þriðjudagur, apríl 26, 2011

Hvarf ekki heldur skrapp í frí

Mér finnst alltaf jafn skrítið að heyra fólk segja að millistéttin á Íslandi sé að þurrkast út, verið sé að eyða millistéttinni, og að hún sé fátæk.* Ég skal ekki efast um að einhverjir einstaklingar innan hennar hafi það helvíti skítt, svona miðað við 2007 lifistandardinn (verra hafa þó öryrkjar það, og áttu þeir þó ekki betri tíð 2007), og sem afleiðingu eigin skuldsetningar, en ég get ekki með nokkru móti séð að allur hópurinn sé á heljarþröm.

Ekki nóg með að önnur hver fjölskylda í kringum mig hafi farið til útlanda um páskana (Flórida kemur sterkt inn vorið 2011) heldur hefur sumt af því fólki farið í allar þær golf- og skíðaferðir sem því virðist detta í hug. Fólk hefur verið að kaupa bíla, tjaldvagna (eða hvað þessir skuldahalar heita) og auðvitað nýja síma og svoleiðis nokk; og þó margt af því stynji undan hækkuðu bensín- og matarverði þá virðist það ekki koma niður á getu þess til að kaupa það sem því sýnist.

Meðan svona margt fólk í millistétt getur leyft sér þetta er varla hægt að tala um að öll millistéttin sé á barmi útrýmingar.

Millistéttin er ekki horfin, hún skrapp bara til Flórida.

___
* Hvaðan kemur annars þessi skyndilega stéttarvitund millistéttarinnar? Ég minnist þess ekki að menn hafi barið sér á brjóst og sagst tilheyra millistétt hér á árunum fyrir hrun; þá þóttust flestir búa í stéttlausu þjóðfélagi þar sem „allir hefðu það svo gott“.

Efnisorð: