miðvikudagur, júní 15, 2011

Styðjandi bleikur kvenleiki 1. hluti

Lengi hef ég stillt mig um að skrifa um bleikt.is og Pjattrófurnar því mér fannst þessi fyrirbæri of ómerkileg til að nenna að eyða á þau púðri. Á þessum vefsíðum ræður lágkúran ríkjum, staðalmyndum um konum er hampað og látið sem konur hafi mjög takmarkaða sýn á lífið. Yfir þessu get ég þó ekki lengur orða bundist. Síðasta bloggfærsla var einskonar inngangur að pistlaröð sem ég hyggst nú skrifa og verða helgaðir bleikt.is að mestu en margt sem þar kemur fram á líka við um Pjattrófurnar.

Ég gæti reyndar stytt mál mitt verulega með því að láta duga að afrita bakþankapistil Sifjar Sigmarsdóttur frá 8. júní síðastliðnum. Hún segir allt það sem segja þarf um bleikt.is og Pjattrófurnar. En úr því að ég er nú einu sinni byrjuð þá er best að láta slag standa.

Allt frá því að bleikt.is var hleypt af stokkunum hef ég verið meira og minna orðlaus yfir því sem lesendum vefmiðilsins er boðið uppá. Eftir nokkra mánuði hætti ég að nenna að svekkja mig og las ekki nema einstaka greinar sem ég frétti af frá öðrum bloggurum. Það sem mér sýnist helst hafa breyst frá því að vefurinn byrjaði er, auk umfjöllunar um bíla (dulbúnar auglýsingar) sem hefur bæst við, helsta breytingin sú að karlmennirnir sem áður skrifuðu þar eru nú komnir á menn.is (sem ég hef ennþá minna geð á að lesa) og virðist nú sem eingöngu konur skrifi á bleikt.is en alveg á sömu nótum og áður.

bleikt.is snýst um:

Stefnumót (stefnumót eru alltaf kölluð deit á bleikt.is)

Hvað karlmenn hugsa og hvað þeim finnst um konur, hegðun þeirra og útlit

Hvað konum finnst um hegðun karla (pissa útfyrir, hringja ekki)

Hvernig á að ná í eftirsóknarverðan mann

Að karlar og konur geta ekki verið vinir (jú, víst, nei)

Megrun

Kynlíf (áberandi áhersla á kynlíf sem keppnisgrein)

Rétt er að geta þess að á bleikt.is eru notuð dulefni fyrir megrun: „átak“ og „komast í form“. Bleikt.is þykist þannig ekki mæla með megrun en valdi úr lesendum nokkrar konur til að „koma sér í form“ og verðlaunaði þær sem misstu flesta sentímetrana (og kílóin) á sem skemmstum tíma. Þetta er kallað lífsstílsbreyting og er auðvitað miðað við konur í „ofþyngd“. Á sama tíma er bleikt.is með talsverðan áróður gegn anorexíu. Sami tvískinnungur hefur lengi tíðkast í ýmsum kvennablöðum, s.s. Vikunni þar er sífellt verið að hampa konum sem hafa lést mikið á skömmum tíma („40 kg af!“) — og á næstu síðu er uppskrift af gómsætri döðlutertu fyrir saumaklúbbinn. Bleikt.is gerir þetta líka, birtir kaloríuhlaðnar uppskriftir og þrátt fyrir að ritstjórinn hreyki sér af því að fjalla aldrei um megrunarkúra“ eru konur hvattar til að léttast og það mikið.

Áherslan á kynlíf er mikil á bleikt.is og þar er viðrað einstaklega ömurlegt og lágkúrulegt viðhorf til kynlífs. Talað er um að „fá sér í hana“ og að lítið tippi sé stórkostlegur galli sem eigi að vara við og konur hvattar til að grípa í klofið á karlmanni til að athuga hvað er í boði. Lágkúran á bleikt.is birtist auk þess í því að fjalla um hvar í heiminum karlmenn séu „best vaxnir niður“. Ég hef áður talað um þá birtingarmynd rasisma að telja ákveðna hópa fólks bólfimari en aðra og get ég ekki betur séð en þetta sé angi af sama meiði.

