sunnudagur, september 25, 2011

Garðar og gróður

Nú er tími haustlaukanna.

Þessi frasi er nánast í hverju blaði þessa dagana. Vegna þess að ég er nú gríðarleg haustlaukakona þá les ég allt sem að gagni getur komið um þessa litlu lauka sem eiga að boða okkur vorið þegar þar að kemur. Og les ég nú og les og rek þá augun í þessa setningu (bls.42): „Mýs eru gjarnar á að grafa upp og éta frá okkur laukana …“ og litlu síðar, þá er verið að tala um fræ og hvernig hægt að er búa um þau yfir veturinn: „Þarna þarf líka að verjast músum á einhvern hátt því þeim þykir fræið gott á köldum vetrum.“

Við, sem búum í þéttbýli (en erum ekki svo blinduð af sveitamennsku að okkur þyki ekki í lagi að hafa dýr í borg) verðum ekki vör við allar þessar mýs sem éta fræ og lauka. Ástæðan er sú að yfir girðingar og um alla garða læðast og stökkva hin ágætustu loðdýr sem mýs (og rottur) forðast eins og heitan eldinn. Af þessum sökum er margt skynsamt fólk afskaplega sátt við lausagöngu katta.

Og sé okkur á annaðborð annt um að garðarnir séu gróðursælir, erum við síst á móti kattaskít í beðin, því hann eru ókeypis áburður.

Efnisorð: