fimmtudagur, maí 19, 2011

Strauss-Kahn „þarf ekki“ að nauðga og þessvegna er hann ekki nauðgari

Nauðgunarkæran á hendur Dominique Strauss-Kahn vekur miklar umræður um heim allan um líkurnar á sekt hans og sakleysi.* Enda þótt hann hafi áður verið borinn sömu sökum (alveg burtséð frá því hvort það varð lögreglumál eða ekki) og líkurnar á því að hann hafi enn gerst sekur um sömu háttsemi — nauðgunartilraun í það minnsta — hljóti því að vera allmiklar, er fjöldi manns á annarri skoðun. Aðallega þó karlmenn. Sumir karlmenn virðast líta svo á að ef þeir berjast ekki fyrir mannorði allra karla sem sakaðir eru um nauðgun, þá komi bara að því einn daginn að einhver frenjan ljúgi uppá þá sjálfa nauðgun. Til að vera öruggur sé því best að álíta allar ásakanir um nauðgun vera lygi, kvenfólk er hvorteðer barasta alltaf að ljúga til um svona hluti.

Svo eru þeir sem álíta að vegna þess að Dominique Strauss-Kahn er valdamikill maður þá geti ekki verið að hann 'þurfi' að nauðga konum. Eða eins og einn karlmaðurinn skrifaði í athugasemdakerfi Silfur Egils:
„Hefði haldið að maður eins og Kahn í hans stöðu þyrfti ekki að ráðast á herbergisþernur.“ (Sami maður ver gjörðir Strauss-Kahn reyndar ítrekað í athugasemdakerfinu.)

Þetta er athyglisverður útgangspunktur sem ég hef reyndar áður heyrt haldið fram, að ríkir, frægir, valdamiklir eða myndarlegir menn eigi svo mikinn séns í konur að þeir 'þurfi ekki' að nauðga konum. Hugsunin hjá þeim sem halda þessu fram hlýtur þá að vera sú að allar konur hljóti að vilja sofa hjá svo ríkum, frægum, valdamiklum eða myndarlegum mönnum. Þeir hafi úr svo miklu úrvali að moða að þeir þurfi ekki að leggja lag sitt við þær sem ekki vilja þá en þó aðallega það að engin kona segi nei.

Þeir sem halda þessu fram virðast standa í þeirri trú að nauðgari sé sá sem fær hvergi kynhvöt sinni útrás og grípi því til þess 'örþrifaráðs' að nauðga.** Þessvegna þurfi þeir sem fá nóg að ríða ekki að nauðga. (Þetta er líka notað sem réttlæting fyrir aðgengi karla að vændiskonum og klámi, og því haldið fram að þá fækki nauðgunum.) Svo framarlega sem allir karlmenn fá sitt þá þarf enginn þeirra að grípa til þess 'óyndisúrræðis' að nauðga.***

Valdamiklir karlmenn eru auðvitað ekkert einir um að nauðga konum. En það er heldur ekki hægt að halda því fram að vegna þess að þeir eru valdamiklir þá nauðgi þeir ekki.**** Margir karlmenn virðast einmitt þrá völd og auðævi vegna þess að þeir trúa því að þá liggi allar konur flatar fyrir þeim. Þeim sem er svo neitað taka ekki alltaf allir nei sem gildu svari: „Hvernig dettur þessari í hug að hafna mér?“ Karlmenn, hvort sem þeir eru valdamiklir, frægir eða myndarlegir eiga sumir (vonandi ekki allir) erfitt með að skilja að það finnst ekki öllum frægð þeirra eftirsóknarverð, útlit þeirra aðlaðandi og ekki vilja allar konur hlýða þegar valdamiklir menn skipa fyrir. Eitt er samt að þeir eigi erfitt með að skilja þetta (eða neiti að trúa því og fari því sínu fram), annað er að fólk verji gjörðir þeirra á þeim forsendum að „hann þarf ekki að nauðga því allar konur vilja hann“ röksemdinni. Það að karlmaður er 'meiriháttar maður' er engin ástæða til að draga strax í efa að nauðgunarkæra eigi rétt á sér.

Samt virðist vera litið svo á, sé nauðgarinn valdamikill eða frægur, að konan sem kærir hljóti að vera athyglissjúk og fégráðug (en aldrei að henni hafi verið nauðgað). Nema auðvitað að hún sé útsendari CIA eða eitthvað álíka eins og í rausað er um vegna kærumála á hendur Julian Assange og Dominique Strauss-Kahn. Á þeim forsendum — að konur eru alltaf að ljúga og karlmenn nauðga aldrei, sérstaklega ekki þessir frægu — hafa menn eins og Mike Tyson hnefaleikari, Kobe Bryant körfuboltamaður og Roman Polanski rétt eins og Assange og Strauss-Kahn verið afsakaðir í bak og fyrir af vinum sínum, aðdáendum og öðrum hverjum karlmanni á hnettinum.

Þetta á ekki bara við um ríka, fræga og valdamikla menn að þeim þyki þeir eiga rétt á kynlífi með hvaða konu sem þeim sýnist. Myndarlegir íslenskir strákar eru líka varðir af sama offorsi af vinum sínum, og sagt að þeir 'þurfi' nú ekki að nauðga vegna þess að þeir eigi svo mikinn séns, séu svo hrikalega myndarlegir að engin stelpa standist þá. Strákur sem sefur hjá mörgum stelpum eða sá karlmaður sem getur valið úr mörgum konum er ekkert ólíklegri en aðrir til að nauðga. Sú vissa að allar konur liggi flatar fyrir þeim getur staðið í vegi fyrir því að þeir virði neitun þeirrar sem sannarlega vill ekki þýðast þá. En vinir þeirra sem nauðga eru þó ansi oft sannfærðir um að það geti ekki hafa gerst þannig og hlaupa í vörn fyrir þá, jafnvel þótt allar líkur (áverkar, framburður) bendi til annars. Svona eins og þeir sem verja gjörðir Polanski, Strauss-Kahn og annarra þeirra sem hér hafa verið taldir upp.

Sé tillit tekið til tölfræði um hve mörgum konum er nauðgað, hér á landi, í Frakklandi eða í Bandaríkjunum, þá er ljóst að margir karlmenn eru nauðgarar. Það er því miður ekki hægt að þekkja nauðgarana úr því sumir þeirra eru frægir, valdamiklir, ríkir, myndarlegir, standa sig stórkostlega í starfi sínu, eru vinamargir eða sjúklega sætir.

___
* Dominique Strauss-Kahn er nú sagður ætla að játa að hafa átt kynmök við hótelþernuna, en í fyrstu hélt hann því fram að hann hefði allsekki átt kynferðisleg samskipti við hana. Séu þær fréttir réttar þá virðist hann strax byrjaður að bakka með framburð sinn og samræma hann sönnunargögnum. Afhverju laug hann þá í upphafi? Vegna þess að hann vildi ekki vera dæmdur fyrir nauðgun. Samt virtist fólk um allan heim vera sannfært um að hótelþernan væri að ljúga. Afhverju ætti konan að ljúga? Afþvíbara? Eða vegna þess að hún er útsendari keppinauta DSK um forsetaembættið í Frakklandi, er athyglissjúk, fékk ekki nógu mikið útúr kynlífinu (helsta ástæðan fyrir kærum að mati margra) eða hvaða ástæða sem það nú á að vera sem rekur hana áfram? Það sem hún 'hefur uppúr því' að ljúga til um atburði er svo margfalt veigaminna en hann hefur uppúr því að ljúga til um atburði. Hann missir starfið, framboðsmöguleikana og hugsanlega frelsið. Hún græðir nákvæmlega ekki neitt. Í þessu máli má ekki gleyma að Strauss-Kahn hefur áður verið borinn sömu sökum (alveg burtséð frá því hvort það varð lögreglumál eða ekki) og því hljóta líkurnar á því að hann hafi enn gerst sekur um sömu háttsemi — nauðgunartilraun í það minnsta — að vera allmiklar.

** Mér skilst að karlmenn eigi það margir hverjir til að finna hjá sér kynlífslöngun við hin ýmsu og óviðeigandi tækifæri: við jarðarfarir, yfir matarborðum, á vinnustaðnum eða á biðstofu hjá tannlækni. Flestum virðist þó takast að hemja löngun sína á þessum stöðum og við þessi tilefni alveg burtséð frá því hvenær þeir stunduðu síðast kynlíf með konu. Það hefur því ekkert sérstaklega mikið með óuppfyllta kynþörf að gera að menn nauðga, heldur viðhorf þeirra til kvenna almennt og til þeirrar konu sem þeir hafa á valdi sínu hverju sinni. Nauðgun snýst ekki um hvenær karlmanninum varð síðast sáðfall.

*** Sumir halda því líka fram að ástæða þess að kaþólskir prestar nauðgi börnum sé skírlífið sem þeir annars lifa: það bara myndist svo mikill þrýstingur! Ég spurði einn kunningja minn sem hélt þessu fram hvort hann myndi fara að níðast á dætrum sínum ef hann myndi ekki fá neina konu til að sofa hjá sér í kannski tvö þrjú ár. Hann varð forviða og þótti það hreint ekki líklegt en skildi svo hvað ég átti við, semsagt það að nauðgun hefur ekkert með skort á kynlífi að gera.

**** Fyrrverandi forseti Ísrael var nýlega dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir fyrir nauðgun og aðra kynferðisglæpi. Hann hafði í tíð sinni sem ferðamálaráðherra tvívegis nauðgað konu og meðan hann gegndi embætti forseta Ísraels hafði hann ítrekað áreitt konur kynferðislega.

Efnisorð: ,