föstudagur, maí 27, 2011

Íslenskt táknmál lögfest sem fyrsta mál

Það er mikið fagnaðarefni að frumvarp sem lögfestir táknmál sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra hafi verið samþykkt á alþingi. Við erum reyndar ekki nema þrjátíu ár á eftir Svíum, sem fyrstir urðu til að setja slík lög, en í maí 2011 hefur þingheimi loksins tekist að samþykkja frumvarp* þar sem kemur fram að íslenskt táknmál sé fyrsta mál þeirra sem þurfi að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra.

3. grein laganna um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls** hljóðar semsagt svo [með fyrirvara um að þingskjalið sé rétt]:
„Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja.
Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.“


Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra á hrós skilið fyrir að leggja þetta frumvarp fram og fá það samþykkt á þinginu.

Af því tilefni má búast við því að sjónvarpsfréttir verði textaðar í kvöld, svona í tilefni dagsins.

_____
* Áratugum saman hafa heyrnarlausir og heyrnarskertir á Íslandi barist fyrir að staða táknmáls yrði tryggð með lögum og ekki má gleyma því að Sigurlín Margrét Sigurðardóttir varaþingmaður Frjálslynda flokksins lagði fyrst fram frumvarp um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra árið 2003. Það tók þingheim átta ár að snúast á sveif með heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum.
** Þetta eru semsagt heildarlög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Fyrsta grein laganna hljóðar svo: Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Sumir þeirra sem buðu sig fram til stjórnlagaþings vildu einmitt fá ákvæði um að íslenska væri þjóðtunga og táknmál væri því jafnrétthátt í stjórnarskrána og er vonandi að af því verði þrátt fyrir lagasetninguna.

Efnisorð: , ,