laugardagur, júní 11, 2011

Áhugamál og umræðuefni kvenna

Ég hef talað við fjölmargar konur um ævina og um allskonar hluti. Þetta hafa verið vinkonur mínar, ættingjar, vinnufélagar, konur sem ég hitti einu sinni og aldrei aftur, vinkonur vinkvenna minna, kunningjar eða nágrannar, konur sem eru eldri en ég, konur sem eru yngri en ég og jafnöldrur mínar. Þær hafa verið skemmtilegar, klárar, áhugaverðar, reiðar, jákvæðar, neikvæðar, upplífgandi, fróðar, beinskeyttar og mælskar, allt þar á milli og meira til.

Sumt af því sem við höfum talað um hefur verið fróðlegt, sniðugt og áhugavert, sumt hefur gert okkur reiðar, sorgmæddar eða kátar. Við höfum ekki alltaf verið sammála, enda eru ekki allar konur eins og hugsa ekki eins.

Við höfum talað um:
aðbúnað aldraðra, aðbúnað fatlaðra, alþjóðavæðinguna, andfeminista, auglýsingar, áhugamál, álfatrú, álver, ballett, bankahrunið, barnadauða fyrr á öldum, barnauppeldi, barnsmeðlög, bensínverð, blæðingar, bókmenntir, bráðnun jökla, dagvistun, dauðarefsingu, djammið, dómstóla og hvernig þeir dæma, dýravernd, einkavæðingu, einkavinavæðingu, eldamennsku, eldgos, elli, ESB, facebook, fasteignaverð, fátækt, fegurðarsamkeppnir, feminisma, ferðalög, fjármál, fjölmiðla, flugelda, fóbíur, fólk sem við þekkjum (vini, nágranna, vinnufélaga, ættingja, kunningja), fólk sem við þekkjum ekki neitt (fræga fólkið, kóngafólk, fólk sem við þekkjum af afspurn), fólk sem við þolum ekki, fóstureyðingar, frjálshyggju, frumvörp, fyrstu ástina, gagnsemi og skaðsemi fangelsisvistar og gæsluvarðhalds, glötuð tækifæri, góðærið (meðan á því stóð og eftir að því lauk), gróðurhúsaáhrifin, grenjavæðingu, græðgisvæðinguna, gæludýrahald í þéttbýli, hárgreiðslur og klippingar, heilbrigðiskerfið, heimildarmyndir, heimstyrjöldina síðari og helförina, hluti sem við höfum séð auglýsta eða höfum keypt eða erum að velta fyrir okkur að kaupa (bíla, bækur, eldhúsáhöld, farsíma, föt, heimilistæki, húsgögn, prentara, sjónvörp, snyrtivörur, tölvur, verkfæri), hluti sem við þolum ekki, hvernig við sjáum fyrir okkur elliárin, innflytjendur, ísbirni og önnur dýr í útrýmingarhættu, Íslendingasögurnar, íslenskt mál, Ísrael/Palestínu, íþróttir (gildi þeirra almennt, viðhorf okkar og annarra til þeirra, eigin íþróttaiðkun og annarra), jarðarfarir (eigin og annarra), jákvæðar og neikvæðar upplifanir, jeppakalla, jólin, kapítalisma, karlmenn sem hata konur, karlmenn sem við þekkjum og vitum að eru nauðgarar, karlmenn almennt, klám, klámvæðingu, konur í þróunarlöndum, kosti og galla við að búa í /einbýli/fjölbýli/borg/smábæ/sveit/ á Íslandi eða í útlöndum, kostnað við að halda heimili, kórsöng, kreppuna, kristni, kvensjúkdóma, kvikmyndir, kvótamálið, kynlíf, laun, launaleynd, leikhæfileika, leiklist, líf kvenna fyrr á tímum, líkamsrækt, lýtaaðgerðir, lækniskostnað, lögguna, mannréttindi, mataræði, menn sem berja eiginkonur sínar, menningu, menntun, múmínálfana, myndlist, NATO, nauðganir, nauðgara, nektardansstaði, nýaldarpælingar, olíuhreinsistöðvar, ólöglegt niðurhal, óperur, persónuleg vandamál, pólitík, rasisma, reykingar, sjónvarpsþætti, sjúkdóma, skatta, skipulagðar nauðganir í stríði, skipulagsmál, skjalavörslu, slæmar og góðar minningar, smábátaveiðar, spennubækur, spillta pólitíkusa, staðgöngumæðrun, stjórnmálaskoðanir, stóriðju, stríð, stöðu kvenna í þriðja heiminum, störf sem við höfum unnið eða vildum prófa, sumarfrí (sem við höfum farið í eða dreymir um), sveitarstjórnarmál, sönghæfileika, teiknihæfileika, tilgang lífsins, tísku, tjaldútilegur, tónleika, tónlist sem við ekki þolum, trú/trúleysi, umhverfisvernd, unglingsárin, uppáhalds hljómsveitir, útivist, veðrið, veikindi, verkalýðsfélög, vini okkar (vel eða illa), vinnuna, virkjanir, vændi, þingsályktunartillögur, þjóðkirkjuna, þjóðsögur, þróunarkenninguna, æskuminningar, ættingja okkar (ýmist vel eða illa), ævisögur okkar og hver komi til með að leika í bíómyndinni sem verður gerð um okkur þegar sagan er öll.

Þessi listi yfir umræðuefni er alls ekki tæmandi en í stuttu máli sagt þá tala konur um margt fleira en föt, karlmenn, kynlíf, stefnumót og snyrtivörur.

Efnisorð: