laugardagur, apríl 30, 2011

Skrímslið Stígamót sem nærist á nauðgunum og ýtir undir þær

Páll Scheving Ingvarsson, formaður þjóðhátíðarnefndar Vestmannaeyja segir að samtökin Stígamót nærist á vandamáli, þ.e.a.s. nauðgunum.
„Það er ljótt að segja það, en ég segi það samt - það er eins og samtökin nærist á því að vandamálið sé til staðar og það reynir frekar að ýta undir það heldur en hitt.“

Formaður þjóðhátíðarnefndar tók þannig til orða að vandinn virtist vera meiri á útihátíðum þar sem starfsmenn Stígamóta eru.

Þetta er varla svaravert.

Þannig að í stað þess að eyða orku í að skrifa hér langan pistil þar sem þessi skítahugsunarháttur er greindur ofan í kjölinn þá bendi ég á pistil sem ég skrifaði í ágúst 2006, að nýafstaðinni verslunarmannahelgi.

Fyrir þau sem ekki nenna að elta tengilinn og lesa alla færsluna þá er hér til hagræðis smá bútur með helstu atriðum:

Um nokkurra ára skeið voru Stígamótakonur með aðstöðu á Þjóðhátíð og gerðu fjölmiðlar veru þeirra ávallt nokkur skil. Sem varð til þess að almenningur allur fékk að vita — sem almenningur allur vissi svosem fyrir — að á hverri Þjóðhátíð er konum nauðgað. Þetta varð hinsvegar til þess að skyndilega þurfti ekkert á Stígamótakonum að halda í Eyjum og aðstoð þeirra var afþökkuð. Lækkaði þá auðvitað talan sem fjölmiðlar tiltóku sem tilkynnt nauðgunarmál. Það að fjöldi kvenna leitar til Stígamóta allt árið vegna þeirra árása sem þær verða fyrir um verslunarmannahelgina er ekki gert að umtalsefni, nema þegar Stígamót taka það fram.

Stígamót eru orðin ógurleg grýla hjá mótshöldurum og þeir gera allt til að koma í veg fyrir að konur geti notfært sér aðstoð þeirra á staðnum, það er ekki þeirra vandamál hvað þær gera svo seinna því þá er ekki verið að fjalla um verslunarmannahelgina sem slíka.


Þessi tónn hjá formanni þjóðhátíðarnefndar er því ekkert nýr, en hann er jafn ógeðfelldur fyrir því.

Svo er enn og aftur spurning hvernig stendur á því að karlmenn stíga ítrekað fram á vettvang til að lýsa slíkum skoðunum á nauðgunarmálum. Nú ættu þeir allir að vita betur — en það er eins og þeir forherðist bara.

Efnisorð: , ,