Karlmenn sem skaffarar
Á bleikt.is, rétt eins og hjá Pjattrófum, er skrifað um líf einhleypu konunnar sem hefur það helst að markmiði sínu að vera ekki lengur einhleyp. Karlmaður er alltaf æðsta markmiðið, lágmark til styttri tíma en helst til langframa. Til þess að eiga kost á karlmanni þarf að kunna réttu klækina, líta rétt út og stunda réttu staðina (fleira þarf að koma til en þetta gefur einhverja hugmynd um útá hvað skrifin ganga). Flest öll ráð sem eru gefin miðast við að konan sýni þolinmæði og bíði eftir að karlmaðurinn veiti henni athygli, því hann er nefnilega veiðmaður og þá þurfa konur að leika bráð (ef þetta á allt að vera svona náttúrulegt ætti bráðin auðvitað að forða sér á hlaupum en svo langt gengur nú samlíkingin við veiðimennskuna ekki). Einstaka sinnum er ráðlagt að konur eigi einmitt að hafa frumkvæðið en þá er það yfirleitt í samhengi við einhverja rosalega uppreisnarhugmynd og girl power fengna úr smiðju Spice Girls, eins og síðar verður komið að.

Karlmenn eiga að skaffa. Þeir eiga ekki að vera í einhverju hugsjónagaufi heldur vera færir um að taka upp veskið til að borga fyrir hvað það nú er sem hin bleika kona kaupir eða neytir hverju sinni: „Ekki annað hægt en að vona að hann sé nægilega markaðssinnaður til að taka laun fyrir störf sín og vona til Guðs að hann starfi ekki fyrir Rauða Krossinn í ólaunuðum sjálfboðahópum. Einhver verður að greiða reikninginn ef ske kynni að hann byði mér á Hereford.“ Ef til vill er þetta skrifað í hálfkæringi en miðað við viðhorfið til samskipta og stöðu kynjanna á bleikt.is þá er það sorglega ólíklegt.

Þýðingar í stað frumsamins efnis
Það vakti athygli mína strax í upphafi að svo virtist sem flestir textanna á bleikt.is væru þýddir því orðaröð, orðalag og ýmsir frasar eru augljóslega teknir beint úr ensku og þýtt af mikilli vankunnáttu á íslensku máli. Svo virðist sem google translate hafi verið beitt á pistla úr erlendum tímaritum eða vefsíðum án þess þó að láta heimilda getið eða að um þýðingu sé að ræða. Varpar slíkt grun á alla þá sem skrifa á vefmiðilinn. Eftir að hafa sannreynt nokkrum sinnum að um (lélegar) þýðingar er að ræða hef ég ekki nennt að gá hvort það eigi við um alla pistlahöfunda eða hvort þetta einkenni enn textana. Alltént eru þeir ennþá á svo lélegri íslensku að það er eiginlega óskandi að aðeins sé um lélegar þýðingar að ræða en ekki að fólk leggi sig niður við að semja svo vondan texta.

Kannski er það meðvituð ritstjórnarstefna að birta fjölda pistla sem eru þýðingar á efni sem fundið er í tímaritum og á netinu. Líklegt þykir mér miðað við hvað sumir pistlahöfundar birta oft efni á síðunni að a.m.k. sumir þeirra fái greitt fyrir vinnu sína, sem er þá þýðingarvinna en ekki höfundarvinna. Kannski er kaupið svo lágt að til þess bragðs er tekið að skrifa ekki frumsamið efni heldur þýða í snarhasti efni sem einhver annar hefur haft fyrir að semja og skrifa. Með því að gefa til kynna við lesendur að pistlarnir séu hugverk þeirra, skrifaðir útfrá eigin brjóstviti og reynslu, er hinsvegar verið að ræna upprunalegu höfundana heiðrinum (burtséð frá því að mér þykir ekki mikill heiður í efninu sem pistlarnir fjalla um).

Mig langar í raun ekkert að gagnrýna nafngreinda pistlahöfunda á bleikt.is þó það verði varla hjá því komist að vitna í einstaka skrif. Ég man fæst nafnanna og er því ekki sérfræðingur í stílbrögðum hverrar og einnar en það verður þó samt að segjast að það vantar sorglega mikið uppá að hægt sé að kalla það fólk pennafært sem virðist þó fá greitt fyrir að skrifa í fjölmiðil.

Það er lítil afsökun fyrir því að vefur sem fær auglýsingar og greiðir pistlahöfundum laun skuli ekki upplýsa lesendur sína um að efni sé fengið héðan og þaðan í stað þess að vera frumsamið efni.

Greinin „Hvernig kynlífi lifir þú eftir 5, 10 eða 20 ár? “ er gott dæmi um illa þýdda grein. Þar varð Neena 32 ára að Kolbrúnu 32 ára og Jodi 42 ára varð að Söndru 42 ára, Beverly 57 ára varð að Örnu 57 ára, Golda 68 ára varð að Öglu 66 ára (yngdist við nafnbreytinguna), Lynn 73 ára varð að Lísu og Francesca að Friðriku. Með því að breyta nöfnunum yfir í íslensk nöfn er reynt að fela þá staðreynd að greinin er þýdd en ekki frumsamin. Það sem klikkaði samt helst hjá þýðandanum var að þýða 30's sem þrítugsaldur (á íslensku tölum við um fertugsaldur), 40's sem fertugsaldur og svo framvegis, samt er vitnað í ofangreindar konur og er þá Sandra 42 ára farin að tala fyrir konur á fertugsaldri. Með einföldu gúggli fann ég greinina sem þetta var þýtt úr á vefsíðu Marie Claire tímaritsins (spurning hvort bleikt.is hafi fengið leyfi til að nota efni þaðan).

