sunnudagur, febrúar 20, 2011

Ballið á Bessastöðum

Um leið og samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins voru samþykktir á þingi á miðvikudaginn byrjaði óvissan um hvort forseti Íslands myndi samþykkja lögin eða láta undan þrýstingi þeirra sem hafa þá skoðun eina að ekkert beri að borga, ekki krónu, aldrei.

Síðan þá hefur verið nákvæmlega sama spennan og þegar forsetinn sat síðast í þungum þönkum á Bessastöðum. Og bið okkar hinna hefur verið óþægileg, sama hvaða niðurstöðu við óskum eftir.

Þessvegna las ég Ballið á Bessastöðum nú í vikunni. Þetta er barnabók eftir Gerði Kristnýju, sem fyrr í mánuðinum fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin. Þau verðlaun fékk hún reyndar fyrir ljóðabók sem kom út í fyrra, en Ballið á Bessastöðum kom út hið margumrædda ár 2007. Núverandi forseti Íslands kemur ekki við sögu (nema einhver þykist kannski þekkja hann á mynd, en Halldór Baldursson myndskreytir bókina) og engar vísanir til pólitíkur er að finna í bókinni. Án þess að ég ætli að leggjast í einhverja bókagagnrýni eða stjörnugjöf þá get ég sagt að bókin er bráðfyndin og létti geð mitt mjög.

Í fyrra, meðan ég beið eftir að forsetinn skrifaði undir Icesave samningana, og fyrst á eftir að hann lét vita um þá ákvörðun sína að gera það ekki, lá ég í gömlum sjónvarpsþáttum sem minntu mig á betri og áhyggjulausari tíma. Til sama bragðs tók ég eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar varð ljós, enda var ég í mikilli þörf fyrir að flýja veruleikann.

Meðan á búsáhaldabyltingunni stóð greip ég líka til afþreyingarefnis af léttara taginu og þá, eins og núna, las ég barnabækur. Í þeim mátti lesa um skemmtilegar uppákomur og pínu pínulítil vandamál sem leyst voru yfir brauðsneiðum með sultu.

Nú stendur það uppá forsetann að ákveða hvernig bækur og sjónvarpsefni ég vel mér næstu vikurnar og jafnvel mánuðina. Enda þótt barnabækur séu bráðskemmtileg flóttaleið, rétt eins og gamlir sjónvarpsþættir, þá vildi ég gjarnan að andlegt ástand mitt væri þannig að ég réði við flóknara efni, jafnvel að horfast í augu við raunveruleikann í stað þess að forðast hann.

Eftir nokkra klukkutíma kemur í ljós hvort spennunni verður af mér létt eða hvort hún verður viðvarandi. Ég ætla ekki að vera heima. Þegar ég kem heim aftur býst ég við að ég viti leslista næstu vikna.

___
Viðbót, síðar sama dag:
Mér er allri lokið.

Efnisorð: ,