laugardagur, september 03, 2011

Tjáningarfrelsi með ábyrgð

Ég hef oft velt fyrir mér hve mismunandi skilning fólk leggur í tjáningarfrelsi. Allra fyrsti pistill minn hér* kom inn á tjáningarfrelsi og síðan þá hef ég haft í huga að skrifa ítarlegar um hvernig mér þykir sem það hugtak hafa verið teygt og togað og misnotað,** ekki bara hér heldur víðar í heiminum og finnst mér þar Bandaríkin vera víti til varnaðar.

Þegar upp hafa komið mál í samfélaginu þar sem tekist er á um tjáningarfrelsi hefur mig oft langað til að leggja orð í belg en alltaf hætt við, ég vil frekar tala um tjáningarfrelsi almennt heldur en einblína bara á eitt mál. Samt kemst ég líklega ekki hjá því að nefna dæmi.*** Ekkert af þessum málum eitt og sér varð samt til þess að ég lét loks verða af því að skrifa um tjáningarfrelsið.

Andi laganna um prentfrelsi og tjáningarfrelsi var alveg örugglega sá að tryggja þegnum ríkisins (ekki bara Íslands, heldur Frakklands, Bandaríkjanna o.s.frv.) frelsi til að andæfa yfirvaldinu. Hver sem er ætti að mega gagnrýna þjóðhöfðingja, ríkisstjórn og embættismenn án þess að vera refsað fyrir (svo framarlega sem engum væri hótað eða farið væri með staðlausa stafi). En flestir virðast þó skilja það svo að þetta frelsi sé frelsi allra til að segja allt um alla, hversu niðrandi sem það er og að auki birta opinberlega allan andskotann hversu viðurstyggilegur hann er og hvaða afleiðingar það hefur fyrir einstaklinga og þjóðfélagshópa. Hér er ég auðvitað fyrst og fremst með klám í huga sem skákar í skjóli tjáningarfrelsis og prentfrelsis, en líka dreifing á allskyns viðbjóði öðrum. Nýlega féll dómur í Bandaríkjunum um að það mætti ekki banna dreifingu á myndum frá hundaati (þar sem hundar deyja) því það væri skerðing á tjáningarfrelsi! Þvílík afbökun á anda lagana.

Það er langur vegur milli þess að hindra tjáningu kínverska listamannsins Ai Wei Wei, sem er einn þeirra sem gagnrýnir mannréttindabrot í heimalandi sínu og hefur ítrekað verið áreittur af lögreglu og fangelsaður fyrir vikið, og þess að banna auglýsingar á skyndibita í barnatímum, en samt flokkast hvort tveggja undir skerðingu á tjáningarfrelsi, að mati sumra. Sú afstaða að finnast óheft aðgengi að klámefni á netinu flokkist líka undir tjáningarfrelsi, jafnvel þótt vitað sé að margar þeirra kvenna sem sjást í og á klámmyndum séu ekki þar af fúsum og frjálsum vilja, og hinar hafa sogast inn í heim klámiðnaðarins vegna brotinnar sjálfsmyndar. En talsmönnum tjáningarfrelsis er sama um slíkt. Ekkert má banna því þá verði allt bannað. En er ekki einhver munur á því að listamaður (eða hver annar almennur borgari) megi gagnrýna stjórnvöld og á klámi? Er ekki munur á gagnrýni á mannréttindabrot og því að reyna að selja litlum börnum sem trúa öllu sem fyrir augu þeirra ber, óhollan mat og annað drasl?

Hér á landi eru samband íslenskra auglýsingastofa, ýmsir frjálshyggjupostular, kvenhatarar, rasistar og allra handa markaðssinnar hörðustu talmenn þess að allt megi segja og auglýsa hvar og hvenær sem er hvort sem það móðgar, særir, eða grefur undan virðingu fyrir öðrum, grafi undan réttindum þeirra eða sé skaðlegt á annan hátt.

Markaðshyggjufíflin álíta bann við auglýsingum kringum barnatíma vera skerðingu á tjáningarfrelsi — en fólki eins og mér þykir það veruleg afbökun og gengisfelling á hugtakinu tjáningarfrelsi að líta svo á að það að selja börnum morgunkorn, sælgæti, skyndibita og leikföng sé stjórnarskrárvarið athæfi. (Fyrir utan nú afneitunina á samhengi holls mataræðis og heilsufarsvandamála. Eða hvernig stendur á því að í öðru orðinu hafa auglýsingar ekki áhrif á börn en í hinu er best að ná þeim ungum til að gera þau að dyggum neytendum?)****

Það er a.m.k. mikill munur á því eða hæðast að kóngafólki í Thailandi, en kona nokkur var dæmd í 18 ára fangelsi fyrir slíka goðgá (málið er nú komið fyrir önnur dómsstig). Ætli auglýsingastofur þar í landi borgi málskostnað konunnar?

Í Bandaríkjunum er krafan um tjáningarfrelsið mjög hávær og hefur löngu gengið út fyrir öll mörk. Þannig eru það talin stjórnarskrárvarin réttindi trylltra trúarofstækismanna að vera með ósmekkleg mótmæli við jarðarfarir samkynhneigðra. Að banna mótmælendunum að hrella syrgjendur með þessum hætti er semsagt 'að skerða tjáningarfrelsi'. Í þessu sama landi var fólki meinað að mótmæla Bush forseta nema þar sem öruggt væri að hann sæi það hvorki né heyrði.

Mörk siðferðis og tjáningarfrelsis geta verið óskýr í huga sumra, þeim finnst það sem okkur hinum þykir ósmekklegt og siðlaust bara vera réttur sinn til tjáningar, sama hvenær, hvar og gegn hverjum orð þeirra og athafnir beinast.

Þeir sem helst vilja fá að segja niðrandi hluti um minnihlutahópa, konur eða fólk af öðrum trúarbrögðum og uppruna (og svo þeir sem vilja selja börnum drasl og dreifa klámi) eru trylltir þegar dregnar eru úr þeim tennurnar í formi banns við meiðandi og hatursfullum ummælum. Dæmi um það er Vilhjálmur Eyþórsson sem hefur farið mikinn vegna þess ákvæðis í íslensku stjórnarskránni (þeirri sem er enn gildandi) um undanþágu á fortakslausu amerísku tjáningarfrelsi þar sem allt má. Í 233. grein almennra hegningarlaga stendur semsé að
„Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna] vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar] sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“
Þetta kallar Vilhjálmur „fyrsta og stærsta skrefið í átt til alræðis“ það sem „tjáningarfrelsis, undirstaða alls lýðræðis og allra mannréttinda í raun afnumið á Íslandi.“ Hann vill nefnilega fá að andskotast útí fjölmenningarstefnuna, feminista og „brölt og rassaköst hómósexúalista“ í friði (hann á sér a.m.k. einn norskan skoðanabróður í því máli).

Stoltenberg forsætisráðherra Noregs er þeirrar skoðunar að ekki megi þagga niður í hatursáróðrinum. Það má vel vera að það sé rétt hjá honum. Breivik skorti samt hvergi umræðuvettvang, hann tjáði sig víða. Í hans tilviki að minnsta kosti, dugði ekki skrifleg tjáning til. Hún leysir því ekki allan vanda. Frelsið til að tjá sig um ógeðfelldar hugsanir getur leitt til þess að æsa upp hatur í garð einstaklinga og hópa, og orðin geta leitt til þess að einhver ákveður að „gera eitthvað í málunum.“

Sænskir fjölmiðlar hyggjast nú takmarka aðgang að athugasemdakerfum sínum og krefjast þess að fólk skrái sig inn gegnum facebook. Gallinn er auðvitað sá að fólk getur stofnað facebook síðu undir hvaða nafni sem er. Mörg augljós dæmi um slíkt má sjá í athugasemdakerfi DV.

Það hlýtur að vera hægt að hafa opið fyrir athugasemdir við fréttir af stjórnvöldum, fjármálagerningum, og slíku sem flest fólk getur verið sammála að þurfi opna umræðu um, þar sem ekki veitir af gagnrýni og jafnvel að fólk geti fengið útrás fyrir reiði sína (þó ritstjórnir eigi alltaf að hafa eftirlit með orðbragði og hótunum) en hafa jafnframt lokað fyrir athugasemdir við fréttir eða greinar þar sem t.d. fjallað er um kynferðisbrot, persónulegar illdeilur fólks, slys, dauðsföll, eða í raun bara allt það sem flokkast ekki undir hið opinbera eða yfirvaldið í samfélaginu.*****

Tjáningarfrelsi ætti að umgangast af varúð og líta á það sem frelsi með ábyrgð.

___
* Í mínum allra fyrsta pistli á þessu bloggi sagði ég þetta: „Mér finnst að prentfrelsi og málfrelsi sé stórlega ofmetið og að myndirnar [af Múhameð spámanni] hefðu aldrei átt að vera birtar. Hef ekki kynnt mér það eins nákvæmlega og ég ætlaði mér, en er nokkuð viss um að hugmyndin um prent-og málfrelsi kom fyrst fram í bandarísku stjórnarskránni – nú eða þeirri frönsku – og að meiningin hafi verið sú að halda aftur af þeirri ágengu tilhneigingu stjórnvalda að þagga niður í þegnum sínum og meina þeim að gagnrýna sig. Málfrelsi og prentfrelsi átti örugglega aldrei að vera til að gefa þegnum leyfi til að níða skóinn af hverjum öðrum á opinberum vettvangi, hvorki einstaklingum né hópum.“
** Fyrr á árinu skrifaði ég reyndar bloggfærslu um tillitssemi sem mér finnst tengjast málinu meir en lítið.
*** Ég á til dæmis við umræðuna um Gillzenegger, Koddu-sýninguna (blómabókarmálið), yfirlýsingu Breiviks og fjöldamorðin.
**** Svo virðist sem allar gamlar fréttir á Smugunni hafi horfið þegar síðunni var breytt. Sama sýnist mér uppi á teningnum varðandi gamlar fréttir á RÚV; það er varla góð stefna hjá fjölmiðlum að fréttir séu eins og mjólk sem á sér síðasta neysludag.
***** Helst vildi ég líka að fjölmiðlar, allir með tölu, hættu að birta slúðurfréttir, hvortheldurer af útlendingum (og þá einnig Íslendingum), ástalífi þeirra, skemmtanalífi eða misgáfulegum athugasemdum þeirra um lífið og tilveruna, því engum er greiði gerður með þessum upplýsingum: okkur hinum kemur þetta ekki við og þetta er í besta falli ómerkilegt slúður en þó aðallega illgirni í garð misviturra einstaklinga sem virðast ekki kunna fótum sínum forráð.

Efnisorð: , , ,