miðvikudagur, ágúst 17, 2011

Þeir eru fyrirlitnir sem eiga það skilið, hinum er hampað

Ég er viss um að einhverjum þykir að ég sé haldin karlfyrirlitningu. Þeir um það. Ég tala reyndar illa um þá sem leggja sig fram um að gera lítið úr konum. Ég tala illa um karlmenn sem káfa á konum og líta á þær eins og kjötstykki. Ég tala illa um karlmenn sem kaupa konur til að svala fýsnum sínum á, og þeim sem kaupa aðgang að þeim þar sem þeir geta glápt á þær, hvort heldur er á strippstað eða á netinu. Ég tala illa um nauðgara og allra handa ofbeldismenn, líka þá sem meiða og drepa dýr. Ég tala illa um þá sem hata feminista. Og ég tala illa um þá sem verja nauðgara, hvort sem það er í réttarsal eða á netinu.

En það fólk sem hefur fylgst með, hefur eflaust líka tekið eftir að ég hef stundum hampað karlmönnum; nafngreint þá, sett tengil á það sem þeir hafa skrifað eða látið velþóknun mína í ljós með einhverjum hætti. Þeir þurfa reyndar að hafa unnið sér það inn; þeir sem hampa feminisma eru líklegri en aðrir að fá einhverskonar viðurkenningu frá mér (djöfull held ég að þeir séu glaðir með það).

Í dag fær Arngrímur Vídalín lof í lófa fyrir glæsilega framgöngu í mannréttindabaráttunni sem gengur undir nafninu feminismi.

Efnisorð: ,