Einhver afkimi bleikt.is er tileinkaður kama sutra — það sama má sjá hjá Marie Claire — vægast sagt allar líkur eru á að hugmyndin sé stolin þaðan og greinar þýddar beint (ég nenni ekki fyrir mitt litla líf að lesa mér til um kynlífsstellingar hvorki þar né hjá bleikt.is til að sannreyna það).

Þessi grein er annaðhvort fáránlega illa skrifuð eða einfaldlega hráþýdd úr ensku. Hún er hinsvegar ekki eins auð-gúggluð og ýmsar aðrar, a.m.k. hefur mér ekki tekist að finna uppruna hennar.

Á menn.is má sjá samskonar vinnubrögð, illa skrifaða texta sem að öllum líkindum eru hráþýddir, sbr. þetta.

Ég er ekki ein um að gagnrýna lélega texta og hörmulegar þýðingar, það er fyrir lifandis löngu búið að kjöldraga bleikt.is fyrir þessi vinnubrögð. Reyndar hefur bleikt.is fengið á sig mikla gagnrýni fyrir viðhorf til kynhlutverka og ýmsan þann ósóma sem ég er hér að reyna að tæpa á. Pjattrófurnar hafa verið mjög gagnrýndar líka og hafa nokkrir öflugir bloggarar farið þar fremst í flokki gegn þeim og bleikt.is. Sigurbjörn hefur gagnrýnt og svo Tískubloggið þar sem Hildur beitir háði sem stílvopni á alveg hreint frábæran hátt. Jenný Anna, Þórunn Hrefna og Berglaug Petra hafa líka lagt skynsamleg orð í belg. Hrósa verður bleikt.is fyrir að hafa birt gagnrýni Þórhildar Eddu.

Hugmyndafræði afþreyingariðnaðarins
Þó ofangreind dæmi séu ein og sér sönnun þess að bleikt.is er samansafn vondra texta þá er það smáatriði miðað við hverskonar mynd gefin er af konum, áhugamálum þeirra og lífsviðhorfum. Kannski er einfaldast að líkja bleikt.is við sjónvarpsþættina Sex and the City (Beðmál í borginni) sem framleiddir voru á árunum 1998-2004 og sem mér þykir mjög líklegt að sumir pistlahöfundanna hafi horft á á viðkvæmum mótunarárum (jafnframt því að hafa hlustað á Spice Girls). En í þeim þáttum eru konur fyrst og fremst í leit að karlmönnum til að bindast eða til skemmri afnota. (Karlmenn virðast þá ýmist vera álitnir skaffarar sem eigi að standa undir neyslu kvenna, eða eru sjálf neysluvaran.) Leitin er mjög mikilvæg og um hana gilda ýmsar reglur (sem hafa verið settar fram á bók sem heitir The Rules sem kom út árið 1995 en hér á landi 1997 undir heitinu Reglurnar: margreyndar aðferðir við að vinna hjarta draumaprinsins) en gengur aðallega útá það að láta karlmanninn um að eltast við konuna en það ku vera merki þess að hún sé eftirsóknarverð.

Auk leitarinnar að hinum eina rétta er gert ráð fyrir að sumar konur hafi kynhvöt og er Samantha í Sex and the City skrípamynd af slíkri konu en hún neytir karlmanna af mikilli græðgi. Svoleiðis konur mega hafa frumkvæði að kynnum við karla. Önnur og skýrari birtingarmynd neysluhyggjunnar er mikilvægi þess að kaupa hluti. Föt, skó, töskur, snyrtivörur, sælgæti, drykki — og síðast en ekki síst: hjálpartæki ástarlífsins.

Aftur vil ég taka fram að mig langar ekkert til að gagnrýna einstaklinga sem skrifa á bleikt.is. Þær eru fengnar til að selja ákveðna ímynd af konum, ímynd sem reynt hefur verið að kveða niður með ýmsum hætti í nokkra áratugi af feministum. Það er annarsvegar hin hjálparlausa kona sem bíður eftir að karlmaður komi og bjargi lífi hennar (hér: bjargi henni frá einstæðingsskap og örbirgð) og hinsvegar tálkvendið sem karlmenn þurfa að vara sig á, óhamin af kynhvötinni og svífst einskis.

En hversvegna er sérstakur vefur lagður undir þennan áróður?

Efnisorð: , , ,