þriðjudagur, apríl 19, 2011

Á nú að fara að banna börnum að horfa á klám og þaraðauki hampa einhverjum kéllingum og ekki einu sinni berrössuðum?

Ég var satt að segja ekkert búin að kynna mér fjölmiðlalögin sem voru sett í síðustu viku og var því ekki búin að mynda mér skoðun á þeim. Þessvegna var ég mjög ánægð með að sjá fréttaskýringu um lögin í Fréttablaðinu og las hana af athygli. Blaðamaðurinn sem hana skrifar tekur fram að úttekt hans sé ekki tæmandi og ég get því ekki vitað hvað mér finnst um það sem hann sleppti en það sem hann fjallar um og er í lögunum líst mér vel á.

Það væri helst þetta með evrópska efnið sem sjónvarpsstöðvarnar eiga nú að sýna sem oftast og þá sérstaklega þegar tiltekið er að hluti þess verði að vera frá sjálfstæðum framleiðendum, sem gæti þvælst fyrir sjónvarpsstöðvum sem sýna aðallega eða eingöngu bandarískar hasarmyndir og froðuþætti ýmiskonar, en að öðru leyti skil ég ekki alveg afhverju fjölmiðlar eru svona á móti þessum lögum. Nema þeim þyki mjög nauðsynlegt að demba yfir börn efni „sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám og tilefnislaust ofbeldi“? Hömlur á því að beina auglýsingum sérstaklega að börnum, og þaraf auglýsingum um óholl matvæli, þykja mér nú meira frábærar en gagnrýnisverðar.

Þannig að ég er bara sátt með nýju fjölmiðlalögin, svona miðað við það sem kom fram í þessari fréttaskýringu.

Ég sannfærðist svo endanlega um ágæti þeirra þegar ég las, nokkrum blaðsíðum aftar, gagnrýni Jakobs Bjarnar Grétarssonar á lögin. Jakob Bjarnar er líklega einhver harðasti fylgjandi vændis, kláms og annarar verslunar með konur og hatast mjög út í feminista af þeim sökum. Það er vandfundin sú umræða á netinu um málefni strippstaða, útgerð vændiskvenna (en Jakob skrifaði sögu Catalinu svona sem sönnun fyrir tilvist hamingjusömu hórunnar) eða um feminisma almennt þar sem Jakob ryðst ekki inn á vettvanginn til að lýsa harmi sínum yfir forræðishyggju feminista og þeirri ósvinnu að konur megi ekki ganga kaupum og sölum. Jakob Bjarnar hefur svo oft varið málstað Geira í Goldfinger að ég er nokkuð viss um að hann er launaður starfsmaður hans við þessi skrif öllsömul. Jæja, nema hvað, Jakob er auðvitað á móti fjölmiðlalögunum, ekki síst vegna þessarar klásúlu:

„Til að fylgjast með framvindu jafnréttismála getur fjölmiðlanefnd óskað eftir upplýsingum frá fjölmiðlaþjónustuveitendum um greiningu starfsfólks eftir kyni og stöðu (starfsheitum). Þá getur fjölmiðlanefnd óskað eftir samstarfi við fjölmiðlaþjónustuveitendur um upplýsingar um birtingarmyndir kynjanna, þ.e. hlutfall kvenna og karla í fréttum, bæði viðmælendur og fréttamenn, hlutfall kynjanna í unnu dagskrárefni o.fl. Hér getur einnig verið um að ræða upplýsingar um hvernig fjölmiðlaþjónustuveitendur vinna gegn staðalímyndum kynjanna og efla stöðu kvenna á og í fjölmiðlum."


Þetta finnst Jakobi Bjarnari alveg síðasta sort.

Betri meðmæli fást ekki með fjölmiðlalögunum.

Efnisorð: , , , ,