miðvikudagur, febrúar 02, 2011

Karlmenn komast upp með meira

Ég hef stundum sagt, en man ekki hvort ég hef viðrað þá skoðun mína hér, að jafnrétti sé náð þegar kona getur staðið sig hörmulega sem ráðherra án þess að vera álitin klúðra starfinu eingöngu vegna þess að hún er kona eða ætlast til að hún segi af sér, heldur þyki það bara eðlilegasti hlutur í heimi, svona eins og þegar Halldór Blöndal var ráðherra. Engin kona hefði komist upp með að standa sig jafn illa og hann, en hann var karlmaður og komst því upp með það.

Ég hélt alltaf að þegar ég nefndi Halldór Blöndal sem dæmi (og hann var gott dæmi þó margir aðrir karlar hafi líka komist upp með að vera lélegir í starfi) þá væri ég voða frumleg. Vissi þó að þetta með að jafnrétti væri ekki náð fyrr en konur kæmust upp með að vera lélegir ráðherrar væri meira og minna stolið, að minnsta kosti rámar mig í að hafa lesið það á bandarísku bloggi.

Nú þegar ég les gamla bloggfærslu Þórunnar Sveinbjarnardóttur þá sé ég að líklega hef ég eftir einhverjum leiðum verið að taka upp eftir henni. Hún segir:
„Ég er ekki viss um að ég þori að hætta mér út í umræðuna um ólíkar kröfur til útlits og hátternis stjórnmálamanna eftir kyni. Vil þó nota þetta tækifæri til þess að setja fram kenningu mína um það hvernær fullu jafnrétti stjórnmálamanna – kvenna og karla – verði náð hér á landi. Þessa kenningu setti ég fyrst fram á ógleymanlegum fundi Vesturlandsanga Kvennalistans í Borgarnesi árið 1993 og kalla hana Blöndals-kenninguna um jafnrétti í stjórnmálum. Hún er svona: Fullu jafnrétti stjórnmálakvenna- og karla verður náð þegar konur mega og geta verið jafn viðskotaillar, krumpnar og uppstökkar í störfum sínum og Halldór Blöndal (var) – og komast upp með það!“


Ég var ekkert að þvælast á fundi í Borgarnesi árið 1993 þannig að ekki hafði ég þessa Blöndals-kenningu frá Þórunni. Líklegra er að ég hafi heyrt hana eftir einhverjum leiðum, enda þótt mig reki ekki minni til þess. Kannski föttuðum við Þórunn bara uppá þessu hvor í sínu lagi, annaðeins hefur nú gerst.

Hvort heldur er, þá er kenningin góð.

Efnisorð: , ,