sunnudagur, desember 18, 2011

Enga mjúka pakka

Nú er slétt vika þar til jólapakkarnir verða opnaðir. Mikil tilhlökkun er hjá flestum, sérstaklega börnunum, en þó kvíða sumir þessari stund enda alltaf vandræðalegt að fá pakka sem ekki hittir í mark og jafnvel enn verra að vera gefandinn í slíkum tilvikum. Ég hef séð ýmsar útgáfur af vonbrigðum og gleði við þessar aðstæður. Ég hef þó aldrei orðið vitni að því að einhver fái lifandi dýr í jólagjöf.* Þó er til fólk sem lætur sér detta í hug að það sé viðeigandi gjöf, jafnvel sem óvænt gjöf til kærustunnar, sem kannski hefur ekki einu sinni áhuga eða aðstæður til að vera með dýr á heimili sínu enda þótt hún hafi einhverntímann sagt að kettlingar séu krútt eða hvolpar séu fallegir. Í mörgum tilvikum eru það þó börn sem fá kettling, hvolp, kanínu, naggrís, hamstur eða hvaða annað loðdýr sem þau hafa óskað sér eða hinir fullorðnu halda að þau hafi gaman af.

Nú er kannski ekkert við því að segja svo framarlega sem barnið (eða kærastan) í rauninni vill fá svona dýr og uppeldisaðilarnir líka, enginn er með ofnæmi og hinir fullorðnu gera sér grein fyrir hvað það þýðir að halda dýr inni á heimilinu. En eins og Anna Kristine Magnúsdóttir formaður Kattavinafélagsins bendir á í pistli í Fréttatímanum þá er það að eignast kött langtímaskuldbinding, allt til tuttugu ára. Hún bendir líka á allskyns misskilning fólks um ketti. Kettlinga (og þetta á eflaust við um hvolpa líka) á ekki að taka frá móður sinni of unga, átta vikna kríli er allsekki tilbúið að takast á við lífið upp á eigin spýtur. Og hún bendir á að kettir strjúka séu þeir sendir á önnur heimili í pössun og eru því betur settir á kattahóteli (eða að einhver flytji inn til þeirra og sinni þeim) í fjarveru eigenda sinna. Það er ekki í lagi að skilja þá eftir eina eftir í ljóslausum íbúðum. Og margs annars ber að gæta að þegar lifandi dýr er tekið inn á heimilið.

En fyrst og fremst bendir formaður Kattavinafélagsins á að kettlingur er ekki besta jólagjöfin. Allt of oft losar fólk sig við þá þegar þeir hætta að vera litlu sætu fjörboltarnir og þá væri nú betra að hafa sleppt því að gera kisu litlu þann óleik að láta hana lenda á heimili þar sem hún var ekki velkomin.

Gefum bók í jólagjöf. Það er auðvelt að leggja hana frá sér að loknum lestri og hugsa aldrei um hana meir ef hún höfðar ekki til manns. Lítið dýr ætti enginn að eignast eða losa sig við með svo auðveldum hætti.

___
* Fyrir nokkrum árum skrifaði ég pistil sem heitir „Lifandi dýr eru ekki jólagjafir“. Þar vísa ég til auglýsingaherferðar sem gekk í Bretlandi eða Bandaríkjunum þar sem reynt var að vekja fólk til vitundar um að lifandi dýr séu ekki til gjafa. Það virðist því vera algengt að fólk gefi dýr og hugsi ekki út í afleiðingarnar.

Efnisorð: