föstudagur, janúar 13, 2012

Hæfir betur á hálkuna

Til að glöggva mig á hvenær bíómyndin sem ég ætla að horfa á verður sýnd fór ég á vef Ríkisútvarpsins til að skoða dagskrána. Sé þá fréttina um að iðnaðarsalt hefur verið selt matvælafyrirtækjum sem matarsalt undanfarin 13 ár. Matvælastofnun komst að þessu nýjasta hneyksli í því sem virðist ætla að verða röð hneyksla: díoxín mengun í Skutulsfirði, Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri og tröllaukið magn kadmíums í túnáburði — og til þess að vera í stíl við yfirhylmingar þessara mála (hverjum þjónar Matvælastofnun eiginlega?) eða kannski til að skemma ekki söluna fyrir jólin þá fékk Ölgerðin að selja iðnaðarsaltið á undanþágu frá því í nóvember. Mikið hlýtur það nú að auka á ánægju okkar sem höldum alltaf eins og fífl að í nútímasamfélögum sé hagur neytandans hafður í huga en ekki bara gróði einkafyrirtækja (eða lýtalækna með einkastofur).

Það væri annars ágætt að fá að vita fljótlega hvaða matvælafyrirtæki það eru sem keyptu iðnaðarsaltið. Það salt sem ég ætlaði að strá yfir poppið til að maula með myndinni er merkt Kötlu* — en ég hef eiginlega misst lyst á því að borða popp í kvöld.

___
Viðbót: Birtur hefur verið listi yfir matvælafyrirtæki sem keyptu og notuðu iðnaðarsaltið. Þ.á m. er fjöldi bakaría og Mjólkursamsalan.
* Rétt er að taka fram að Katla er ekki eitt fyrirtækjanna á listanum. Það verður því poppað á heimilinu í kvöld!
Viðbót á mánudagsmorgni: Pistill Guðmundar Andra Thorssonar um fúsk og fyrirlitningu gagnvart íslenskum almenningi er góður. Hann bendir m.a. á að „Þetta er hugsunarháttur sóðans sem hugsar: Þetta getur ekki átt að vera svo naujið, þetta hlýtur að vera nógu gott – það finnur enginn muninn.“

Efnisorð: