sunnudagur, desember 11, 2011

Sumt á betur við en annað

Ég verð að viðurkenna að ég botna eiginlega ekki upp né niður í ýmsum uppnefnum sem ég hef heyrt feminista kallaða.

Hobbýfemínistar
Forréttindafemínistar
Fasystur
Femínasistar
Nærbuxnafemínistar

Ég játa að mig skortir skilning á þessu með hobbýfeministana (ég hætti að safna frímerkjum og fór að safna feministum? ég hætti að spila handbolta og fór að spila feminisma?) og líka þessu með forréttindafeminista. Við hér á Íslandi — karlar jafnt sem konur — erum sannarlega forréttindafólk miðað við stóran hluta jarðarbúa og nægir að nefna aðgang að hreinu vatni, svo ég fari ekki að tala um menntun og heilbrigðisþjónustu, en hvernig feministar njóta þessarra eða annarra forréttinda umfram aðra Íslendinga skil ég ekki.

Fasystur og femínasistar, jú ég skil orðin en átta mig ekki á hvernig hægt er að klína fasisma og nasisma uppá feminista. Ég veit ekki betur en feministar hafi t.a.m. stutt réttindabaráttu allra þeirra sem fasistum er í nöp við (s.s. samkynhneigðir, fatlaðir), og ekki bera feministar ábyrgð á neinu þvílíku sem voðaverkum nasista.

Hinsvegar er ég elskusátt við síðasta orðið: nærbuxnafemínistar. Eins og kuldinn hefur verið undanfarið þykir mér eiginlega óhugsandi annað en allar konur hafi verið nærbuxnafeministar og sannarlega er ég ein af þeim: hef meira segja verið í ullarbrók.

Efnisorð: