föstudagur, maí 06, 2011

Eyjamenn standa með Páli sem sagði bara sannleikann

Frá því að ég minntist örstutt á fávitaskapinn í Páli Scheving Ingvarssyni formanni þjóðhátíðarnefndar Vestmannaeyja, hefur hann stigið fram til þess að bæta olíu á eldinn. Hann birti reyndar einhverskonar afsökunarbeiðni, sem var hvorki fugl né fiskur, en fátt bendir til að hann hafi séð eftir orðum sínum því síðan hefur hann komið fram í fjölmiðlum og ítrekað afstöðu sína. Fylgismenn hans — sem eru semsé ósáttir við Stígamót — hafa skrifað greinar í blöð og tekið til varna fyrir nauðgara og Pál („sem situr eftir ærulaus fyrir það eitt að segja sannleikann“) í hinum ýmsu athugasemdakerfum.*

Á sama tíma er að hefjast forsala aðgöngumiða á Þjóðhátíð.

Það ætti því að skýrast hversu mörgum ofbýður málflutningur og hugmyndaheimur forsvarsmanna Þjóðhátíðar og hve margir telja hann vera fínan baráttumann fyrir því að nauðgarar fari sínu fram án þess að þessar Stígamóta-kéllingar séu að þvælast fyrir.

Mín spá er sú að það verði metaðsókn á Þjóðhátíð. Hér á landi hefur lengi þótt og þykir enn í lagi að nauðga konum. Það hefur ekkert breyst.

____
* Eftirtektarverðar undantekningar frá þessu eru blogg eftirfarandi einstaklinga sem hafa gagnrýnt Pál Scheving Ingvarsson, viðhorf hans og veru hans í Þjóðhátíðarnefnd:
Lára Hanna Einarsdóttir. Á bloggsíðu hennar má m.a. lesa blaðagreinina frá 1994 sem á að vera upphaf þess að Stígamót urðu versta fyrirbæri heims að mati Þjóðhátíðarnefndar.
Agnar Kristján Þorsteinsson skrifar einmitt um þetta sautján ára gamla mál og greinina í Eyjafréttum sem er nokkurskonar varnarræða fyrir Pál og Þjóðhátíð, og bendir Agnar á það að allt sé þetta sprottið af fégræðgi Eyjamanna: „Og þegar Mammon hefur náð yfirráðum í huga fólks þá vill það oft líta á að fylgifiskar hákarlsins: misþyrmingar og kynferðisofbeldi, sé eitthvað sem sé betra að líta framhjá eða gera lítið úr“.
Magnús Sveinn Helgason á bloggsíðunni Frelsi og franskar skrifar um það sama og Agnar. Í ansi góðri athugasemd við færslu Magnúsar (sem er líka góð) kemur þetta fram: „Auðvitað eru Stígamótakonur ekkert yfir gagnrýni hafnar. Ég hef bara ekki enn vitað til þess að það hefur eitthvað þurft að gagnrýna þær, hvaða ummæli eru það sem á að gagnrýna þær fyrir?“ Magnús bendir líka (eins og ég gerði í fyrri færslu) á samlíkinguna við ummæli Björgvins Björgvinssonar yfirmanns kynferðisafbrotadeildar Ríkislögreglustjóra „sem lýsti því yfir að margar konur sem væri nauðgað gætu nú kannski barasta kennt sjálfum sér um.“
Jón Trausti Reynisson skrifaði leiðara um málið í DV.
Kristín I. Pálsdóttir skrifaði grein á Smuguna þar sem hún segir m.a. þetta: „Fólk sem stuðlar að því að nauðganir fari fram í kyrrþey vegna markaðssjónarmiða á ekki að stjórna íþróttastarfi eða útihátíðum og það er svo sannarlega ekki til fyrirmyndar fyrir neinn.“
Jenný Anna Baldursdóttir leggur til að fólk sniðgangi Þjóðhátíð: „Vonandi sýnir fólk skoðun sína á ummælum Páls í verki og fer annað.“

Efnisorð: , , ,