miðvikudagur, febrúar 09, 2011

Mótmæli í arabaríkjum og kosningaréttur almennings

Í Fréttablaðinu um helgina var heil síða lögð undir fréttaskýringu um mótmælaölduna sem skellur nú á arabaríkjum í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum, eins og segir í inngangi. Þetta er fróðleg fréttaskýring sem verður enn skiljanlegri þegar skoðað er meðfylgjandi kort af þessum heimshluta þar sem útskýrt er fyrir hvert land fyrir sig hvernig mótmæli ganga fyrir sig, eða líkur eru taldar á að uppúr sjóði. Einnig er löndunum átta stillt upp með mynd af leiðtogum þjóðanna og tölfræðilegum upplýsingum sem blaðamaðurinn hefur talið máli skipta. Þar er sagt hver leiðtoginn (á myndinni) er og hve lengi hann hefur setið á valdastóli, hvenær landið fékk sjálfstæði og frá hvaða nýlenduþjóð eða hvernig landið varð til (ekki jarðfræðilega heldur t.d. að Jemen varð til við sameiningu Norður- og Suður Jemen), sagt frá íbúafjölda, hve mörg prósent íbúa eru atvinnulaus, hverrar trúar fólk er, hve mikið af fólki er undir fátæktarmörkum og hvert hlutfall læsra er, allar þessar síðustu tölur eru í prósentum. Þessar upplýsingar segja heilmikla sögu í fáum orðum og tölum.

Einu virðist þó blaðamaðurinn hafa gleymt, og það er hvernig lýðræði er háttað í löndunum átta, þ.e.a.s hvort og þá hvernig kosningarréttur almenningur hefur. Einhvernveginn hélt ég að það myndi skipta máli, svona þegar einn leiðtoginn hefur þegar verið rekinn úr vistinni og hinir eru krafðir um að taka pokann sinn, en þær upplýsingar rötuðu ekki í fréttaskýringuna. Ég held reyndar að kvenkyns blaðamaður hefði ekki klikkað á þessu atriði. Í upplýsingum um kosningarétt almennings felast jú einnig upplýsingar um kosningarétt kvenna. Nú segir kosningaréttur kvenna einn og sér ekki allt um stöðu þeirra í samfélaginu en hann er samt sem áður vísbending, rétt eins og tölur um læsi.

Mér datt reyndar ekki í hug að blaðamaðurinn hefði ekki aðgang að þessum upplýsingum enda var ég nokkuð viss um að þær væri að finna á nákvæmlega sama stað og hann fékk allar hinar upplýsingarnar. Ég fletti því uppá vefsíðunni sem mér fannst augljósasti kosturinn: Staðreyndabók leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA The World Factbook). Þar eru nefnilega allar upplýsingarnar sem CIA hefur verið að safna sér um þjóðir heims undanfarna áratugi.* Ég fletti upp á Marokkó, svona útafþví að það var fyrsta landið sem var í fréttaskýringunni og athugaði hvort ég fyndi upplýsingar um leiðtoga, sjálfstæði, íbúafjölda, atvinnuleysi, trúarbrögð, hlutfall undir fátækrarmörkum og læsi. Þær fann ég allar og hver um sig stemmdi nákvæmlega við tölurnar í Fréttablaðinu.** Þar með var búið að finna hvaðan upplýsingarnar voru komnar. Ég leitaði þá að því hvort ekki væri hægt að finna eitthvað um kosningarétt, og var það hægur vandinn. Ég snaraði mér þá í að fletta upp Alsír, Túnis, Libíu, Egyptalandi, Jórdaníu, Sádi-Arabíu og Jemen og fann sömu upplýsingarnar fyrir þau öll.*** Þetta allt tók mig innan við tíu mínútur frá því að ég fór fyrst inná síðuna.

Marokkó: allir 18 ára og eldri hafa kosningarétt
Alsír: allir 18 ára og eldri hafa kosningarétt
Túnis: 18 ára og eldri hafa kosningarétt, nema þeir sem hafa setið inni í 3 mánuði eða meira eða hlotið skilorðsbundinn dóm til 6 mánaða eða meira. Þá mega lögreglumenn og hermenn ekki kjósa.
Libía: allir 18 ára og eldri hafa ekki bara kosningarétt heldur ber tæknilega séð skylda til að kjósa****
Egyptaland: allir 18 ára og eldri verða að kjósa
Jórdanía: allir 18 ára og eldri hafa kosningarétt
Sádi-Arabía: aðeins karlmenn sem orðnir eru 21 árs mega kjósa
Jemen: allir 18 ára og eldri hafa kosningarétt

Kannski fannst blaðamanninum þetta of einsleitt eða of flókið eða ekki skipta máli því það mega þó allavega flestir kjósa. Og allir vissu hvorteðer að konur mega ekki kjósa í Sádi-Arabíu. Fyrir mína parta þá mundi ég a.m.k. ekki hvernig þessu væri háttað í hinum löndunum og fannst því þessar upplýsingar því vanta í fréttaskýringuna.

Og ég bakka ekki með það, að hefði blaðamaðurinn verið kona, hefði þessar upplýsingar ekki vantað.

En nú ætla ég að flýta mér að loka CIA síðunni. Mér finnst alltaf þegar ég skoða hana að næstu daga á eftir sé fylgst með hverri hreyfingu minni í netheimum. Hvað þá eins og núna þegar ég hef verið að fletta upp hverju óróleikasvæðinu á fætur öðru.***** Yfir og út, skipti.

___
* Jæja, ekki allar, Wikileaks hefur víst sýnt fram á það.
** Upplýsingar um leiðtoga fást undir Government, sömuleiðis um sjálfstæði. Íbúafjöldi, trúarbrögð og læsi undir People, atvinnuleysi og hlutfall fátækra undir Economy.
*** Kosningaréttur, suffrage, er undir Government, beint fyrir ofan nafn leiðtogans. Ekki vandfundið.
**** Ekki hef ég hugmynd um hvernig þessari kosningaskyldu er framfylgt en held að þetta hljóti að vera íhugunarefni fyrir næstu kosningar til stjórnlagaþings.
***** Það er kannski ímyndun í mér, en eftir því sem ég fletti uppá fleiri löndum hægði á upplýsingastreyminu og aftur og aftur kom upp villumelding. Blikkuðu rauð ljós einhverstaðar?

Efnisorð: , ,