laugardagur, febrúar 26, 2011

Staðgöngumæðrun verður varla leyfð úr þessu

Miðað við hvað flestir málsmetandi aðilar hafa um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun að segja, þá má teljast ólíklegt að málið verði samþykkt á þingi. Það væri a.m.k.undarlegt að ganga gegn ráðum Alþýðusambands Íslands, Barnaheilla, Femínistafélags Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélags Íslands, Læknafélags Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Rauða krossi Íslands, Siðfræðistofnun HÍ, Umboðsmanni barna og Þjóðmálanefnd Þjóðkirkjunnar. Þar af segir í umsögn Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands að siðferðileg álitaefni séu óvenjulega flókin og margræð í þessu máli því þau snerti móðurhlutverkið, yfirráðarétt kvenna yfir líkömum sínum og viðkvæm tengsl foreldra og barna. Bent er á í umsögnum að erfitt hafi reynst að greina á milli staðgöngumæðrunar í hagnaðar- og velgjörðarskyni. Barnaheill telja að staðgöngumæðrun geti haft í för með sér að farið verði að líta á börn sem söluvöru, og sama geti gerst varðandi staðgöngumóður. Þannig geti skapast möguleiki á að kúga konur til að selja aðgang að líkama sínum á nýjan og enn alvarlegri máta en þekkst hefur. Siðfræðistofnun segir tilhneigingu hafa verið til markaðsvæðingar og Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að þetta leiði til þess að litið verði á börn sem söluvöru.

Umboðsmaður barna segir reyndar líka, eins og Barnaheill, að auðvelda eigi íslenskum barnlausum hjónum að ættleiða börn að utan.* Mér finnst það hljóma skynsamlega að því leytinu að um allan heim eru munaðarlaus börn sem nær væri að fengju heimili og ástríkt uppeldi en að fátækar konur séu látnar ganga með börn gegn gjaldi, eða jafnvel píndar til þess, til þess eins að uppfylla óskir annarra. En ég er ekki viss um að draga eigi úr þeim hindrunum sem eru í veginum fyrir því að ættleiða börn.

Án þess að ég gjörþekki hver skilyrðin séu fyrir að geta ættleitt barn frá fjarlægu landi** þá held ég að það séu oftar en ekki hindranir þeim megin, þ.e.a.s. í fæðingarlandi barnsins sem gera það að verkum að erfitt er að fá að ættleiða þaðan börn. Og það er gott. Því það eru ekki allir með það í huga að veita börnum ástríkt heimili, heldur ætla að selja þau áfram eða nota á einn eða annan hátt sem þræla. Margsinnis hefur komið í ljós þegar börn eru í reiðileysi eftir að hamfarir hafa dunið yfir, að það líður ekki á löngu þar til reynt er að smygla þeim úr landi í stað þess að leita að foreldrum þeirra eða gefa þeim tíma til að jafna sig á áfallinu. Slíkt er ekki með hagsmuni barnanna í huga.

Forstöðumaður Siðfræðistofnunar var í viðtalsþætti í sjónvarpinu nýlega til að tala um staðgöngumæðrun og var það viðtal við hana ágætt og augljóst að henni finnst hagsmunir barnanna vega mikið í þessu sambandi. Í þættinum var líka sýnt brot úr heimildarmyndinni „Google baby“ sem sjónvarpið hafði sýnt og fjallar um karlmann sem sér gróðaleið í því að vera milligöngumaður um staðgöngumæðrun og ferðast m.a. til Indlands í því skyni, það var ekki allt geðslegt sem þar kom fram. Í blaðinu í dag er frétt um barnasöluhring í sem teygði anga sína til nokkurra Asíulanda. Konurnar sem gerðust staðgöngumæður og eggjagjafar voru blekktar með loforði um miklar fjárhæðir, í sumum tilvikum lítur út fyrir að þeim hafi verið nauðgað.

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem er aðalhvatamaður þingsályktunartillögunnar segir í viðtali að hún viti til að nú þegar sé fólk að fara á svig með lög til þess að nota þjónustu staðgöngumæðra. Það ætti því, um leið og þingsályktunartillögu hennar er ýtt útaf borðinu, að herða lög svo hægt verði að koma í veg með það eins og kostur er. Sérstaklega þarf að girða fyrir þann möguleika að fólk geti látið fátækar konur í útlöndum ganga með börn fyrir sig. Með skýrum skilaboðum um að börn sem þannig eru getin fái ekki dvalarleyfi eða ríkisborgararétt á Íslandi, ætti a.m.k. að draga úr þeirri misnotkun á konum sem sumum virðist þykja svo sjálfsögð.

___
* Nánast allur texti þessarar bloggfærslu er tekinn úr Fréttablaðinu.

** Ekki þykir mér heldur ástæða til að hvetja íslenskar konur sem hyggjast fara í fóstureyðingu til að ganga með fóstrið fulla meðgöngu og gefa svo barnið eftir fæðingu. Ég ítreka það sem ég sagði í niðurlagi pistils um fóstureyðingar og ættleiðingar (sem lesa má hér): Konur eru ekki útungunarvélar. Ekki fyrir guð, eiginmanninn, móður sína (sem langar svo til að verða amma), ríkisstjórnina og lífeyrissjóðina (það vantar fleiri skattgreiðendur) eða ókunnugt barnlaust fólk útí bæ. Þær mega - og eiga að mega - eignast börn ef þær vilja og geta en vera lausar við þá kvöð sýnist þeim svo.

Efnisorð: , , , ,