þriðjudagur, ágúst 23, 2011

Hvalveiðar eru ekki hluti af þjóðararfinum

Það var fín upprifjun á hvalveiðisögu Íslendinga sem lesa mátti í grein Sigursteins Mássonar í dag. Hvalveiðisagan er nefnilega ekki eins löng eins og gefið er í skyn þegar reynt er að afsaka hvaladrápin, síst af öllu er hægt að halda því fram að þetta sé forn atvinnugrein sem hafi haldið lífi í þjóðinni gegnum aldirnar, en margir virðast haldnir þeim misskilningi.*

Mér finnst mikilvægt að halda þessu til haga:
„Þegar hvalveiðar hófust við Ísland um 1600, eftir að Baskar höfðu uppgötvað Íslandsmið á leið sinni norður að Svalbarða, og í þrjú hundruð ár þaðan í frá, til 1900 stunduðu Íslendingar engar hvalveiðar í atvinnuskyni. Danir komu á eftir Böskum ásamt Hollendingum. Svo komu Frakkar og síðar settu Norðmenn upp stórar hvalstöðvar á Vestfjörðum. Þetta voru því erlendar stórþjóðir sem stunduðu hér stórfelldar hvalveiðar en Íslendingar máttu heppnir heita ef þeir fengu íhlaupavinnu á planinu.“
Sigursteinn segir líka frá því að Íslendingar hafi á endanum bannað hvalveiðar útlendinga árið 1913 en sjálfir ekki farið að veiða hval fyrr en eftir seinna stríð.
„Í fjögur hundruð ára sögu hvalveiða við landið spannar samanlagður tími iðnaðarveiða Íslendinga aðeins tæplega fimmtíu ár. Aðrar þjóðir gerðu hér út á hval í nærfellt 350 ár. Á síðustu öld náðu gegndarlausar hvalveiðar hámarki og leiddu til víðtækra friðunaraðgerða sem langflestar þjóðir heims styðja.“

Um þessa stuttu sögu hvalveiða Íslendinga var líka fjallað í ágætri grein á Múrnum fyrir margt löngu. Og þar er einmitt bent á að:
„Það er því ekki hægt að segja að hvalveiðar séu á einhvern hátt hluti af þjóðararfinum þar sem þær voru ekki stundaðar af Íslendingum fyrr en fyrir tveimur kynslóðum.“

Sá áróður, sem haldið hefur verið að fólki, að það sé djúpt í þjóðarsálinni að veiða hval og að það sé spurning um að viðhalda sjálfsímyndinni, hann er byggður á sandi.

___
* Fólk hlýtur að vera að rugla hvalveiðum saman við hvalreka, sem er allt annað mál. Hvalreki er þegar dauðan hval rekur á land, hvalveiðar krefjast þess að mannskepnan sigli út og finni hval, drepi hann og komi að landi. Slíkt krefst burðugri farkosta en þeirra árabáta sem notaðir voru til fiskveiða hér öldum saman. Mér er reyndar alveg fyrirmunað að skilja að fólk skuli halda að árabátar hafi elt hval uppi og dregið að landi, jafnvel þó tólfæringar væru.

Viðbót: Í Sjónmálsþætti 23. júní 2014 er talað við Jón Þ. Þór sem segir frá tilhögun hvalveiða á fyrri tímum. Mér heyrist hann hrekja lýsingar mínar á árabátaveiðum að nokkru leyti, því hann segir að Vestfirðingar hafi skutlað smáhveli á nítjándu öld. En ég hafði reyndar ekki smáhveli í huga heldur búrhval, langreyði og sandreyði. Afturámóti segir Jón að Baskar hafi veitt stóra hvali úr árabátum við Jan Mayen. Hlustið endilega á viðtalið við Jón, það er mjög fróðlegt.

Efnisorð: