sunnudagur, desember 25, 2011

Fjarstöddu afmælisbörnin

Sólin er 4,5 milljarða ára og sólarguðirnir ýmsu, sem eru misgamlir, eiga öll afmæli í dag, svo og Jesú.* Hvorki sólin né þeir eru þó mætt í eigin afmælisveislu. Nóg er þó tilstandið.

Talað er um endurfæðingu sólarinnar um þetta leyti árs, sem er reyndar á sólstöðum nokkrum dögum fyrr, en það hefur nú svosem líka verið hringlað með fæðingardag Jesú, þannig að það breytir litlu. Hver heldur svo uppá þann afmælisdag sem hentar heimsmynd viðkomandi: þar myndi ég nú frekar vilja vera sólarmegin.

Það voru hinsvegar ekki mjög sólskinsbjört skilaboð sem lesa mátti um í Fréttablaðinu þar sem ritstjórinn og fyrrverandi ritstjóri, sem einnig gegndi eitt sitt stöðu dóms-og kirkjumálaráðherra, lögðust á eitt um að telja lesendum trú um að fólk sem leggi sig fram um að „lækka ris þjóðarinnar í andlegum efnum“ hafi takmarkað „kærleikshugsjón kristinna manna í skólum höfuðborgarbúa“. Ritstjórinn núverandi taldi þó kirkjuna geta fundið leið að hjörtum barna með því að bjóða þeim utan skólatíma** (í stað þess að börn foreldra sem ekki aðhyllast kristna trú séu dregin inní trúarathafnir kristinna: eða skilin eftir ella), en gerir það með einhverskonar herhvöt: Vörn í sókn.

Ritstjórinn fyrrverandi hefur að auki miklar áhyggjur af að kirkjan verði ekki lengur þjóðkirkja og notaði gamalkunna takta, sem núverandi biskup beitir ítrekað, að tala um kærleika og aðrar siðareglur eins og það detti uppfyrir ef böndin milli kirkju og hins opinbera verða slitin (hann tekur reyndar fram að kristnir eigi ekki einkarétt á þeim en talar samt eins og kærleikurinn hverfi ef sérþörfum þjóðkirkjunnar sé ekki sinnt).
Þá tekst honum með einhverjum hætti að tengja allt þetta við hin kapítalísku jól þar sem allt gengur út á að eyða og spenna, sem er hinn gamalkunni söngur um að milli sóknar í efnisleg gæði og trúleysis sé samasemmerki.

Ég get ekki annað en tekið undir með Kjartani Valgarðssyni*** sem bendir á að með þessum pistli hafi ritstjórinn fyrrverandi gert sitt til að „spilla félagslífi manna og samlyndi“. Kannski hefði einhverju af fjarstöddu afmælisbörnunum tekist að stilla til friðar. Ég veðja á sólina, hún er sterkust.

___
* Sólarguðirnir eru t.d. hinir forngrísku Helios og Apolló, hinn fornegypski Hórus og hinn persneski Míþras, sem allir eiga afmæli sama dag og Jesú.
** Fréttir hafa borist af því að foreldrarnir sæki messu með börnum sínum, sem hlýtur þá að vera gott mál fyrir kirkjuna.
*** Kjartan spyr í pistlinum
„hvað sé „kærleikshugsjón“ og „siðaboðskapur“ kristinna manna, ef út í það er farið. Vissulega gegna þessi hugtök stóru hlutverki í hugmyndaheimi kristninnar, samanber tvöfalda kærleiksboðorðið „elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig“ og boðorðin um þjófnað, lygi, framhjáhald, morð, ást til foreldra, náunga og guðs, og Gullnu regluna: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.““
Fyrir þau sem hafa áhuga á að lesa um hversu einstök Gullna reglan er — eða öllu heldur hve mörg trúarbrögð innihalda hana á mismunandi orðaðan hátt — má benda á ágæta samantekt hér.

Efnisorð: