laugardagur, mars 05, 2011

Fjölmiðlar og fjármál (og dúlla, alger dúlla)

Í rannsóknarskýrslu Alþingis má lesa gagnrýni á fjölmiðla sem hafi brugðist í aðdraganda bankahrunsins. Margvíslegar ástæður eru gefnar fyrir því og vegur eignarhald fjölmiðlanna þar þyngst á metunum. Síðasta árið eða svo áður en allt fór til fjandans birtu fjölmiðlarnir reyndar skýrslur erlendra sérfræðinga sem sáu hvert stefndi og eru þeir því ekki taldir alslæmir.

Eitt af því sem mér fannst reyndar alltaf fáránlegt við fréttir um fjármál, var hve þær miðuðu við fólk sem hafði áhuga á hlutabréfamarkaði og starfsemi bankanna, en ég taldi á þeim tíma að mér kæmi slíkt ekkert við (ekki gat ég vitað að nokkrum árum síðar kæmi þetta okkur öllum svona mikið við!) og fylgdist því ekkert með þessum fréttum. Ég fylgdist stundum með erlendum fjölmiðlum og þar voru fréttir og greinar um fjármál sem tengdust heimilishaldi og neytendamálum. Ekkert slíkt sást í íslenskum fjölmiðlum, nema í skötulíki og húráðum á borð við að þvo gluggarúður með edikblönduðu vatni.

Mér fannst semsagt þarna fyrir nokkrum árum að það mættu vera fréttir, fréttaskýringar og greinar sem fjölluðu um eitthvað sem snerti almenning, ekki bara einhver frík í jakkafötum sem fylgdust spennt með sveiflum á Nasdaq og töluðu oftar um Dow Jones en árangur barnanna sinna í skólanum.

Núna, svona eftirá að hyggja, þá er ég reyndar sannfærð um að ef hér hefðu verið neytendaþættir í sjónvarpi (eins og tíðkast hjá ríkissjónvörpum hinna Norðurlandanna) eða sem fastir pistlar í blöðunum þá hefði neytendavitund okkar e.t.v. verið meiri. Þá hefðum almenningur (að því gefnu að það hefði verið rætt og útskýrt í slíkum þáttum) gert sér grein fyrir hvað yfirdráttarlán í raun þýddu, hve mikið óráð það væri að taka 90% eða jafnvel 100% lán til að kaupa stærri íbúð eða einbýlishús og hvað sveiflur á gjaldeyrismörkuðum (svo ekki sé talað um bankahrun!) gætu gert við myntkörfulán. Þá hefði fólk ekki gengið svo grunlaust að gylliboðum bankanna og ekki fjárfest ævisparnaðinn í bönkum sem riðuðu til falls.

En til þess að þetta hefði mátt verða, þ.e.a.s. að fjölmiðlar upplýstu okkur um það sem máli skipti í fjármálum einstaklinga og þar með þjóðarinnar, þá hefðu þeir þurft viljann til þess (sem eigendurnir höfðu bersýnilega ekki) og hæft starfsfólk. Fjölmiðlamenn eru auðvitað misjafnlega glöggir á tölur og annað sem máli skiptir þegar flytja á fréttir af fjármálum og svo hefur þeim kannski ekki fundist smart að vera að tala við almenning um smotterí eins og hvort það eigi að greiða upp lánin sín strax ef það getur eða borga þau á afborgunardag næstu áratugina. Sumum þeirra er líka eflaust fyrirmunað að tala þannig að skiljist; geta ekki útskýrt lykilhugtök á mannamáli.

Í dag birtist á Vísi frétt um að bankastjóradúlla Arion banka sé með 5 milljónir í laun á mánuði. Eftir allt sem hefur verið talað um ofurlaun þá finnst honum þetta sæmandi. Blessaður andskotans maðurinn. En þó það sé fréttnæmt útaf fyrir sig þá finnst mér eiginlega ennþá eftirtektarverðara það sem viðskiptafréttablaðamaðurinn skrifar um þetta mál.

Hann segir: „Bankastjóri Arion banka, Höskuldur H. Ólafsson, fær greiddar fimm milljónir í laun á mánuði og er því með ríflega helmingi hærri laun en forveri sinn, Finnur Sveinbjörnsson, sem var með með tæpar tvær milljónir á mánuði árið 2009.“

Meira segja ég, sem er talnablind, stærfræðistola og skil ekkert sem snýr að peningum, veit að fimm milljónir eru ríflega tvöfalt hærri upphæð en tæpar tvær milljónir. Helmingi hærri laun en tvær milljónir eru þrjár milljónir. Semsagt: „helmingi hærri“ er ekki það sama og tvöfalt hærri. Viðskiptafréttablaðamaðurinn er greinilega ekki upptekinn af slíkum smáatriðum. Helmingur hér og þar, hverju skiptir það. Það bara vill svo til að við eigum helst að geta trúað því að fjölmiðlafólk sé fært um — eða nenni — að tala við okkur á mannamáli og noti grundvallarhugtök á réttan hátt.* Líka þau okkar sem eru soldið vitlaus og skiljum ekki flóknu hugtökin.

En blessaður bankastjórinn, verði honum að laununum sínum. Ljótt að vera eitthvað að öfunda hann, er þetta ekki fjölskyldumaður? Örugglega dýrt að reka heimilið og svona. Ljótt að vera eitthvað að öfunda hann. Svo ber hann líka svo mikla ábyrgð …

___
* Ef marka má frétt DV sem birtist morguninn eftir Vísisfréttina, um launamál bankastjórans dúllulega, þá eru laun hans 4,3 milljónir á mánuði en ekki fimm og fyrrverandi bankastjórinn með 3,2 en ekki tæpar tvær. Dúllubossinn hafi afturámóti tvöfalt hærra kaup en bankastjórar sömdu um í lok árs 2008. Nú veit ég auðvitað ekkert um hvor blaðamaðurinn hefur rétt fyrir sér, en sá á DV skrifar ítarlegri frétt, er með nákvæmari tölur — og notar orðalagið „tvöfalt hærra“. Mér finnst hann þarafleiðandi ívið trúverðugri, og er ég þó nýbúin að kalla DV sorpsnepil. Sé það rétt, sem mér sýnist, að viðskiptafréttablaðamaður Vísis fari frjálslegar með tölulegar upplýsingar, þá hlýtur aftur að vakna svo spurning hvort hann leggi sig allan fram í starfi eða hvort eignarhald fjölmiðilsins (lesist: Jón Ásgeir) sé að þvælast fyrir. Það þykir kannski ekki mjög mikilvægt að fara rétt með upphæðir á þeim bæ.

Viðbót: Ég skrifaði líka um neytendavitund og fjármálalæsi í maí 2009 — en því hafði ég reyndar gleymt þegar ég skrifaði þetta hér að ofan.

Viðbót, löngu síðar: Þegar ég hlustaði á þátt í Ríkisútvarpinu um málfar áttaði ég mig á að það er fullkomlega rétt mál að segja „helmingi hærri“ í merkingunni tvöfalt hærri. Er því nöldur mitt hér að ofan um það atriði byggt á röngum forsendum. Sjá Ég horfist á augu við mistök mín, pistil sem er skrifaður eftir að ég áttaði mig á mistökum mínum.

Efnisorð: , , ,