mánudagur, október 03, 2011

Helle Thorning bætist í fríðan hóp

Helle Thorning-Schmidt er orðin forsætisráðherra Danmerkur, fyrst kvenna. Þar með hafa öll Norðurlöndin — að Svíþjóð undanskildu — haft konu sem æðsta mann ríkisstjórnar sinnar.*

Þar til í sumar var Mari Kiviniemi forsætisráðherra Finnlands** og voru þær þá tvær um slíka stöðu, hún og Jóhanna Sigurðar. Nú eru það Helle Thorning og Jóhanna sem eru forsætisráðherrar, en hin Norðurlöndin hafa kalla í því starfi. Þó hefur Noregur haft Gro Harlem Brundtland, sællar minningar, en hún var forsætis árin 1986-89 og aftur 1990-96. Sú fyrsta finnska var Anneli Jäätteenmäki sem þó starfaði stutt, aðeins nokkra mánuði árið 2003.

Burtséð frá þessu yfirliti um stöðu mála þá er gleðiefni að Helle Thorning sé orðin forsætisráðherra Danmerkur. Húrra!***
___
* eða framkvæmdavalds eins og í tilviki Færeyja sem hafa lögmann en ekki forsætisráðherra. Marita Petersen var lögmaður Færeyja 1993-94. Engin kona hefur verið formaður landstjórnar Grænlands. Þarsem Svíþjóð er ríkt sjálfstætt ríki í fararbroddi jafnréttisbaráttu í heiminum (en Grænland ekki) þá er óþarft að skamma Grænland fyrir að kjósa ekki konur, a.m.k. í bili.

** Finnar hafa þó núna konu í forsetastól, Tarja Halonen hefur verið í embætti frá aldamótum. Hin Norðurlöndin hafa auðvitað ekki möguleika á að vera með forseta. En við höfðum Vigdísi.

*** Skylt er að hrópa húrra með dönskum hreim.

Efnisorð: ,