fimmtudagur, október 06, 2011

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft

Fyrir nokkrum árum kom ég inn á heimili ungra hjóna. Þau voru reyndar ekkert bráðung, eitthvað um þrítugt, en þau voru tiltölulega nýgift og enn barnlaus, bæði háskólamenntuð í góðum störfum. Ég svipaðist um, svona eins og mér er tamt að gera þegar ég kem á nýjan stað, og virti fyrir mér húsmuni og annað það sem prýddi heimilið. Allgott.

Það vakti þó furðu mína að svo virtist sem engar bækur væri á heimilinu. Mér var sýnt inn í öll herbergi en hvergi sá ég bækur. Loks rak ég augun í bók eftir Laxness (man ekki hverja) sem lá flöt í hillu, enn í plastinu. Ég spurði um bókina og fékk að vita að þetta hefðu þau fengið í brúðkaupsgjöf. Mig langaði að grenja.

Síðan þetta gerðist hafa ungu hjónin flutt í einbýlishús og eignast son.

Ef nú einhverntímann í framtíðinni þessi sonur þeirra verður viðfang rannsóknar á lesskilningi, og kemur illa út, hverju er þá um að kenna?

Einhverjir munu segja að það sé vegna þess að það séu of margar konur að kenna börnum og skortur sé á karlkynsfyrirmyndum, eða eitthvað svoleiðis.

Ég held að einhver hluti ástæðunnar fyrir því að nærri fjórðungur 15 ára drengja í reykvískum grunnskólum getur ekki lesið sér til gagns, sé sá að fjölmargir krakkar alast upp á heimilum þar sem fullorðnir lesa ekki bækur. Það er kannski lesið fyrir börnin á kvöldin (þó veit ég að það er ekki gert á öllum heimilum) en þau sjá aldrei foreldra sína lesa í frístundum sínum, sér til fróðleiks eða skemmtunar. Bóklestur er ekki hafður fyrir börnunum.

En svo er líka alltaf traust að kenna konum í skólakerfinu um.

Efnisorð: