fimmtudagur, júní 02, 2011

Hinar myrku miðaldir tóbaksfíklanna

Á reyklausa daginn fóru reykingamenn hamförum á fréttamiðlum og bloggsíðum vegna þingsályktunartillögu um tóbakssölu. Mér finnst ekki líklegt að þingsályktunartillagan verði samþykkt* en held samt að fyrr eða síðar muni eingöngu fólk með þekkingu á eiturefnum selja tóbak. En tóbaksfíklarnir — sem eru líka æfir yfir því að vera kallaðir fíklar — líkja þeirri hugmynd við fasisma, kalla hana forræðishyggju (það var nú viðbúið) og átelja ríkisstjórnina fyrir að gera aldrei neitt af viti og sinna smámálum þegar nær væri að aflétta öllum skuldum af þeim sem fóru offari í græðgi góðærisins.** Smáatriði eins og að enginn ráðherra ríkisstjórnarinnar stendur að þingsályktunartillögunni um tóbakssölu fer framhjá æstum reykingamönnum og litið er framhjá því að þingmaður í stjórnarandstöðu er fyrsti flutningsmaður hennar.

Það er skemmtilegt að fylgjast með ofsahræðslu tóbaksfíklanna sem segja í einu orðinu að það eigi að láta forvarnir duga og hinu að fullorðna fólkið eigi að vera börnum fyrirmynd en það megi ekki banna tóbakssölu í matvörubúðum, sjoppum og bensínstöðvum; þetta er fólkið sem lét forvarnir sem vind um eyru þjóta og er börnum vond fyrirmynd. Besti pistillinn var samt leiðari skrifaður af ritstjóra DV þar sem hann fer mikinn gegn skerðingu tóbakssölu og kallar hana afturför til miðalda.
„Þetta fólk vill fara aftur til svörtustu miðalda og banna sölu á tóbaki í verslunum og færa í lyfjaverslanir auk þess að þrengja að reykingamönnum umfram það sem orðið er.“

Enda þótt tóbakssölubann hafi ekki gilt í hinum vestræna heimi á miðöldum þá kynntist Evrópa ekki tóbaki fyrr en Kristófer Kólumbus kom heim frá Ameríku og breiddist þá siðurinn frá Spáni og Portúgal og síðan til Frakklands. Tóbaksreykurinn barst svo til Englands um 1600 þegar Sir Walter Raleigh kom frá Ameríku með tóbak í farteskinu og kynnti fyrir Elísabetu fyrstu.*** Píputóbak er enn framleitt í hans nafni en Bretar stunduðu framanaf aðallega pípureykingar enda þótt reyktóbak hafi verið í einhverskonar vindlaformi á meginlandi Ameríku meðal innfæddra. Sígarettur tóku ekki við af vindlum sem vinsælasta aðferðin til að reykja tóbak fyrr en á 20. öldinni en komu þó til sögunnar snemma á 19. öld.

Þessari sögulegu upprifjun er ágætt að ljúka með að benda á enn eina sögulega staðreynd; miðöldum er ýmist talið ljúka þegar Kristófer Kólumbus steig á land í Ameríku 1492 eða nokkru fyrr þegar endurreisnin hefst á Ítalíu. Reyndar segir á Vísindavefnum að miðöldum hafi lokið „ýmist á 14., 15. eða 16. öld eftir svæðum.“ Miðaldir einkenndust ekki af tóbakssölubanni né heldur er nýöld miðuð við þá staðreynd að tóbaksneysla hafi hafist um svipað leyti á Vesturlöndum. Öll samlíking reykingamanna skerðingu á aðgengi tóbaks við myrkar miðaldir**** er afar langsótt ef ekki fáránleg. Ef tóbak væri kynnt fyrir okkur fyrst nú, þegar við vitum hverskonar eiturefni eru í því, þá yrði það aldrei leyft til sölu nema e.t.v. til garðaúðunar og þá í meðförum þeirra sem kunna með eitur að fara.

Reykingamenn hafa tryllst í hvert sinn sem aðgengi þeirra að tóbaki hefur verið heftur og þeir neyddir til að taka tillit til annarra. Enda þótt þeim sé vorkunn í fíkn sinni þá er fullkominn óþarfi að leyfa þeim að stjórna því hvar og hvernig tóbak er selt, rétt eins og það var ekki góð hugmynd að láta þá sjálfa um hvort þeir sýndu þá tillitsemi að reykja ekki ofan í aðra. Með því að þrengja sífellt að þeim hefur tekist að gera reykingar að æ sjaldgæfara fyrirbæri. Fengju þeir að vera óáreittir þættu reykingar sjálfsagðar og börnum þætti ekkert eðlilegra en taka upp reykingar hið fyrsta. Þannig var það lengi vel en þeirri þróun tókst að snúa við. Þingsályktunartillaga Sivjar Friðleifsdóttur er enn eitt skrefið í þá átt að forða fólki frá böli tóbaksfíknar.

___
* Sú klásúla að ekki eigi að veita styrki til íslenskra kvikmynda sem sýna notkun tóbaks er ein ástæða þess að mig grunar að Siv og félagar búist allsekki við að þingsályktunartillagan verði samþykkt. Málinu sé fyrst og fremst ætlað að koma af stað umræðu (tókst!) og fái fólk til að hugsa um hvort okkur þyki í alvöru eðlilegt að annarhver maður í bíómyndum reyki, þegar staðreyndin er sú að æ færri reykja. Eigi nú bíómyndir að vera raunsæislegar þá væru reykingar sjaldgæfar og litnar hornauga, ekki algengar eða smart, eins og oft er látið líta út fyrir í bíómyndum. (Hvernig skildi annars standa á því að í fantasíubíómyndum reykja ekki allir? Hobbitinn reykir pípu í sögu Tolkiens, ætli hann verði veifandi pípunni í bíómyndinni?) Nýliðun í hópi reykingamanna fer ekki síst fram í gegnum afþreyingarmenningu þar sem börn og unglingar sjá fyrirmyndir sínar mökkreykjandi öllum stundum.

** Svo er líka frábært þegar tóbaksfíklarnir bera tóbaksnotkun saman við áfengisneyslu og benda á skaðsemi hins síðarnefnda og að það væri þá nær að banna áfengi. Það vill svo til að það væri frábær hugmynd og ég fyrir mitt leyti mæli með að áfengi verði bara selt eins og það eitur sem það er, af sérhæfðu starfsfólki og með miðlægan gagnagrunn til hliðsjónar. Smám saman myndi e.t.v. komast á sú hugmynd — sem tóbaksfíklum og drykkjufólki virðist framandi — að drykkja, reykingar, munntóbaks- og neftóbaksnotkun séu ekki eðlilegur fylgifiskur daglegs lífs heldur fyrirbæri sem á að meðhöndla eins og hvert annað vandamál sem þarf að takast á við með heimsókn í apótekið.

*** Í kvikmyndinni Elizabeth, the Golden Age kennir Clive Owen í hlutverki Sir Walter Raleigh Elísabetu (sem leikin er af Cate Blanchett) að reykja en í eldri mynd um þau skötuhjú fóru Errol Flynn og Bette Davis með sömu hlutverk. Ekki man ég hvort mikið var gert úr reykingakennslunni þar.

**** Hugtakinu myrkar miðaldir hefur reyndar verið úthýst af flestum — samanber niðurlagsorð Vísindavefsgreinarinnar („Í dag þykir ekki við hæfi í fræðiritum að kenna miðaldir við myrkur“) — enda voru miðaldir að mörgu leyti tími mikilla framfara í hugsun og framkvæmd. Hinar glæstu dómkirkjur miðalda voru reistar (hér er óþarfi að setja myndir en lesendur geta séð fyrir sér Notre-Dame kirkjuna í París). Háskólar urðu til á miðöldum, háskólinn í Bologna á Ítalíu hefur tildæmis verið starfræktur frá árinu 1088, Parísarháskóli (Sorbonne) með hléum frá 1150 og Oxford sleitulaust frá 1167 (auk nóbelsverðlaunahafana 47 sem hafa kennt eða numið við skólann var Walter Raleigh meðal nemenda en lauk ekki námi).
Það er von að ritstjóri DV muni ekki eftir slíkum stofnunum sem háskólum þegar hann talar um miðaldir, hann mun þeim algerlega ókunnur. Rétt er að geta þess að því meira sem fólk er menntað því ólíklegra er að það sé ánetjað tóbaki, upplýst fólk kærir sig ekki um að vera þrælar fíkna sinna eða stórfyrirtækja á borð við Philip Morris og R.J. Reynolds sem hafa logið að almenningi áratugum saman um skaðsemi reykinga. En þar sem ritstjóri DV er þrátt fyrir allt maður hins skrifaða orðs þá má ekki gleyma því að gullöld íslenskra bókmennta fór fram á þessum sömu miðöldum. Varla telur ritstjórinn það vera myrkan tíma í sögunni, jafnvel þótt aðgengi landsmanna að tóbaki hafi verið núll komma ekki neitt.

Efnisorð: , ,