fimmtudagur, apríl 28, 2011

Steinn. Glerhús.

Það var sérkennileg málsvörn hjá formanni Sambands íslenskra loðdýrabænda sem skrifaði grein vegna „rangfærslna“ samtakanna Velbú. Hann segir að sú fullyrðing að minkar á Íslandi séu haldnir í mjög litlum búrum standist ekki nema menn sjálfir „gefa sér hvað er stórt og hvað er lítið.“ Talsmaðurinn passar sig samt vandlega á að nefna ekki hver stærð búranna er.

Þetta er þó ekki aðalástæða þess að mér finnst að talsmaður loðdýraræktenda hefði átt að fá einhvern til að lesa yfir öxlina á sér og gefa sér ráðleggingar um málsvörnina, heldur þessi orð hans í lok greinarinnar:

„Það er afar einföld leið til að búa til „sannleika" með því að hamra stöðugt á sömu hlutunum. Þetta tókst ákveðnum aðilum í Evrópu á síðari hluta þriðja áratugarins og fyrrihluta þess fjórða. Slíkar fullyrðingar voru engum til bóta og til lítils sóma.“

Það er nógu slæmt að láta sér detta í hug að ásaka fólk sem berst fyrir bættum aðbúnaði dýra fyrir að beita sömu aðferðum og nasistar, en það versnar heldur þegar litið er til þess sem sami maður skrifar í dálkinn við hliðina um aftökuaðferðina sem notuð er á minkana:

„Það er rangt sem fram kemur hjá Vel-búi að minkar hér á landi séu oftast aflífaðir með útblæstri frá vélum. Það gera nokkrir en flestir nota sérstaklega útbúið gas.“

Regla númer eitt: Ekki líkja fólki við nasista þegar þú stundar að drepa aðrar lífverur með gasi.

Efnisorð: