föstudagur, janúar 06, 2012

Hlægilegt að skipta sér af

Það eina sem breytist við áramót er dagsetningin. Það sem var svekkjandi árið 2011 stefnir í að vera jafn svekkjandi árið 2012. Icesave er enn á dagskrá, forsetinn ætlar í athyglissýki sinni að halda sér í umræðunni og umræðan sjálf virðist ekkert ætla að breytast þrátt fyrir áskoranir þar um.

Ég álpaðist til að lesa blogg sem ég hafði aldrei áður séð þar fjallað var um dýravernd. Þar var fólk, sem flestallt kallar sig dýravini, að rakka niður dýravini fyrir að gagnrýna konu nokkra fyrir að beita kött ofbeldi. Hún hafði semsé sagt frá því að hún hefði sparkað aðkomuketti út fyrir að míga í skó. Tekið var fram að hann hefði verið vælandi undan sparkinu. Þegar einhverjir dýravinir gerðu athugasemdir við frásögn hennar og bentu henni á að það væri aldrei forsvaranlegt að beita dýr ofbeldi þá virðist hún ekki hafa útskýrt mál sitt heldur eytt færslunni. Vinir hennar fóru svo í einhverskonar stríð við það fólk sem gagnrýndi hana. Bloggið sem ég las, og rakti þessa sögu, gekk út á að hneykslast á þeim sem hefðu vogað sér að gera athugasemdir við frásögn konunnar enda hafi öllum sem til hennar þekktu verið ljóst að hún var að grínast og myndi aldrei vera vond við dýr.

Fólk hefur lent í ótrúlegustu vandræðum vegna þess sem það skrifar á netið. Enda tekur það þá áhættu að það verði misskilið. Saklausasta grín sem allir kunningjarnir bera kennsl á getur í augum ókunnra virkað sem hræðilegur hrottaskapur eða glæpsamleg fyrirætlan. Um daginn las ég á bloggi konu nokkurrar að hún væri að hugsa um að selja dóttur sína sem er um 3ja ára. Þar sem ég hef lesið bloggið lengi og veit að hún skrifar alltaf í hálfkæringi um heimilislífið og börnin þá brosti ég út í annað í stað þess að fá fyrir hjartað af áhyggjum. En jafnframt hugsaði ég með mér að það væri einsgott að enginn ókunnugur rækist á þessa bloggfærslu og kærði konuna fyrir að ætla að selja barnið. Ef einhver hefði nú skrifað í athugasemdakerfið (án þess að rjúka strax til og hringja á lögregluna) að þetta væri svakaleg yfirlýsing og hvort konan væri orðin brjáluð, þá held ég ekki að það hefði verið henni til neinna málsbóta að rífa kjaft og saka viðkomandi um að vera ólæsan fávita. Hvað þá að eyða færslunni sem myndi eingöngu sýna fram á slæma samvisku. Betra væri að reyna að útskýra málið, biðjast afsökunar á að hafa komið öðrum í uppnám og reyna að benda á bloggfærslur þar sem húmorinn gagnvart heimilislífinu kæmi berlega í ljós.

En í dýraverndunarbloggfærslunni var ekkert slíkt gert heldur var það gert hlægilegt að hafa áhyggjur af velferð dýra. Dýraverndunarsinnar dæmdir ómarktækir og vitleysingar (hér er ég að túlka orð sem þar féllu, bæði í færslunni sjálfri og í athugasemdum, ekki vitna beint til þeirra). Þar sem fólkið sem þar skrifar þykist allflest samt vera hlynnt góðri meðferð á dýrum er sérlega sorglegt hvað þeim þykir skemmtilegt að hlægja að fólki sem leggur sig allt fram við að beita sér í þágu dýra og starfar jafnvel við dýraverndunarmál. Það er ekki talið því til tekna heldur gert hlægilegt. Í stað þess að segja: mikið er nú gott að einhver grípur inn í (jafnvel þó það sé hugsanlega á misskilningi byggt) þegar álitið er að verið sé að níðast á dýrum. Og það er allsekki reynt að ræða við dýravinina sem vilja skipta sér af þegar einhver lýsir því fjálglega yfir að hafa beitt dýr ofbeldi heldur látið eins og slíkt sé fáránleg afskiptasemi.

Mikið er það ömurleg umræða.

___

Viðbót til skýringar: Ég er ekki að mæla því fólki bót sem skrifar tryllingslegar ofbeldishótanir í athugasemdakerfi DV þegar fjallað er um ofbeldi gegn dýrum (eða mannfólki). Að lýsa í smáatriðum hvernig refsa eigi fyrir hryllilegt ofbeldi með engu síður hryllilegu ofbeldi er undarleg aðferð til að segja að maður sé á móti ofbeldi. Það sem ég skrifaði í pistlinum átti við um það fólk sem er nafngreint á blogginu sem ég vísa í.

Efnisorð: