sunnudagur, júlí 17, 2011

Strákar og bílar í 125 ár

Það eru ekki nema 125 ár síðan bílar komu á sjónarsviðið og rúm hundrað ár síðan sá fyrsti kom til Íslands. Fljótlega urðu þeir almenningseign og alla tíð síðan hefur þeim fjölgað svo mjög að skipulag borga og bæja tekur mið af þeim og heilu stríðin eru háð um olíulindirnar sem eru uppspretta þeirrar orku sem knýr bíla (og skip og flugvélar) áfram. Ýmislegt bendir til að þeim eldsneytisgjafa verði skipt út (enda er hann brátt á þrotum) en enn er ekki búið að koma með eina heildarlausn sem sameinast hefur verið um hvaða orka eigi að knýja bíla í framtíðinni: rafmagn, metan, etanól (alkóhól), vetni eða eitthvað enn annað. Án þess að ég sé sérlega spámannlega vaxin þá leyfi ég mér að efast um að eftir einhver árhundruð verði bílar yfirleitt til. Bíllinn, sem er tiltölulega nýtt fyrirbæri, muni því ekki leggja undir sig nema örstutt tímabil í mannkynssögunni.

Samt sem áður er það nú svo að bíllinn, hvort sem okkur líkar betur eða verr, er mjög áberandi fyrirbæri í samtíma okkar. Hér á Íslandi er til bíll á nánast hverju heimili og margir bílar tilheyra sumum einstaklingum og fjölskyldum. Flestallt fólk notar bíla (einkabíl, leigubíl, strætó) til að komast leiðar sinnar.

Það er sérkennilegt hve karlmenn hafa eignað sér bílinn sem fyrirbæri enda þótt það sé löngu liðin tíð að það þyki ókvenlegt að stjórna ökutæki. Yfirleitt sitja karlmenn í bílstjórasætinu séu bæði karl og kona í bílnum, sé öll fjölskyldan með er það nánast regla að pabbinn keyri. Það er líka álitið hlutverk karlmannsins að hugsa um heimilisbílinn, tékka á olíu, skipta um dekk, þvo og bóna (flestallar viðgerðir fara fram á verkstæðum því tölvubúnaður sem kominn í alla nýrri bíla býður ekki uppá heimaviðgerðir eins og áður tíðkuðust og þóttu karlmannsverk). Svo telja þeir sig auðvitað vera betri bílstjóra.

Ég veit ekki alveg hvernig sú stökkbreyting átti sér stað, en miðað við hugarfar flestra karlmanna, þá virðast þeir halda að hæfileikinn til að aka bíl sé þeim runninn í merg og bein. Þessi genetíska breyting á líklega bara hafa orðið á karlmönnum með tilkomu bílsins, og sú stökkbreyting hefur semsagt valdið því að þeir eru mun mun mun betri bílstjórar en konur (lesist: kéllingar). Af því stafar svo sú trú að allt sem tengist bílum sé karlmannlegt: krafturinn, hraðinn, útlit bílsins. Auglýsendur hafa því oftar en ekki miðað við karlmenn sem kaupendahóp og þó hér á landi sjáist ekki eins oft bílaauglýsingar sem áður tíðkuðust, þar sem staðalímyndinni af girnilegri konu er stillt upp með bíl þá lifir sú stemning góðu lífi á bílasýningum erlendis og bílaauglýsingar og umfjöllun um bíla er eftir því. Bílum er meira að segja skipt upp í 'bíla' og 'konubíla', þar af eru þeir síðarnefndu litlir og sparneytnir (lesist: skynsamlegir) en allir hinir eru sjálfkrafa eyrnamerktir körlum.

Hér á landi hefur slíkum auglýsingum líklega verið of oft mótmælt til að bílaumboðin leggi sig niður við að flagga hálfberum stelpum til að reyna að trekkja að karlkyns viðskiptavini. Þá hafa margar kannanir leitt í ljós að konur hafa úrslitavald þegar kemur að því að kaupa heimilisbílinn og þessvegna er ekki vert að styggja þær um of. En þó konur hér á landi séu sæmilega jafnréttissinnaðar upp til hópa þá virðast þær nánast alltaf víkja fyrir 'betri bílstjóranum' þegar bregða sér á út fyrir borgarmörkin eða bara fara í ísbíltúr. Börnin alast því upp við að sjá föður sinn sem þann sem ræður för og sem hefur líf og öryggi fjölskyldunnar á sínu valdi, en móður sína sem farþega undir stjórn föðurins. Þetta, ásamt öllum súru bröndurunum um konur sem lélega bílstjóra, veldur kannski því að börnum dettur ekki í hug annað en bíllinn sé sérmerktur karlmönnum. Kannski er það ástæða þess að færri stelpur en strákar leika sér með bíla. Líklegra þykir mér þó að stelpur fái ekki bíla að gjöf í sama mæli og strákar, það þyki einhvernveginn 'ekki við hæfi' að gefa stelpu bíl, rétt eins og það þykir 'ekki við hæfi' að gefa strák dúkku í jóla- eða afmælisgjöf.

Það er samt sérkennilegt að sjá svo opinskátt talað um bíla sem strákadót eins og raun ber vitni hjá þeim Pjattrófum (ekki að ég hafi átt von á öðru úr þeirri átt). Ég hélt að allt venjulegt fólk talaði um dót fyrir börn almennt og barnaherbergi, en ekki um strákaherbergi og strákadót og stelpuherbergi og stelpudót. En hér er semsagt sagt, svart á hvítu (en auðvitað í nokkrum leturstærðum og sumt breiðletrað og annað ekki, en slík frumlegheit í framsetningu einkenna texta hjá Pjattrófunum, oft er textinn í mörgum litum að auki) að allir strákar (engin undanteking, enda allir strákar eins) elski að leika sér með leikfangabíla.
Allir strákar elska að leika sér með leikfangabíla en þeir geta líka legið um öll gólf eftir leik.
Það eru margar leiðir til að fá stráka til að ganga frá bílunum sínum og ef þeir eru geymdir á skemmtilegan hátt getur það gert tiltektina meira spennandi. Það eru oft auðveldu lausnirnar sem virka best.
Hér eru nokkrar snjallar hugmyndir til að hafa bílana í röð og reglu í strákaherberginu
.“

Ekki gert ráð fyrir genetískt stökkbreyttum stelpum hér.

Ef leikur stelpna (barna) að dúkkum er liður í undirbúningi þeirra fyrir uppeldishlutverk/umönnunarhlutverkið síðar meir, er þá ekki rökrétt að leikur að bílum sé liður í að undirbúa sig fyrir að hafa stjórn á ökutæki? Ætli að það færi ekki þannig, fengju stelpur að leika sér með bíla frá unga aldri að þeim þætti þeir leika í höndum sér síðar, eins og þeir hafi alltaf gert? Kannski fengu þær stelpur sem núna eru orðnar strætóbílstjórar, vörubílstjórar, rútubílstjórar og leigubílstjórar að leika sér með bíla (eða langaði til þess en fengu ekki og eru nú að fá útrás) og áttu jafnvel bíla sem geymdir voru í barnaherbergjunum. Kannski er eitthvað samband þar á milli; að alast upp við þá tilhugsun að bílar tilheyri sér og að þykja þeir leika í höndum sér.

Leikföng barna ættu að taka mið af samtíma sínum (þau mega líka leika sér að legg og skel, vilji þau það). Þannig er ekki nema eðlilegt að börn sem alast upp í umhverfi þar sem bílar eru svo algengir sem raun ber vitni, eigi leikföng sem endurspegla þann raunveruleika. Stelpur jafnt sem strákar.

Efnisorð: ,