sunnudagur, júní 26, 2011

Prinsessupönkið

Þegar ég sá auglýsinguna frá prinsessuskólanum fletti ég samstundis upp á skólanum á netinu til þess að sjá hver stæði fyrir þessum ósköpum (svar: Anna og útlitið). Meira gerði ég ekki þann daginn en hugsaði mitt.

Meðan ég var að hugsa um þetta fjarstæðukennda fyrirbæri (að kenna átta ára börnum annað göngulag en þeim er eiginlegt) þá hæddust ýmsir feministar að prinsessuskólanum og þó ég sé alltaf höll undir kaldhæðni, verandi nú sjálf svona þungbúin, þunglynd, svartsýn og stúrin, þá finn ég löngun til að vera bjartsýn í þetta sinn.

Þessvegna ætla ég að draga upp bjartsýna spá (og mættu veðurfræðingar fylgja fordæmi mínu), sem er þessi.

Eins og alkunna er þá ganga flestir unglingar í gegnum skeið þar sem foreldrar þeirra eru það al-hallærislegasta sem til er og allt sem þeir segja og gera — allt það sem þeir eru og vilja að börnin þeirra verði — er álitið síðasta sort. Þetta er kallað gelgjuskeið, uppreisn unglingsáranna og ég veit ekki hvað og hvað.

Það sem ég afturámóti (vona og) þykist vita, er að þessar stelpur sem nauðugar eða viljugar verða sendar á prinsessunámskeið fari fyrr eða síðar í massífa uppreisn gegn þessum kvenlegu gildum sem þeim hafi verið innrætt, gefi skít í alla borðsiði, stiki stórum í Dr. Martens skóm, klæði sig í ósamstæðan fatnað, greiði sér sjaldan (eða taki upp fleiri siði pönkara eins og að raka hárið af að hluta og greiða rest upp í stífaðan hanakamb) og geri í stuttu máli sagt foreldrum sínum — þessum sem ætluðu að rækta upp prinsessu eins og hverja aðra hlýðna hundategund — lífið verulega leitt.

Í kjölfar allra „gvuðminngóðurhvaðertuaðgeramérbarn“ rifrildanna spretti svo upp beittari gagnrýni, sterkari sjálfsmynd, flottari feministar.

Þetta er bjartsýn spá, ég veit það, því einhverjar þeirra stelpna sem fara gegnum heilaþvottanámskeiðin munu verða móttækilegri en aðrar fyrir prinsessustemningunni (og dreymir jafnvel um að verða drottningar). En ég bind miklar vonir við hinar.

Efnisorð: