föstudagur, júlí 01, 2011

Nautakjötið, lambakjötið, kjúklingarnir og skinkan

Í gær birtist í Fréttablaðinu athyglisverð grein um velferð dýra sem mig langar að vekja athygli á, enda nær hún vel utanum málefnið. Þessvegna get ég ekki stillt mig um að birta valda kafla úr greininni en annars hvetja fólk til að lesa hana í heild sinni hér.

„Nýverið náðu áströlsk dýraverndarsamtök að beina kastljósi fjölmiðla að svívirðilegri meðferð sláturdýra í Indónesíu, en Ástralir hafa um árabil flutt þangað eldisdýr á fæti. Í meira en áratug hefur ábendingum um skelfilega meðferð dýranna verið komið á framfæri við áströlsk stjórnvöld án þess að nokkuð væri aðhafst af þeirra hálfu. Þau hafa fram að þessu hunsað slíkar upplýsingar og tekið efnahagslega hagsmuni fram yfir siðferðislegar skyldur og alþjóðlegar skuldbindingar varðandi meðferð eldisdýra.

Það var ekki fyrr en átta dögum eftir að mikil reiðialda reis í landinu í kjölfar birtingar myndskeiða af meðferð sláturdýranna, að stjórnvöld neyddust til að stöðva útflutninginn. Þrátt fyrir að bannið sé einungis tímabundið er hér þó um merk tímamót að ræða því það heyrir til undantekninga að efnahagslegir hagsmunir ríkja eða einkaaðila víki fyrir velferð dýra.

Þó að umrædd myndskeið séu svo yfirgengilega hrottaleg að öllu venjulegu fólki ofbjóði eru til sannanir um sambærilega og jafnvel verri meðferð eldisdýra í okkar heimshluta.

Í sjálfbirgingslegri einfeldni gefum við Íslendingar okkur að ástand dýraverndarmála sé annað og betra hér á landi en í fjarlægum heimshlutum - að svona nokkuð gerist ekki hér í okkar góða landi.

Það var því verulegt áfall þegar á liðnum vetri komu fram upplýsingar um tannklippingar grísa og geldingar unggalta í íslenskum eldisbúum, aðgerðir sem framkvæmdar voru á fyrirlitlegan hátt, deyfingarlaust og án aðkomu dýralækna. Þegar eftir var gengið voru viðbrögð og skýringar þeirra sem ábyrgð báru á þessum óhæfuverkum óásættanlegar og siðlausar með öllu.

Að bera fyrir sig að um einfalt reikningsdæmi hafi verið að ræða og að höfð hafi verið að leiðarljósi arðsemis- og hagnaðarsjónarmið eru óboðleg rök í siðaðra manna samfélagi.“


Greinarhöfundur fjallar svo nokkuð um kröfu neytenda um ódýra kjötvöru sem helstu orsök* þess að eldisdýr búi við óviðunandi aðbúnað.

„Við neytendur þurfum að snúa við blaðinu og gera þá kröfu til framleiðenda og seljenda landbúnaðarafurða að á boðstólum séu afurðir sem vottað sé af þar til bærum aðilum að séu afurðir eldisdýra sem búið hafi við siðlegar aðstæður þar sem eðlislægum þörfum þeirra og velferð hafi verið sinnt. Í því felst enginn tvískinnungur eins og gagnrýnendur þeirra sem krefjast aðgangs að lífrænt ræktuðum landbúnaðarafurðum hafa haldið fram. Séum við í vafa um að dýrin skynji sársauka og ótta eða lifi við þröngan kost og langvarandi kvalræði ber okkur að láta blessuð skinnin njóta vafans.

Það fer ágætlega saman að vera neytandi en jafnframt að huga að velferð og aðbúnaði þessara hrekk- og saklausu samferðafélaga okkar hér á jörðinni.“


Greinarhöfundur spyr að auki þessarar spurningar: „Halda fjölmiðlar sig til hlés í umræðunni til að verða ekki af auglýsingatekjum framleiðenda og seljenda dýraafurða?“ Í ljósi þess að kvartanir hrefnuveiðimanna leiddu til þess að auglýsingar hvalfriðunarsinna voru teknar niður í Leifsstöð þá er þessi spurning ansi áleitin.

___
* Það er reyndar mín skoðun að hún sé bara ein ástæðan, ekki endilega sú helsta. Hin er grimmd manna í garð dýra sem lýsir sér í beinum misþyrmingum eins og sést í hinu hræðilega myndbandi frá Indónesíu. Margsinnis hefur verið sannað að eldisdýr í Evrópu sæta slíkum misþyrmingum, ekki síst á síðustu sólarhringum lífs síns, þannig að það viðhorf að „þetta sé hvorteðer að fara að drepast“ einskorðast ekkert við aðra menningarheima eða litarhaft fólksins sem beitir ofbeldinu.

Efnisorð: ,