þriðjudagur, desember 13, 2011

Tölfræðilegar staðreyndir um klám og vændi

Allt fólk hér á landi, rétt eins og annarstaðar á Vesturlöndum, sem komið er yfir tvítugt veit að reykingar (og öll önnur tóbaksnotkun) er skaðleg. Það þarf ekki að draga fram tölfræðilegar staðreyndir, hvað þá vitna í frumheimildir um rannsóknir til þess að staðfesta það í hvert sinn sem reykingar ber á góma.

En sé rætt um vændi eða klám, þá dugir nú ekki að tala um skaðsemi og láta eins og allir viti hvað við er átt. Þá er heimtað að sýnt sé fram á rannsóknarniðurstöður, en samt ekki þessar sko heldur aðrar, og gjörasvovel og framvísa frumheimildum. Með þessu er auðvitað verið að draga skaðsemina í efa, rétt eins og tóbaksframleiðendur gerðu árum og áratugum saman, löngu eftir að allir vissu hverjar afleiðingar reykingar eru. Þeir drógu allar rannsóknir í efa og reyndu allt hvað af tók að sýna fram á að reykingar væru skaðlausar og hafa barist gegn öllum sem hafa sýnt fram á annað.* Markmið tóbaksfyrirtækjanna er að koma í veg fyrir að almenningur hætti að reykja. Klámiðnaðurinn er líka risastór iðnaður sem hefur mikilla hagsmuna að gæta, og hann styður við 'rannsóknir' (þó það komi ekki endilega fram) sem sýna eiga fram á að klám sé jákvætt fyrir alla aðila.

Þeir sem verja aðgang karla að klámi og vændiskonum eru ýmist vændiskúnnar, þeir sem vilja vita af möguleikanum á að geta keypt sér aðgang að vændiskonu í framtíðinni, klámnotendur eða frjálshyggjumenn**, oft allt framangreint. Svo eru það auðvitað þeir sem trúa öllu því sem framantaldir segja og eru nytsömu sakleysingjarnir í umræðunni, oft eru það unglingar sem finnst klámið spennandi og skilja ekki fyrir sitt litla líf afhverju einhverjum er illa við það. Margir þessara finna svo einhverja tölfræði *** (byggða á rannsóknum sem jafnvel eru kostaðar af klámiðnaðnum) sem þeir geta vitnað í, þar sem sýnt er fram á að fólk í vændi og klámi sé elskusátt við sig og sitt starf.Allir þessir aðilar gagnast klámiðnaðinum, þessum múltímilljarðabransa sem svífst einskis. Markmiðið er gróði en ekki hamingja, hvorki hamingja þeirra sem starfa í iðnaðinum (í vændishúsum, á götum úti, í kvikmyndum eða þ.h.) né þeirra sem kaupa sér aðgang að honum.

En flott hjá ykkur samt að verja þetta. Og heimta svo að við hin, sem trúum ekki enn tóbaksiðnaðinum þegar hann segir að reykingar séu smart og næstum bara alveg skaðlausar, trúum því eitthvað frekar að klámiðiðnaðurinn, sem augljóslega er skaðlegur jafnt einstaklingum og samfélagi, sé að gera okkur einhvern greiða. Ræðið svo tölfræði, endilega.

___
* Það hefur nú ekki lítið verið talað um 'frelsi' reykingamanna til að reykja ofan í aðra og eyðileggingar eigin heilsu.

** Frjálshyggjumenn líta á það sem 'frelsi' að allt sé falt fyrir peninga og engar hömlur megi setja á hegðun fólks eða flæði fjármagns eða hvernig fólk er hvatt til að hegða sér til þess að aðrir geti grætt á því, allt í nafni frelsis auðvitað. Frjálshyggjumenn hafa þó meiri áhuga á peningalegum gróða en mannréttindum og enn minni áhuga á skaðlegum áhrifum á samfélag, enda er samfélag ekki til fyrir þeim heldur bara bunki af einstaklingum sem ráfa um og reyna að græða á öðrum.

*** Án þess að ég hafi nokkurn áhuga á tölfræði þá get ég alveg unnt fólki þess að hafa gaman af henni en mér (eða öðrum feministum) ber engin skylda til að eltast við hverja þá rannsókn sem sýnir frávik frá rannsókn sem var gerð til að afsanna rannsókn um eitthvað sem afsannar eða sannar eitthvað.

Efnisorð: , , , ,