sunnudagur, mars 20, 2011

Opið bréf til nöldurmenninganna

Ég er nú frekar hissa en hneyksluð á bréfinu sem þið nöldurmenningarnir skrifuðuð þar sem þið heimtuðuð að Egill Helgason yrði rekinn, gerður upptækur, gerður gjaldþrota, rekinn að heiman og meinað að hitta barnið sitt, lágmark. En ég þóttist sjá það sem ég held að geti hafa verið undirliggjandi meining hjá ykkur, þó þið hafið líklega ekki áttað ykkur á því, að það sé gagnrýnivert hve hallar á konur í Kiljunni. En ég segi nú bara svona. Ætla samt aðeins að ræða það hér.

Ég vil benda ykkur á að Kolbrún Bergþórsdóttir er glæsilegur fulltrúi kvenna í þættinum og allt þar til þessi Þorgerður E. ruddist inn í þáttinn var Kolbrún alveg nægileg sönnun þess að Egill talar við konur og vill heyra skoðanir þeirra á bókmenntum. Svo er hún líka með heppilegar skoðanir; er algerlega á móti pólitískri rétthugsun og feministakjaftæði, eins og konum ber. Þessvegna kom hún auðvitað í þáttinn upphaflega og verður þar lengi enn. Ég efast hinsvegar um að Þorgerður E. verði lengi, mér skilst að hún sé bókmenntafræðingur, en þeir eru bara til óþurftar þegar fjallað er um bækur. (Eins og kunnugt er þarf Egill Helgason enga formlega menntun til að stýra menningarþætti í Ríkissjónvarpinu en þið öfundið hann greinilega af því og það þarf ekki að taka það fram hve augljóst það er að bókmenntafræðingana í hópi ykkar nöldurmenningana langar til að taka yfir þáttinn. ).

Ég las á afturgöngubloggi Ernu Erlings að henni finnst að Egill gæti alveg hangið á bókasöfnum að tala við konur. Mér finnst það arfaslæm hugmynd. Ef það á eitthvað að vera að vesenast í kringum áður lesnar bækur þá þarf þeim að fylgja gamall neftóbakskall sem segir fylleríssögur af látnu fólki, jafnvel núlifandi fólki sem flutt er í böndum í lögreglubíl. Auk þess að vera smekklegt og viðeigandi innlegg þá er það alvöru krassandi stöff sem á heima í menningarþætti en ekki eitthvað stofnanalið sem veit ekkert um fólk nema það sem stendur á bókasafnskortinu þess.

Það er líka ekki eins og það sé fólk á hverju strái sem þekkir til skálda fyrri tíma eins og hann þarna maðurinn sem er sífellt með fingurna í nefinu á sér, mest af því fólki er ólæst, ótalandi og ekkert vit í því. Hver myndi tildæmis vilja hafa gamla kéllingu eins og Vilbjörgu Dagbjartsdóttur þátt eftir þátt að segja sögur af fólki sem hún hefur þekkt? Enginn! Enda efast ég um að hún hafi gamlar drykkjusögur og slúður á takteinunum — ö, ég meina öfugt — sko konur slúðra svo mikið meira en kallar þannig að það yrði bara óþolandi að heyra gömlum kjaftasögum dreift yfir landslýð trekk í trekk.

En þið töluðuð mikið um tölfræði í bréfinu og öllu því sem þið hafið skrifað eftir það. Finnst ykkur í alvöru að konum yrði greiði gerður ef það ætti að hætta að tala um bækur eftir kalla í þættinum? Því það er það sem þið farið fram á. Það má auðvitað ekki tala við fleiri konur til að bæta upp á móti því hve fáar þeirra eru í bókmenntasögunni, þið hljótið að skilja það. Egill er maður hefðarinnar og þessvegna passar hann uppá að hlutfall þeirra kvenna sem talað er við í Kiljunni um þeirra eigin bækur eða annarra og bókmenntir almennt, sé alveg í hnífjöfnu hlutfalli við útgefnar bækur kvenna á 18. öld á Bretlandi. Eða mér finnst það allavega líklegt, við eitthvað hlýtur hann að miða, svona vandaður maður.

Svo verð ég aðeins að fá að minnast á það sem blasir við: Konur eru ekkert sérstaklega gefnar fyrir bækur, bókmenntir eða umfjöllun um bókmenntir. Þið, sem eruð nú svona upptekin af tölfræði, ættuð að vita það. Þær eru bara mikið minna fyrir allt svona menningarstúss (enda eru þær svo takmarkaðar eitthvað og óspennandi) og þessvegna er alger óþarfi að vera eitthvað að pota konum í virðulegan menningarþátt sem þær horfa svo ekkert á (sama má segja um Silfur Egils; konur hafa engan áhuga á pólitík). Eru þær líka ekki svo skotnar í neftóbakskarlinum, ég man ekki betur en Egill hafi sagt okkur það? Þannig að konur eru bara sáttar og verið þið þá ekkert að þykjast hafa vit fyrir þeim.

Alveg frá upphafi hefur verið ljóst að enginn er eins hæfur að stjórna þessum eina bókmenntaþætti sem er í Sjónvarpinu og vitað var að hann yrði sanngjarn á allan hátt. Engu venjulegu fólki dettur í hug að gagnrýna Egil Helgason. Kunniði ekkert að skammast ykkar?

Efnisorð: , , , ,