sunnudagur, apríl 10, 2011

LÍÚ hrósar sigri og ritstj. líka

Sigurvegarar kosninganna eru LÍÚ, Davíð Oddsson, Útvarp Saga og hópur trúgjarnra hópsála sem létu fyrrtöldu aðilana plata sig til að kjósa gegn Icesave samningnum. Nú hrósar LÍÚ happi og kvótakóngar dæsa fegnir yfir því að líklega er ESB aðild úr sögunni (Uffe Ellemann-Jensen hélt líklega að hann væri að senda okkur tóninn þegar hann talaði um ESB en það er sem músík í eyrum LÍÚ að dyrum ESB sé lokað). Aðaleigandi Moggans er kvótaeigandi og Davíð ritstj. gengur erinda hennar en einnig nýtur hann þess að kvelja bæði núverandi formann Sjálfstæðisflokksins og berja á ríkisstjórninni.

LÍÚ og Davíð Oddsson höfðu ekki og hafa aldrei haft hagsmuni þjóðarinnar í fyrirrúmi og furðulegt að stór hluti almennings hafi látið blekkjast af áróðrinum.

Fólk sem er almennt á móti heimskapítalismanum kaus líka gegn Icesave samningnum og það er svosem falleg hugsun en kannski ekki réttur vettvangur. Reyndar þekki ég fólk sem reiknaði sig að nei-niðurstöðu og við því er ekkert að segja þó mér hafi fundist vera galli í útreikningnum (hafandi nú mikið vit á slíku) að líkurnar á að málið endi fyrir dómstólum voru taldar engar. Fyrst og fremst átti auðvitað aldrei að kjósa um þetta furðulega skuldamál sem við fengum í fangið. En það er búið og gert og vonandi að þegar þessu máli loksins lýkur (hvenær sem það nú verður) þá komum við betur út en ég og fleiri sem kusum já höfum reiknað með. Ekki að ég sé að breytast í Pollýönnu en eftir allt ógeðið sem mátti sjá í umræðunni er varla um það að ræða að bæta á hana með bölbænum í garð hins liðsins, jafnvel þótt nafn fyrrverandi forseta hafi verið að ósekju kastað auri af liðsmönnum þess.

Nú reynir flest vitiborið fólk að hvetja til einhverskonar sátta. Mér líst einna best á það sem Arngrímur Vídalín skrifaði í dag. Ég get tekið undir flest sem hann segir nema þarna allra síðast; eflaust mun ég freistast til að segja „I told you so“, hafi ég tilefni til.

Efnisorð: , ,