föstudagur, nóvember 25, 2011

Alþjóðlegur dagur gegn kynferðisofbeldi

Stígamót veittu viðurkenningu ársins í tilfefni af alþjóðlegum degi gegn kynferðisofbeldi. Berit Aas, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, María Lilja Þrastardóttir, Margrét Pétursdóttir, Sóley Tómasdóttir og Stóra systir fengu viðurkenningu Stígamóta í ár (hér má sjá rökstuðninginn). Viðurkenningin féll í skaut „þeim hugrökku konum sem á ólíka vegu hafa fylgt réttlætiskennd sinni og rutt brautina fyrir raunverulegt kvenfrelsi“.

Ég hef reyndar ætlað að hrósa nýliðanum í hópnum, Maríu Lilju, fyrir snarpa innkomu og einbeittan baráttuvilja. Henni hefur verið tekið með óbótaskömmum af þeim sem hatast út í feminisma, það sýnir að hún er á réttri braut, eins og hinar.

Ég ákvað líka að leggja mitt af mörkum á þessum alþjóðlega degi gegn kynferðisofbeldi: ég nauðgaði ekki nokkurri manneskju, lokaði ekki inni, barði ekki, sagði ekki ljóta hluti við eða um, níddist ekki á kynferðislega á eða leit á sem kynferðislegan hlut, niðurlægði ekki, hótaði ekki, mismunaði ekki lagalega eða launalega; lét í stuttu máli sagt enga manneskju þola kúgun vegna kyns síns, né hvatti ég til hennar eða afsakaði á nokkurn hátt.

Hvað gerðir þú?

Efnisorð: