og þannig styrkist ritstj. í sessi. Það er hægt að telja á fingrum annarrar handar hve oft ég hef farið inná mbl.is undanfarin ár, hefur það þá verið vegna þess að ég hef elt tengil þangað inn og ekki áttað mig á hvert leiðin lá. Mogginn í dulargervi var borinn í hús í vikunni en ég vissi það ekki fyrr en ég las um það á einhverju blogginu; ég hafði hent honum í endurvinnsluhrúgu ólesnum því ég hélt að þetta væri einhver ofvaxin ferðaskrifstofuauglýsing. Ég fiskaði hann því uppúr hrúgunni og fletti í gegn (ekki hrædd við prentsvertuna) og komst að því að ég var ekki að missa af neinu.

Jákvætt var að sjá að ríkisstjórnin er einhuga um að staða táknmáls verði tryggð með lögum. Frumvarpið, sem mennta- og menningarmálaráðherra mun leggja fram á þó eftir að fara gegnum umræðu og atkvæðagreiðslu þannig að (tákn)málið er ekki í höfn. Svona frumvörp hafa oft dagað uppi í nefnd.** Viðurkenning á táknmáli sem fyrsta máli heyrnarskertra (yfirleitt er ekki hægt að tala um táknmál sem móðurmál því fæstir heyrnarskertir eiga líka heyrnarskerta foreldra sem þeir læra málið af, þessvegna er talað um fyrsta mál) var eitt af stefnumálum nokkurra frambjóðenda til stjórnlagaþings (og tryggði það þeim atkvæði mitt) og því er jákvætt að ríkisstjórnin vilji gera að lögum málefni sem margt fólk vill sjá í stjórnarskrá (hver veit svosem hvenær henni verður breytt eða hvernig, en þarfyrirutan útilokar lagasetning ekki að táknmál fengi líka sess í stjórnarskránni) enda þótt það væri auðvitað kostur að hafa óhagganlegt ákvæði um táknmál í stjórnarskrá.

Svei mér þá ef það hefði ekki verið auðlæsilegra ef þessir þankar mínir hefðu verið hver í sinni færslu.

___
* Ég hef reyndar áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lofað stuðningi sínum við Iceasave samningana gegn því að fallið verði frá því að innkalla kvótann eða einhver annar skiptidíll sé undir. Í Silfri Egils var Samfylkingarþingmaðurinn Sigmundur Ernir greinilega á því að fara í stjórn með Sjálfstæðismönnum. Úff. Orð Tryggva Herbertssonar í kjölfarið voru ansi mögnuð, hann virðist vera ekki síður veruleikafirrtur en þegar hann var efnahagsráðgjafi Geirs Haarde á síðustu metrunum fyrir hrun.
** Svíar urðu þjóða fyrstir til að viðurkenna táknmál sem móðurmál döff fólks árið 1981. Nú 30 árum síðar hafa Íslendingar ekki enn fylgt í kjölfarið. Þó hefur frumvarp þess efnis ítrekað verið lagt fram, síðast 2007.

Efnisorð: , , , , ,