sunnudagur, febrúar 13, 2011

Tillitssemi

Ég hef lengi furðað mig á því að þegar einhver vill draga úr notkun ljótra orða og óviðeigandi orðalagi þá er kvartað undan „pólitískum rétttrúnaði“.* Íslendingar fundu reyndar ekki upp hugtakið „pólitískur rétttrúnaður“ heldur er það þýðing úr ensku (political correctness). Í Bandaríkjunum er því veifað við mörg tækifæri og alltaf sem einhverju neikvæðu, það er semsagt notað af þeim sem finnst fáránlegt að draga úr notkun ljótra orða eða líta svo á að orðalag geti verið óviðeigandi. Þannig finnst sumum Bandaríkjamönnum algerlega óþarft að hætta að nota n-orðin svokölluðu (negro, nigger) og líta á það sem pólitíska rétthugsun að segja „litað fólk“ eða „Bandaríkjamenn af afrískum uppruna“ (e. colored, African-Americans). Flestir hafa þó sætt sig við að n-orðin séu algerlega ótæk, vilji samfélagið á annað borð líta svo á að þeldökkir eigi sama rétt og aðrir.** Mannréttindabarátta sjöunda áratugarins, þar sem þeldökkir, konur og samkynhneigðir kröfðust virðingar og réttinda, á auðvitað sinn þátt í því að sum orð þykja nú ekki lengur við hæfi, enda þótt þau hafi verið óspart notuð áður.

Hér á landi hafa konur og samkynhneigðir barist fyrir sjálfsögðum mannréttindum og fengið flest baráttumála sinna samþykkt, a.m.k. samkvæmt lögum.*** Það er þó langt í land að þessir hópar njóti virðingar eða sanngirni á mörgum sviðum, og þá ekki síst í almennri umræðu. Um konur og samkynhneigða, þá sérstaklega homma, eru látin falla mörg ljót orð. (Sama má segja um fatlaða og aðra öryrkja). Sé reynt að sussa niður í þeim orðljótustu, æpa þeir að þeir þoli ekki pólitíska rétthugsun. Fæst af fólkinu sem notar þetta hugtak hefur nokkra hugmynd um hvað það þýðir.

Hugtakið sjálft gefur til kynna að einhverskonar pólitík liggi að baki, og fólk klínir ásökun um pólitíska rétthugsun einmitt helst uppá fólk sem það heldur að sé ósammála sér í pólitík, þ.e. kjósi annan flokk en það sjálft. Íslenska þýðingin á „correctness“ er skv. orðabók: í „samræmi við reglur, staðreyndir, siðvenjur“ sem er talsvert frábrugðið orðinu „rétthugsun“. Þeir sem heyra „rétthugsun“ virðast halda að þarna sé einhverskonar heilaþvottur á ferð. Það er þó ekki svo.

Það sem fólk, sem vill draga úr notkun ljótra orða og óviðeigandi orðalags vill, er einfaldlega að taka tillit til þeirra sem gætu heyrt eða lesið þessi orð. Orð geta sært. Sú sem er með litarhátt sem ekki er hinn viðurkenndi næpuhvíti eða er samkynhneigð, eða hefur einhverskonar reynslu sem erfitt er að höfð sé í flimtingum, hún á samtsemáður rétt á því að geta fylgst með fréttamiðlum og vefsíðum, eða gengið um göturnar án þess að eiga sífellt á hættu að lesa og heyra verstu uppnefni og níð sem hægt er að finna um nokkra manneskju eða þann hóp sem hún tilheyrir. Það er furðulegt að líta neikvæðum augum á það fólk sem hvetur til tillitssemi.

Takið nú hugtakið „pólitísk rétthugsun“ útúr orðaforðanum og prófið að setja „tillitssemi“ í staðinn,**** og spáið í hvort það myndi einhver láta útúr sér athugasemd á borð við „á nú að drepa niður alla umræðu með kröfum um tillitssemi?“ Jú, reyndar er til fólk sem finnst öll tillitssemi óþörf (líklega sama fólk sem beinlínis gengur í skrokk á öðrum) en öllu venjulegu fólki þykir tillitssemi að minnsta kosti að einhverju leyti mikilvæg, gott ef ekki nauðsynleg, í samskiptum manna á milli og í samfélaginu almennt.

Tillitssemi er jákvæð. Ekki berjast á móti henni. Þú veist aldrei hvenær umræðan fer að snúast um þig.

____
* Það er líka talað um forræðishyggju við svipað tilefni en hér vil ég aðallega skoða orðalagið „pólitískur rétttrúnaður“.
** Fyrir nokkrum árum var bókin Negrastrákar endurútgefin hér á landi (líka kölluð Tíu litlir negrastrákar) og þegar bent var á hið skelfilega viðhorf til þeldökkra sem þar mátti sjá, þá fannst sumum sem það væri barasta alltílagi, enda þótt þeim væri bent á að á Íslandi búa mörg börn sem gætu tekið það nærri sér, svo ekki sé nú talað um hin, þessi hvítu, sem þarna lærðu að fyrirlíta börn með annað útlit en þau sjálf.
*** Fatlaðir hafa ekki náð alveg eins langt, standa kjaramál þeirra í vegi fyrir því að hægt sé að segja að þeir séu jafnréttháir öðrum í samfélaginu. Sama má segja um aldraða, en umræðan um þá er sjaldnast mjög ljót þau þeir njóti sannarlega ekki þeirrar virðingar sem þeir eiga skilið.
**** Ég velti fyrir mér að nota „nærgætni“ í stað tillitssemi, en komst að þeirri niðurstöðu að það orð skilja ekki allir og auk þess eru líklega alltof margir sem eru svo uppteknir af því að líta bara sjálfum sér allra næst og passa uppá eigin hagsmuni, að þeir myndu halda að ég væri að hvetja til þess. (Sé það nú þegar ekki ljóst, þá er þessi bloggfærsla m.a. skrifuð í þeirri von að einhver lendi hér eftir að hafa gúgglað pólitískri rétthugsun.) Ég hefði líka getað notað orðatiltækið „aðgát skal höfð í nærveru sálar“ en það er eins og kunnugt er úr ljóði eftir Einar Benediktsson, og má lesa það erindi í bloggfærslu minni sem fjallaði einmitt líka um hina svokölluðu pólitísku rétthugsun. Önnur bloggfærsla sem ég skrifaði um hvernig fólk talar andstyggilega um aðra bar yfirskriftina Miskunnarleysi.

Efnisorð: , , , , ,