þriðjudagur, nóvember 15, 2011

Karlmennskan og grínið

Dómur er fallinn yfir skipsáhöfn vegna áreitni sem 13 ára dreng var sýnd um borð. Vægur dómur en þó líklega tímamótadómur.

Drengurinn fékk að fara einn túr á skipi þar sem pabbi hans er í áhöfninni. Meðan á túrnum stendur varð hann fyrir linnulausu áreiti. Hann óttaðist að sér yrði nauðgað og um líf sitt.

Í yfirheyrslum og fyrir dómi ítreka kallskúnkarnir sem ofsóttu hann — og þeir höfðu auðvitað Brynjar Níelsson sér til varnar — að þeir hafi ekki haft neitt kynferðislegt í huga.
„alls ekki verið í kynferðislegum tilgangi“
„það hafi ekki verið neitt kynferðislegt“
„þetta hafi ekki verið gert af kynferðislegum áhuga heldur hafi verið um að ræða grín“

Hér er áhugavert að sjá mismunin á því sem karlarnir taka sig saman um að gera og hvernig áhrif það hefur á aðra (hér hef ég í huga ekki bara drenginn í þessu tilviki heldur börn og konur almennt). Körlum virðist þykja sem það sé ekkert kynferðislegt við hegðun svo framarlega sem þeir fái ekki sjálfir kynferðislegt kikk útúr henni,* en engin meðvitund virðist vera fyrir því hvernig sé að verða fyrir þessari hegðun þeirra.**

Þar sem karlarnir um borð ætluðu nú líklega ekki að nauðga barninu þá finnst þeim í lagi að „grínast“ með að þeir ætli að nauðga drengnum. Þar sem þeir telja sig líklega ekki hafa kynferðislegan áhuga á karlmönnum þá þykir þeim í lagi að „hjakkast“ svolítið á drengnum, það sé bara „grín“. Þar sem í rauninni hafi ekki staðið til að fleygja honum fyrir borð þá sé í lagi að þykjast ætla að kasta honum í sjóinn. Aftur: engin meðvitund fyrir því hvernig sé að vera ofurliði borinn, bjargarlaus, ofsóttur, hæddur og einn.

Þetta eru auðvitað djöfuls aumingjar.***

En það sem er áhugavert að vita, er hvort einhverjir aðrir karlmenn þarna úti, ekki bara úti á sjó, heldur í íslensku samfélagi, muni endurskoða hegðun sína gagnvart drengjum, börnum almennt eða jafnvel konum. Íhugi kannski augnablik frásögn drengsins og hvernig það væri að hafa verið í hans sporum. Eða hvort þeir skelli skollaeyrum við þessu eins og öllu öðru og haldi áfram sínum mikla húmor, sínu skemmtilega gríni. Hvort þeim finnist karlamenningin vera í svo mikilli útrýmingarhættu að þeir verði umfram allt að gerast merkisberar hennar gagnvart öllu og öllum, ekki síst þeim sem geta ekki borðið hönd fyrir höfuð sér.

Drengurinn fær afturámóti hrós dagsins fyrir að kæra þessa aumingja.

____
* Samanber að þeim finnst ekkert vera nauðgun nema kona æpi nei og þurfi að halda henni fastri, eða að þeir fái ekki sáðlát og þá hafi ekki verið um nauðgun að ræða því þeir fengu ekkert útúr þessu.

** „Í 199. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 61/2007, er almennt ákvæði um kynferðislega áreitni. Þar segir að í henni felist m.a. að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur táknræn hegðun eða orðbragð sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta. Athafnir þessar eru nefndar í dæmaskyni og er því ekki tæmandi talin sú hegðun sem telst refsiverð samkvæmt ákvæðinu. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 61/2007 kemur fram að almennt sé við það miðað að snerting sem falli undir kynferðislega áreitni veiti geranda ekki kynferðislega fullnægingu. Kynferðisleg áreitni sé háttsemi kynferðislegs eðlis, sem hvorki teljist samræði né önnur kynferðismök. Hún felist í hvers konar snertingu á líkama annarrar manneskju sem sé andstæð góðum siðum og samskiptaháttum. Í frumvarpinu væri hins vegar gert ráð fyrir því að neðri mörk hugtaksins kynferðisleg áreitni yrðu rýmkuð. Þannig yrði hugtakið ekki afmarkað við líkamlega snertingu heldur gæti einnig fallið undir það orðbragð og táknræn hegðun sem væri mjög meiðandi, ítrekuð eða til þess fallin að valda ótta. Væri þá miðað við stöðugt áreiti sem nálgist einelti.“

***Fyrir utan nú djöfuls aumingjaganginn í föður drengsins sem með því ýmist að hlæja með eða gera ekkert honum til bjargar og sem hinir skipverjarnir vísuðu óspart til að hefði samþykkt þessa hegðun. Sá fær nú aldeilis verðlaun sem faðir ársins.
„Að mati dómsins var háttsemi ákærðu X og Æ andstæð góðum siðum og samskiptaháttum. Jafnframt var hún kynferðislegs eðlis og brotaþoli upplifði háttsemi þeirra sem slíka, en hann kallaði ákærða X barnaníðing hjá sálfræðingi sínum. Þá gerir það ekki hegðun ákærðu refsilausa að segja að þeir hafi gert þetta í gríni eða að faðir brotaþola hafi látið hegðun þeirra gagnvart drengnum óátalda.“

Efnisorð: , ,