miðvikudagur, apríl 27, 2011

Forskrift bréfa: svona á að gera þetta

Nú er komið að dagskrárliðnum stolið efni. Það er reyndar kirfilega merkt höfundi sínum og ég hyggst sýna því eins mikinn sóma og mér er unnt, en stytta það þó örlítið. Hér að neðan má semsagt lesa bréf Hildar Lilliendahl til fréttamiðilsins Vísis, sem hún sendir af gefnu tilefni. Hún hefur áður skrifað um meint orðalag nauðgunarfrétta en nú hefur hún lagst í eftirtektarverð bréfaskrif. (Auk þess má lesa á bloggi Hildar tvö önnur bréf hennar, þar af annað til höfundar ritgerðar um hina leyndu þjáningu búfjár. Þó ég sé sammála henni um að þakkarvert sé að vekja athygli á því málefni sé ég ekki ástæðu til að birta það bréf hér enda allt annars eðlis en hin.) En hér eru semsagt hin hárbeittu og hárréttu bréf:

~~~~~~~
Kæri Vísir.
Í dag birtir þú frétt þar sem fjallað var um mann sem nýlega var KÆRÐUR FYRIR MEINT KYNFERÐISBROT.

Ég ímynda mér að kona hafi gengið inn á lögreglustöð og sagt: „Ég hefi orðið fyrir meintri árás. Gæti ég fengið að kæra hana?“ Eða hvað? Var það ekki það sem gerðist? Þér til upplýsingar: það hefur aldrei nokkur maður verið kærður fyrir meint brot. Hugulsemi þín gagnvart kynferðisbrotamönnum er gengin of langt.

~~~~~~~
Kæri Vísir.
Í dag birtir þú frétt þar sem þú segir menn vera grunaða um nauðgun. Í fyrirsögn. Þú ítrekar það í upphafi meginmáls að þeir séu grunaðir. Svo segir þú atvikið EIGA AÐ HAFA ÁTT SÉR STAÐ.



Sama dag birtirðu frétt um líkamsárás. Í orðalagi þeirrar fréttar er ekki að sjá að nokkur vafi leiki á að brotið hafi verið framið.



Eins og sjá má var þarna ráðist á menn. Án vafa. Fréttin sem ekki birtist var svohljóðandi:
Fjórir grímuklæddir menn eiga að hafa ráðist á tvo menn í Fischersundi í Reykjavík um eitt leytið í nótt vopnaðir barefli. Mennirnir segjast hafa stökkt meintum árásarmönnum á flótta og komið sér sjálfir á slysadeild til aðhlynningar og látið lögreglu vita.

Einn meintu árásarmannanna mun hafa verið með hokkígrímu fyrir andlitinu og annar á að hafa verið vopnaður rörstöng. Lögreglan segir að talið sé að meintu árásarmennirnir séu í kring um tvítugt.

Ég hef reynt að benda á þennan ömurlega tvískinnung og þessa augljósu samúð með kynferðisbrotamönnum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Og það bara mjög nýlega og mjög víða. Ég sleppi Facebook, Twitter og Barnalandi og öðru slíku og læt nægja að benda á greinar eftir mig um nákvæmlega þetta hér á mínu eigin bloggi, á Smugunni og í Grapevine.

Mér þætti vænt um að þið reynduð að minnsta kosti að breiða aðeins betur yfir kvenhatrið, þetta er svo vandræðalega augljóst.

~~~~~~~
Virðingarfyllst,
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir.

Efnisorð: , , , ,