þriðjudagur, september 27, 2011

Feminismi er misheppnaður í meðförum kvenna

Það fer að verða ansi þreytt að sjá menn sem eru sæmilega ritfærir (mér er meira sama um ólæsa og óskrifandi froðufellandi fávita í athugasemdakerfum) sem eyða miklu púðri í að segja feministum á hve miklum villigötum þær eru, sem halda því fram þeir séu í raun hlynntir feminisma, bara ekki í meðförum kvenna.

Einn pistillinn (sem er of langur og ítarlegur til að ég nenni að skrifa svar við einstökum atriðum hans) er á þá leið að feministar séu innbyrðis ósammála (um klámiðnaðinn) en hengi sig í marxismann án þess að fatta að hann eigi ekkert sameiginlegt með feminisma. Pistlahöfundurinn virðist líka halda að við séum allar á sellufundum hjá Femínístafélaginu alla daga og opnum ekki munninn án þess að fá fyrst flokkslínuna. Og hann hneykslast á því sem honum finnst vera ósamræmi í að vera á móti staðgöngu en með fóstureyðingum og móti vændi en með kynfrelsi kvenna. Vændi sé ekkert verra en að vinna á elliheimili. Fyrst og fremst eru feministar bara almennt og yfirleitt á villigötum, segir þessi karlmaður, sem veit auðvitað betur.

Á annarri síðu safnast karlmenn (mikið til þeir sömu og ég er að tala um hér að ofan) í athugasemdarkerfi* til að vera enn einu sinni sammála um hve vændi sé jákvætt og allsekki allar konur í því af neinni neyð, félagslegri, fjárhagslegri eða vegna þess að þær eru þvingaðar til þess. Á þeirri síðu, sem haldið er úti af konu sem er feministi sem er hlynnt klámiðnaðinum (og er þessvegna í sérlegu uppáhaldi þessara karla sem endalaust hrósa henni fyrir þá afstöðu, kampakátir) og þar eru einhverjar rannsóknir tilteknar sem eiga að sanna að vændi sé bara alltílæ, langflestar konur vilji ekkert frekar en hleypa uppá sig hverjum kallinum á fætur öðrum gegn greiðslu, bara gaman að því. Þar er því bæði hafnað að tölfræði sem feministar setja fram um annað og að „persónuleg reynsla og einstaka dæmi“ hafi vægi í rökræðunni.

Svo það sé á hreinu: Ég hef ekkert á móti því að vændiskonur hafi réttindi. Ég vil bara svo miklu frekar að þær hefðu þess kost að sjá sér farborða á annan hátt; að konur hafi aðgang að sæmilega borgaðri vinnu sem felst ekki í því að karlmenn rúnki sér á líkama þeirra.** Þessvegna styð ég að konum (og körlum) sé leyfilegt að selja sig, en hemill hafður á eftirspurninni með því að banna karlmönnum að kaupa sér aðgang að líkama þeirra. Ég vil ekki búa í samfélagi — og reyndar vil ég ekki búa í þannig heimi — þar sem konur eru neysluvara karlmanna.

Einu sinni birti ég pistil þar sem klámneytendur og vændiskaupendur — þessir sem þykjast þekkja muninn á því að kona sé að selja uppá sig eða myndir af sér á netinu af sjálfsdáðum eða sé þvinguð til þess — voru spurðir hversu margar konur og börn þeim þætti í lagi að þjáðust fyrir þá. Spurningin var þessi:

„Hvað finnst þér annars ásættanlegur fórnarkostnaður? Hefurðu rétt á að horfa á klám ef það er bara ein lítil stelpa sem er seld í klámið? En ef þær eru fimm? Hundrað? Svona, komdu með tölu. Hver er sú tala kvenna og barna sem þarf að nauðga, drepa og berja til að þér finnist að kannski sé réttur þinn til að horfa á klám ekki þess virði? Hundruðir? Þúsundir? Tugþúsundir?“

En þessir gaurar, sem skrifa heilu langlokurnar dag eftir dag, þeir bara geta ekki þolað að við viljum ekki að þeir kaupi sér konur til að ríða eða rúnka sér yfir. Og þessvegna skella þeir yfir sig sauðagærunni, þykjast styðja feminisma en berjast gegn honum linnulaust.
___
* Meðal annarra sem veita þessari vændisupphafningu mótvægi í athugasemdakerfinu eru Baun, Þorgerður E og Parísar-Kristín, sem stendur sig sérstaklega vel. (Ákveðið var á sellufundi að ég myndi hrósa þeim, í staðinn þarf ég ekki að vaska upp næst.)

** Ég er líka á móti því að fólk vinni við hörmulegar aðstæður, ýmist 'sjálfviljugt' eða í þrælavinnu, s.s. í þrælkunarbúðum í Asíu, það er líklega marxisminn sem afvegaleiðir mig svo illa. Það eru reyndar bara frjálshyggjumenn sem vilja halda því fram að fólk megi vera þakklátt fyrir að vinna á svoleiðis stöðum, öll vinna sé góð sama við hvaða aðstæður og hve lítið fólk ber úr býtum. Sumt fólk sér samsvörun þarna á milli og þess að margar austur-evrópskar konur eru 'sjálfviljugar' í klámiðnaðnum, annað fólk sér bara 'sjálfviljuga' þáttinn.

Efnisorð: , , , , ,