miðvikudagur, apríl 06, 2011

Kettir, ísbirnir og börn sem lítillega sér á

Mér finnst hugmynd Jóns Gnarr um að hafa feitasta kött landsins til sýnis fyrir ferðamenn alveg frábær. Í fyrsta lagi er ekkert eins líklegt til að auka ferðamannastraum eins og feitir kettir, það er nú barasta skrifað á blaðsíðu númer eitt í öllum ferðamálafræðibókum.

Í öðru lagi er þetta hugmynd sem má útvíkka á svo margan hátt. Hvernig væri tildæmis að sýna feitasta barn landsins? Mér finnst það liggja beint við úrþví að Jón Gnarr hefur fattað hvað það er sniðugt að sýna hvað getur leitt af vanrækslu, og þá er alveg óþarfi að einskorða sig bara við ketti, fullt af börnum fá lélegt fæði og mikið af því.

En svona til að róa þau sem finnst jaðra við barnaverndarlög að hafa börn til sýnis (feit eða lamin) þá mætti kannski í staðinn sýna uppalendur þeirra, og þá í leiðinni kattareigendur sem er sama um heilbrigði katta sinna og finnst jafnvel fyndið hve erfitt þeir eiga með að hreyfa sig fyrir spiki.

Mér finnst hugmyndin með köttinn og svo auðvitað sú að loka villtan ísbjörn sem er vanur víðáttu og þögn jökulbreiðunnar í búri þar sem æstur krakkamúgur glápir æpandi á hann, vera alveg frábær og sýna Jón Gnarr í eitthvað svo frábæru ljósi. Ég man bara ekki alveg hvað svona fólk er kallað, en mér finnst það fyrsta flokks.

Efnisorð: ,