sunnudagur, maí 01, 2011

1. maí er alþjóðlegur en það virðast réttindi verkamanna ekki vera

Fyrir nokkrum dögum mátti lesa ansi nöturlega úttekt á síðu Guardian á aðstæðum verkafólks í Asíu. Þar segir að nú, rúmum áratug eftir að í hámæli komst hverskonar þrældómi það var látið sæta, hafi aðstæður verkafólksins síst batnað. 76% allra þeirra sem vinna í verksmiðjum þar sem föt og skófatnaður er búinn til fyrir fyrirtæki sem selja þekkt vörumerki er konur. Þær sæta allskyns mismunun vegna kynferðis síns ofan á hörmuleg kjör og langan vinnudag sem alþjóðlegum stórfyrirtækjum þykir greinilega við hæfi að bjóða þeim.

Í greininni, sem byggð er á skýrslu alþjóðlegra samtaka starfsmanna í textíl og leðuriðnaði,* segir að þrátt fyrir fögur fyrirheit eftir að upp komst um aðstæður verkafólks í Asíu þá hafi ekkert breyst. Til dæmis brjóti Adidas, Nike, Slazenger, Speedo og Puma** allar reglur varðandi réttindi verkafólks. Ástandið virðist í raun fara versnandi. Fólk er neytt til að vinna yfirvinnu í allt að 40 tíma á viku án þess að fá sérstaklega fyrir það greitt, nái það ekki framleiðslumarkmiðum sætir það jafnvel ofbeldi.

Í engum af verksmiðjunum 83 sem lágu til grundvallar rannsókninni fékk starfsfólk laun sem duga til lágmarks framfærslu.

Af þessu tilefni, og vegna þess að í dag er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, er gott að rifja upp ágætan pistil sem þáverandi Múrpenninn Katrín Jakobsdóttir skrifaði á Múrinn (þar sem líka er hægt að lesa þennan pistil um þrælapískun í verksmiðjum) fyrir svo mörgum árum síðan að þá var ennþá góðæri. Niðurlagið hljómar svona.
„Hver býr til fötin mín? Eru það verkamenn á lúsarlaunum í Kína? Eru það börn sem eru látin þræla í verksmiðjum þar sem fyrir utan standa menn með vélbyssur og passa að halda þessari þrælkun leyndri? Og hvað kosta fötin? Skórnir sem ég greiddi 10.000-kall fyrir — hvað kostaði að framleiða þá? Ég þykist viss um að það sé lágmarksfjárhæð. Hins vegar hefur markaðssetningin kostað hönd og föt og fyrir hana er ég að borga. Með öðrum orðum, ég er að borga fyrir lífsstílinn sem fylgir því að ganga í Nike-skóm.

Á nýrri öld er kominn tími til að hugsa hnattrænt. Á síðustu öld hófst hnattvæðing fjármagnsins. Nú er kominn til að hnattvæða hugarfarið. Hugsa um mannkynið sem eina heild og átta sig á orsakasamhenginu í heiminum. Það er ekki seinna vænna.“



___
* Skýrslu alþjóðlegra samtaka starfsmanna í textíl og leðuriðnaði má lesa hér (í pdf skjali á ensku) en hún ber heitið Yfirlit um vinnuaðstæður í verksmiðjum sem framleiða sportfatnað (sportfatnaður er víðtækt hugtak á ensku) í Indónesíu, Sri Lanka og á Filippseyjum. Þar kemur fram listi yfir þau fyrirtæki sem eiga viðskipti við þessar 83 verksmiðjur (sjá mynd sem hægt er að stækka sé smellt á hana).
— Mér varð um og ó þegar ég sá listann, ég hef tiltölulega nýlega verslað við fyrirtæki á listanum, enda þótt ég hafi lengi sniðgengið Nike.
** Í athugasemdum við greinina eru gagnlegar umræður þar sem margir af viti skrifa (að því undanskildu að frjálshyggjumenn reyna að fá fólk til að samþykkja að það sé í raun verið að gera fátæku fólki greiða með því að leyfa þeim að vinna í þessum verksmiðjum). Þar er tildæmis bent á að þó fólk forðist að kaupa þessi þekktu vörumerki þá geti vel verið að rennilásinn, sem er í flík sem er búin til af fólki sem fær sæmandi laun, geti verið framleiddur við vafasamar aðstæður.

Efnisorð: , , ,