fimmtudagur, október 13, 2011

Fréttamatið og heimurinn eins og hann er

Hildur Lilliendahl hefur aftur þrælað sér gegnum Fréttablaðið og aftur komist að því að konur fá þar mun minna vægi en karlar. „Í 85 tilvikum í blaðinu í dag var minnst á karla og í 33 tilvikum var minnst á konur“ er niðurstaða Hildar að þessu sinni.

Ekkert hefur breyst. Það er kannski pínu sorglegt en staðfestir svosem um leið allt sem vér feministar hugsum (við hugsum sem ein kona) um fjölmiðla og hvernig þeir kjósa að birta samfélagið. Konur útí horni, en ágætar sem myndskreytingar.

Í athugasemdakerfinu hjá Hildi kemur auðvitað einhver sem vill verja ríkjandi ástand og kemur með gömlu þreyttu fullyrðinguna um að svona sé þetta bara (konur séu færri en karlar? konur séu ekki að gera neitt fréttnæmt? konur séu óviðræðuhæfar?) og ekki hægt að ætlast til að fjölmiðlar beygli raunveruleikann til að þóknast hugmyndum feminista um jafnréttari heim.

Þessu svarar Hildur Knútsdóttir ágætlega:
„Einu skiptin sem ég sé nokkurntímann einhvern gera að því skóna að fjölmiðlar endurspegli bara heiminn einsog hann nákvæmlega er, er þegar einhver gagnrýnir kynjahlutföll í þeim.“

Gunnar Hersveinn er nýlega búinn að skrifa ádrepu þar sem hann bendir á fréttamat fjölmiðla. Og nafngreinir konur sem ekki hafa hlotið fjölmiðlaumfjöllun hér á landi, enda þótt vægast sagt sé um stórmerkilegar konur að ræða.

„Um leið og við fögnum friðarverðlaunahöfum árið 2011 er nauðsynlegt að gera þá smásmugulegu athugasemd: aðTawakkul Karman, Leymah Gbowee og Ellen-Johnson-Sirleaf hafa á þessu ári varla verið nefndar oftar en einu sinni á nafn í „helstu“ fjölmiðlum Íslendinga.

Tawakkul Karman sem nefnd hefur verið móðir byltingarinnar í Jemen komst næstum aldrei í gegnum glerþak íslenskra fjölmiðla. Ekki fyrr en hún fékk friðarverðlaun Nóbels. Ef til vill verður hún aldrei nefnd aftur, því viðleitni hennar fellur víst utan fréttviðmiða á Íslandi. Við munum hins vegar fá framhaldsfréttir af einræðisherra sem til dæmis fer í lest frá Norður-Kóreu til Japans án þess að segja neitt.

Í Jemen eru konur lítt sýnilegar né oft hlustað á rödd þeirra og af þeirri hefð draga íslenskir fjölmiðlar dám. Afrek og hugrekki Karman er þó þúsund sinnum merkilegra en tilraunir hugleysingja til að vekja á sér athygli með ofbeldi.

Eitt af því sem nauðsynlega þarf að breytast er áhugasvið karllægra fréttastjóra. Einsýnt fréttamat þeirra snýst um stríð, stjórnmál, glæpi, viðskipti, valdabaráttu, gjaldþrot, hryðjuverk, réttarkerfi, stórslys, samgöngur, orkumál, eignarrétt, skattkerfi, ársreikninga, persónulega harmleiki og náttúruhamfarir … en Tawakkul Karman sem beitir gandhiískum aðferðum til að bylta samfélaginu er hvergi nefnd á nafn jafnvel þótt hún sé um það bil að breyta samfélagi sínu varanlega.“


Þetta er bara útdráttur úr grein Gunnars, hann fjallar líka um hinar líberísku Ellen Johnson Sirleaf sem er fyrsta afríska konan sem kosin var forseti í lýðræðislegum kosningum og Leymah Gbowee sem hefur skipulagt hreyfingu kvenna, þvert á uppruna þeirra og trúarbrögð.

Þessar konur hafa nú hlotið viðurkenningu á alþjóðavettvangi fyrir baráttu sína. Margar aðrar konur starfa í þágu mikilvægra málefna í heimalandi sínu og njóta lítillar athygli íslenskra fjölmiðla, sem eru þó uppfullir af fréttum um hvað fólk í útlöndum er að gera, sérstaklega karlmenn auðvitað. Hingað til lands komu nýlega konur og töluðu á málþingi um framlag sitt til bættrar líðanar kvenna í Bosníu og Hersegóvínu, kvenna sem höfðu gengið gegnum skelfilega hluti. Ég sá ekki opnur dagblaðanna lagðar undir viðtöl við þær, ekki frekar en ég hef séð ítarlegar fréttaskýringar eða umfjöllun um friðarverðlaunahafana hverja um sig. Hvað þá að ég hafi heyrt á þær minnst þar til þær fengu friðarverðlaunin.

En nei, það væri íslenskum fjölmiðlum ofraun að eyða prentsvertu í svona konur. Svo margt merkilegra að gerast hjá karlmönnum.

___
* Þegar Tawakkul Karman, Leymah Gbowee og Ellen-Johnson-Sirleaf fengu friðarverðlaun Nóbels hækkaði tala kvenna sem fengið hafa verðlaunin úr tólf í fimmtán. Hver er ástæðan fyrir því að þær fá allar verðlaunin í einu? Er verið að laga hlutföllin, núna eru þau komin í að 15 konur af 99 einstaklingum hafa hlotið friðarverðlaunin. Og er þá nóbelsnefndin stikkfrí næstu árin frá því að veita konum verðlaunin því talan hækkaði svo skart í ár?

Viðbót. Spegillinn, fréttaskýringaþáttur Ríkisútvarpsins, fjallaði nokkuð ítarlega um friðarverðlaunahafana í þætti 7. október. Spegillinn er reyndar ekki prentmiðill, en það eru fyrst og fremst prentmiðlar, og þá sérstaklega Fréttablaðið, sem er gagnrýnt hér að ofan. (Ekki svosem að ég haldi að kynjunum sé gert jafnt undir höfði í ljósvakamiðlum.)

Efnisorð: , ,