þriðjudagur, febrúar 22, 2011

Sumir öðlingar en aðrir eiginhagsmunaseggir

Það hefur verið mjög mikilvægur þáttur í baráttu kvenna, þeldökkra og samkynhneigðra fyrir jafnrétti að fólk sem tilheyrir ekki þeirra hópi sýni stuðning sinn í ræðu eða riti (og ekki síst með löggjöf). Það er alltof auðvelt að segja að hommar og lesbíur séu hávær hópur fárra og að þeldökkir séu fáfróðir og konur séu bara nöldrandi og enginn þurfi að taka mark á þeim — eða hvað það nú er sem fólk segir til að reyna að þagga niður í þessum hópum sem vilja bara sjálfsögð mannréttindi. Þessvegna skiptir máli að gagnkynhneigt fólk tali máli samkynhneigðra, hvítt fólk máli þeldökkra og karlar máli kvenna. Þó ber ekki að skilja það svo að mér finnist í lagi að hvítt fólk þykist hafa betra vit á málefnum þeldökkra en þau sjálf eða eigi að stilla sér upp í broddi fylkingar, gagnkynhneigt fólk láti sem það séu hinir einu sönnu málsvarar samkynhneigðra né að karlar tali betur fyrir jafnrétti eða eigi að vera í forsvari kvennabaráttu.

Þessvegna voru tilfinningar mínar blendnar þegar átakið Öðlingurinn 2011 var kynnt til sögunnar. Hugmyndin er runnin undan rifjum Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, sem ég þreytist seint á að hrósa, og fór þannig fram að í Fréttablaðinu og á Vísi birtust greinar eftir karlmenn um jafnréttismál dag hvern milli bóndadags og konudags, að báðum dögum meðtöldum. Ég áttaði mig reyndar ekki strax á því að ekki birtust allar greinarnar í Fréttablaðinu og mundi þaraðauki ekki alltaf eftir að fletta þeim upp á Vísi þannig að þegar átakinu lauk átti ég eftir að lesa nokkrar greinanna á Vísi. Það er skemmst frá því að segja að þær voru afar misjafnar. Sumar forvondar meira að segja. Ég veit ekki hvað réði vali á þátttakendum en sumir þeirra virtust illa skilja hvað átakið gekk útá. Það er reyndar talsverður galli hve misjafnan skilning fólk leggur í hugtakið jafnrétti.

Jafnrétti í sinni víðustu mynd nær yfir jafnrétti allra í samfélaginu en þó aðallega að sem barátta fyrir þá hópa sem hafa staðið höllum fæti af einhverjum orsökum og ekki verið metnir til jafns við hina hvítu gagnkynhneigðu miðaldra ófötluðu karlmenn sem eru þeir sem eiga alltstaðar auðveldast uppdráttar og njóta mestrar virðingar. Þannig er talað um jafnrétti fyrir konur, fatlaða, aldraða, samkynhneigða, þeldökka o.s.frv. Og auðvitað ber að stefna að því að allir þessir hópar hafi jafnan rétt og njóti sömu virðingar og fyrrgreindir karlmenn. En átakið Öðlingurinn átti samtsemáður ekki að snúast um alla þessa hópa, heldur jafnrétti kynjanna, í merkingunni baráttumál feminista. Samtsemáður létu sumir karlmannanna það eftir sér að tala um:

— að konur beiti karla ofbeldi og var gefið til kynna að þá þyki konum vera komið einhvers konar ofbeldisjafnvægi
— gjald karlmennskunnar, þ.e. að karlar leiti sér ekki hjálpar og fremji oftar sjálfsmorð
— „jafna foreldraábyrgð“ en með því eru þeir ekki að meina verkaskiptingu á heimili og við uppeldi barna meðan á sambúð stendur heldur á hin jafna foreldraábyrgð bara við eftir skilnað.*

Einhverstaðar fá þessir pistlahöfundar eflaust klapp á bakið fyrir að nota tækifærið til að skrifa um þetta í stað þess að vera að einhverju feministakjaftæði, en í mínum huga urðu þeir ekki miklir öðlingar fyrir vikið. Þeir eiga mun betur skilið titilinn Eiginhagsmunaseggurinn 2011, sem er reyndar yfirskrift leiðara Fréttablaðsins, þar sem Ólafur Þ. Stephensen fjallar um átakið og er greinilega talsvert jákvæðari á það en ég.

Þó get ég sagt að nokkrir Öðlings-pistlanna voru fyrirtak og vil ég nefna nokkra og set á þá tengil svo fólk geti lesið sjálft, því þeir eru hver um sig of langir til að planta í bloggfærslur hér, þó ég geti ekki svarið fyrir að ég muni birta einhverja þeirra síðar.

Öðlingarnir:

Andri Snær Magnason skrifaði um kvenfjandsamleg viðhorf drengja til kvenna og klámvæðinguna. Hann segir m.a.: „Það má velta fyrir sér hvort ekki sé þörf á miklu öfgafyllri femínistum ef almennilegt samfélag á að bíða þeirra sem hér alast upp. Getur verið að fyrri kynslóðir hafi ekki farið til helvítis vegna þess að foreldrum þeirra stóð ekki á sama? Er eitthvað að því þótt yngra fólkið þurfi að rökstyðja viðhorf sín og lífsgildi? Upp úr rökræðunni kemur þá einhver hugsun og samskipti, jafnvel einhver niðurstaða. Einhverjar mömmur þarna úti eru kannski of uppteknar við að raka á sér pjölluna til að halda í við netnotkun eiginmannsins. Einhverjir pabbar þarna úti hafa eytt fullmiklu púðri í að hafa áhyggjur af ,,öfgafullu" jafnrétti í stað þess að huga að því hvernig samfélag bíður barna þeirra. Það er hellingur af klárum og efnilegum krökkum þarna úti. Það er mikilvægt að hafa áhyggjur af þeim.“

Árni Beinteinn Árnason er 16 ára og þekkir því hvernig unglingar hugsa. „Þeirri hugmynd er snemma komið inn hjá strákum að karlmennirnir eigi að ráða. Það er ekki okkur að kenna. Þá hugmynd má rekja til kvikmynda, fjölmiðla, bókmennta og allrar umræðu. …Ég þarf að uppfylla staðalútlitskröfur og vera með í umræðunni í mínum samfélagshópi.
Allir aðrir eru í sömu sporum og ég og þess vegna þarf að sýna okkur umburðarlyndi og fullorðið fólk þarf að setja sig í okkar spor.“ Þörf áminning og vonandi er hann á réttri braut þrátt fyrir meinta aðdáun á slúðurstjörnum samtímans.

Guðmundur Andri Thorsson skrifar um karlmenn sem nauðga. Hann segir: „Það er verkefni okkar karla að minna unga menn á - og muna sjálfir - að konur eru ekki skrokkar til að veita karlinum unað heldur einstaklingar með sín réttindi, sínar tilfinningar, sínar þrár, sína sögu, sína fjölskyldu - sitt líf. Nógir eru hinir sem reyna að sannfæra okkur og strákana okkar um hitt: að konur skuli vera réttlausar, andlitslausar, sögulausar, fótumtroðnar; að það megi hata konur og niðurlægja þær. Það er verkefni okkar að minna unga karlmenn á að valdbeiting veitir engum unað, en eyðileggur allt. Að styrkur sé ekki dyggð í sjálfu sér, að sá sem noti líkamsstyrk og lömunarafl skyndiárásarinnar - eða notfærir sér rænuleysi - til að þröngva sér inn á aðra manneskju geri slíkt ekki af karlmennsku heldur af skorti á karlmennsku.“

Illugi Jökulsson skrifar um Rauðsokkuhreyfinguna (og fær rokkprik fyrir það) og kvenréttindi sem hann honum hafa fundist sjálfsögð alla tíð. Talar mjög gegn notkun orðsins „maður“ þegar átt er við karlmenn. „Og enn heyrir maður þetta vefjast fyrir fólki, og afleiðingin er þá sú að fólk sem talar um "menn" þegar það á við "karlmenn" á við - undir niðri - að karlmenn séu hinir einu sönnu fulltrúar mannkynsins.““

Jens Fjalar Skaptason minnist á ýmis konar ofbeldi og launamun, og klikkir út með: „Daginn sem kona hefur nákvæmlega sama aðgengi og karlmenn að valdastöðum í sínu landi er raunverulegur sigur. Daginn sem engin kona þarf að þola kynbundið ofbeldi er raunverulegur sigur.“

Óttar Norðfjörð skrifar um heimilisofbeldi. Hann hvetur karlmenn til að þagga niður í karlrembum, tala gegn misrétti og spyrja ef grunur leikur á að vinur þeirra sé að beita ofbeldi.

Paul Nikolov skrifar um stöðu kvenna af erlendum uppruna sem verða fyrir ofbeldi af hálfu maka og einangrun þeirra í samfélaginu.

Sigurður Magnússon bendir á að ábyrgð á heimilisstörfum og líðan stórfjölskyldunnar er enn á herðum kvenna, hann skrifar líka um misrétti á vinnustöðum og í stjórnsýslunni.

Stefán Ingi Stefánsson skrifar að það þurfi að fræða karlmenn um kynferðisofbeldi og „ gefa þau skilaboð að kynferðisofbeldi verði ekki liðið“.

Aðrir voru ágætir en ofantaldir bestir.** Segið svo að ég láti karlmenn sem styðja kvenréttindi ekki njóta sannmælis!

___
*Það væri stuð ef karlmenn hefðu jafn mikinn áhuga á börnum sínum meðan þeir búa með barnsmæðrum sínum og eftir að sambúð lýkur, og sæu ekki eftir hverri krónu sem fer í uppeldi barna sinna. Sá sem skrifaði pistilinn og þóttist mikill öðlingur var farinn að tala um peninga í sjöttu málsgrein, en það er einkenni karlmanna í forræðis- og umgengnisdeilum að sjá eftir hverri krónu sem fer í uppeldi barna sinna.
** Þaraf höfðu Andri Snær og Guðmundur Andri reyndar talsvert forskot vegna rithæfileika sinna — þeir skrifa þannig um þetta efni að ég hreifst strax með — en allir hinir voru fínir líka.

Efnisorð: , , , , ,