mánudagur, mars 14, 2011

Smávaxnar konur í karlmiðuðum heimi

Í sjónvarpsfréttum á laugardagskvöldið vakti ein frétt athygli mína og það var sú sem fjallaði um uppboð Tollstjóra. Það var ekki vegna áhuga míns á uppboðum heldur vegna viðtalsins við konuna sem þar var komin til að taka þátt í uppboðinu. Hún sagði að hún ætti erfitt með að sjá hvað væri í boði vegna þess að hún væri svo lítil. Hún virtist reyndar eina konan á staðnum og í kringum hana mátti sjá karlmennina gnæfa yfir.

Þetta minnti mig á það sem kona ein sagði mér fyrir nokkrum árum síðan. Hún er ekki mikið hærri í loftinu en sú á tolluppboðinu en var þó ekki að segja mér frá þvílíkri uppákomu heldur samskiptum sínum við lækna. Hún þurfti, eins og gengur og gerist, stundum að fá lyf við ýmsum kvillum og einhverju sinni þegar læknir var búinn að sjúkdómsgreina hana og bjóst til að skrifa lyfseðil uppá eina töflu á dag af einhverju tilteknu lyfi, þá spurði hún hann að rælni hvort þetta væri venjulegur skammtur í svona tilfellum. Hann hélt það nú. Hún spurði hann þá aftur hvort allir fengju eina töflu á dag við þessum kvilla, hann svaraði aftur já. Hún spurði þá — og var nú orðin verulega hugsi yfir þessu — hvort tveggja metra og 120 kílóa maður yrði líka settur á þennan sama lyfjaskammt og hún, sem varla stæði útúr hnefa? Læknirinn varð hálfkindarlegur og skrifaði uppá hálfa töflu á dag handa henni.

Í framhaldi af þessari frásögn konunnar fórum við að velta fyrir okkur hvort það hefði kannski engin áhrif á lifrina eða önnur líffæri hversu stór lyfjaskammtur væri miðað við líkamsþyngd. Einhvernveginn fannst okkur líklegra að stór og þungur karlmaður ætti að taka þrjár en smávaxnar konur eina töflu, en kannski hefur lítill lyfjaskammtur miðað við líkamsþyngd alveg nægilega mikil áhrif og stór skammtur ekki skaðleg áhrif. En hversvegna þá ein tafla á dag en ekki þrjár? Eftir hverju er farið? Ég verð að viðurkenna, þar sem ég er nú svo óheppin að vera feministi, að mér datt helst í hug að allir lyfjaskammtar, þ.e.a.s. eins og þeir væru ákvarðaðir af lyfjafyrirtækjum og í framhaldinu læknum, væru miðaðir við meðalmanninn.* Og eins og við öll vitum, þá er meðalmaðurinn karlmaður.

Fyrst þegar bílbelti voru í bílum, voru þau ekki stillanleg. Þau miðuðust við meðalmanninn sem gerði það að verkum að bílbeltið í sumum bíltegundum lá þvert yfir háls smávaxinna kvenna.** Meðalmaðurinn núna er víst eitthvað hærri en hann var fyrir nokkrum áratugum. En smávaxnar konur eru og verða smávaxnar. Samt eru nýju fínu sætin í kvikmyndahúsunum miðuð við meðalmanninn og þar fer ekki vel um smávaxnar konur.*** Í bílaframleiðslu hefur semsagt orðið framfarir en ekki í kvikmyndahúsarekstri.

Ekki virðast hafa orðið framfarir í læknavísindum, sé þessi mælikvarði notaður, en mest finna þó líklega smávaxnar konur til smæðar sinnar í miðjum hóp hávaxinna karlmanna. Það er erfitt að sjá hvað heimurinn býður uppá þegar þeir skyggja á útsýnið.

___
* Þetta á ekki bara við um lyf uppáskrifuð af læknum, heldur þá líka vítamínskammta og líklega þessi frægu átta glös af vatni sem við eigum ÖLL að drekka á dag, hvort sem við erum þrautþjálfaðir íþróttamenn, karlmenn í kyrrsetustörfum sem komnir eru yfir hundrað kíló eða smávaxnar konur sem hreyfa sig hæfilega.
** Bílbelti, rétt eins og sætin í japönskum bílum, voru miðuð við meðal-japana og það var eitthvað nær smávöxnum konum en meðal-evrópubúinn en bílbeltin í Lada Sport miðuðust við hávaxna Borisa.
*** Ég tek fram að ég hef ekki fordóma í garð smávaxinna kvenna þó ég tönnlist á orðunum „smávaxnar konur“. Ef svo er, þá eru það bara litlir fordómar.

Efnisorð: ,