föstudagur, júní 17, 2011

Styðjandi bleikur kvenleiki 2. hluti

Andfeminisminn
Það er margt sorglegt við bleikt.is og eitt af því er að sjá að hve konurnar sem þar skrifa hafa hafnað feminismanum (nýjustu fregnir herma þó að þær séu í fullu stafi við að vera feministar!). Eins og aðrar konur á Íslandi njóta þær ávaxta feminismans, þær eiga kost á fæðingarorlofi og barnabótum, niðurgreiddri dagvist börn sín, geta menntað sig á hvaða sviði sem þær vilja, hafa full réttindi á við karlmenn og svo mætti lengi telja. Og það má kannski þakka fyrir að þeim þyki þetta svona sjálfsagt en það er verra að þær skuli ekki bera virðingu fyrir þeim konum sem börðust fyrir réttindum kvenna eða þeim málefnum sem enn er verið að berjast fyrir eða gegn.

Feministar hafa lengi reynt að benda á að konur hafi samfélagslega vitund (út fyrir veggi heimilisins) og pólitískan áhuga (og eigi því að taka þátt í ákvörðunum í samfélaginu) og hæfileika sem snúa að fleiru en færni í að bera á sig snyrtivörur, ala upp börn, skúra gólf – eða bólfimi.

Þeim staðalímyndum sem feministar hafa reynt að kveða niður er hampað mjög á bleikt.is og ýtt undir þær. Á bleikt.is varðar mestu að viðra skoðanir, sýna hegðun og hafa vald á því sviði sem ekki ógnar karlmönnum: á kynferðissviðinu. Konur eigi að hafa það vald yfir karlmönnum að þeir standist þær ekki og aðrar konur eiga að vera í samkeppni við þær um karlmenninna og kynþokkann og þar leikur öfund lykilhlutverk. Til þess eru öll meðul notuð og þau meðul eru alltaf aðkeypt: snyrtivörur, fatnaður og þess háttar. Allt snýst um neyslu til að vera samkeppnisfær og neyslan hefur gildi í sjálfri sér (innkaupaferðir sem uppspretta ánægju) því hún styður við ímyndina; hina verðmætu konu.

Konur mega gera allt sem þær vilja, sannarlega, en í hugmyndaheiminum sem bleikt.is heldur á lofti er það algerlega háð því að koma ekki karlmönnum úr jafnvægi og ógna þeim ekki. Þvert á móti verði að ýta undir karlmennskuna, leyfa karlmanninum að borga og opna dyrnar og 'eltast við bráðina' til að festa í sessi þá hugmynd að kynin séu ólík og karlar séu sterkari, ríkari og voldugri.

Konum á að þykja það léttir að geta aftur orðið kvenlegar, eins og kvenleiki sé fólginn í að vera hjálpar þurfi eða nota snyrtivörur. Konur kjósa kynfrelsið, og jafn ágætt og það nú er þá vill nú svo til að það er sá partur af frelsi kvenna sem karlar almennt eru jákvæðastir gagnvart og þeir hvetja þær því mjög til að nýta það frelsi sitt. Karlmönnum stendur ekki stuggur af konum sem vilja ekkert fremur en þóknast þeim kynferðislega. Það eru þær sem gagnrýna þá sem eru óvinsælar, þessar þarna feministarnir. Og konur sem skrifa á bleikt.is passa sig þessvegna að gagnrýna karlmenn ekki nema örlítið og þá eingöngu fyrir atriði eins og pissa útfyrir eða hringja ekki nógu oft.

Fyrst og fremst er bleikt.is dapurleg lesning. Sú ímynd sem er gefin af konum þar er sú að konur séu grunnhyggnar með afbrigðum og hugsi ekki um annað en að ná sér í karlmann með öllum ráðum.

Pistlahöfundarnir á bleikt.is eru auðvitað ekki ósnertar af feminisma og telja sig eflaust allar mjög sjálfstæðar og þurfi engan mann og telji sig ekkert óæðri þeim á neinn hátt enda standi þeim allar dyr opnar en þær bara kjósi sjálfar að hafa mestan áhuga á útliti sínu og því að vera kynþokkafullar (þær virðast líka hafa haft Spice Girls sem fyrirmyndir sínar en hið innihaldsrýra Girl Power heróp þeirra gekk aðallega útá markaðssetningu barnslegs kynþokka) og það sé bara alveg óvart að karlmönnum falli það vel í geð.

Pistlahöfundar á bleikt.is hafa sumir hverjir áður skrifað á Pressuna og getið sér gott orð þar fyrir t.a.m. að tala vel um nektardans og illa um feminisma og kallað konur í jafnréttisbaráttu feminasista. Það er ávísun á að vera ráðin sem pistlahöfundur.

Konur sem skrifa gegn feminisma og hampa snyrtivörunotkun, karlmönnum sem bjargvættum sínum, og lýsa yfir hve áhugasamar þær eru um kynlíf, eru líklegri til að fá greitt hjá vefmiðlum fyrir að skrifa um þessi áhugamál sín. Þær sem lýsa yfir feminískum skoðunum og tala gegn neysluhyggju og ofdekrun karlmanna eiga ekki upp á pallborð þeirra sem ráða konur til fjölmiðla.

Söluvettvangur
Eitt af því sem sumt fólk telur nauðsynlegan fylgifisk kynfrelsis kvenna er að allar konur verði að eiga 'dótakassa'. Á bleikt.is eru pistlahöfundar sem hafa fjallað um 'hjálpartæki ástarlífsins' (dótið í kassanum) á mjög jákvæðan hátt.

Ekki skal ég efa það að sumar konur eigi auðveldara að fá fullnægingu með þartil gerðum tækjum en er þess þó nokkuð fullviss um að þær konur sem almennt gátu fengið fullnægingar tókst það ágætlega áður en slík tæki og tól voru sett á markað. Ég hef meira segja heyrt um konur sem enn í dag þurfa engin kynlífshjálpartæki enda þótt yfirleitt sé talað um þau eins og skyldueign allra kvenna.

Það er reyndar ein af snjallari markaðssetningum kapítalismans að láta þær stöllurnar í Sex and the City þáttunum (Beðmál í borginni) tala fjálglega um notkun slíkra tækja, sem varð til þess að sala stórjókst. Pistlahöfundar á bleikt.is hafa örugglega hag lesenda sinna fyrst og fremst fyrir brjósti þegar hjálpartæki kynlífsins eru dásömuð en það er samt sem áður liður í markaðssetningu slíkra tækja. Og það vill svo til að sömu eigendur og eiga bleikt.is reka líka vefverslun sem kallast mona.is og er vefverslun með 'hjálpartæki ástarlífsins'. Þessvegna má finna pistla á bleikt.is þar sem lagt er upp með að kynna fyrir konum aðferðir til að stuðla að „kynheilbrigði“ eða finna g-blettinn en sem enda í að mæla með vörum frá mona.is. Auk þess eru líka beinar auglýsingar fyrir kynlífsbúðina. (Einnig er hin vefverslunin, butik.is komin með beinar og eflaust líka óbeinar auglýsingar inná bleikt.is).

Bleikt.is er semsagt í sömu eigu og tvær vefverslanir, butik.is og mona.is, fyrirtækis sem kallast Vefpressan. Eða eins og þar segir:
„Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Vefpressunnar, hefur haslað sér völl í kynlífsbransanum . Björn Ingi hefur ásamt viðskiptafélögum sínum sett á fót vefverslunina mona.is, þar sem hægt er að kaupa vatnsheldar unaðsperlur, ögrandi undirföt, unaðskrem og það sem kynnt er sem „flottasta unaðstækið fyrir konur“, svo fátt eitt sé nefnt. Þá býður verslun Björns Inga og félaga upp á reðurpumpur og margs konar hjálpartæki ástarlífsins ásamt bókum og DVD-diskum um kynlíf.“

Meðan svo lesendur bleikt.is eru uppteknir af því hvaða dót á að kaupa næst, í hvaða stellingum og með hvaða tólum er best að fá fullnægingu og hvaða viðreynsluaðferðir duga (alltaf! við allar manneskjur!) þá fara eigendurnir sínu fram í viðskiptalífi og/ eða hylja slóð vafasamra gerninga sinna frá góðæristímanum sem gerði þá svo ríka.

Efnisorð: , , ,